Fjárlög 2004

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 17:37:45 (120)

2003-10-03 17:37:45# 130. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., EOK
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[17:37]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Gefist hefur ástæða til þess að ég ítreki og fari yfir alþjóðlegan samanburð í kostnaði heilbrigðiskerfisins.

Það er þannig að OECD gefur út árlega yfirlit yfir dreifingu á þessum kostnaði ríkisstjórnanna eins og yfirlit um önnur mál. Ég fór yfir það hérna áðan að það væri gegnumgangandi í þessum skýrslum að Evrópuþjóðirnar væru að eyða um 2% af vergri landsframleiðslu, þ.e. einstaklingarnir og fyrirtækin, tryggingarnar, væru að eyða um 2% af vergri landsframleiðslu í heilbrigðismál. Ísland er þar undanskilið og öðruvísi því að við erum bara með rúmt 1%, 1,2--1,3%. Þannig sker Ísland sig úr öðrum Evrópuríkjum.

Það er mjög nauðsynlegt að menn átti sig á því að í Ameríku, sérstaklega Bandaríkjunum, er þetta allt öðruvísi og ekki samanburðarhæft. Bandaríkin eru hins vegar með mikinn opinberan kostnað í heilbrigðismálum, í kringum 7% af landsframleiðslunni. En einstaklingarnir og tryggingarnar þar greiða miklu hærri upphæðir en nokkurn tíma hefur þekkst í hinu evrópska kerfi. Þeir borga eitthvað svipað, þannig að heildarkostnaðurinn í Bandaríkjunum í heilbrigðismálum er miklu hærri en nokkurs staðar annars staðar. Bandaríkin eru ekkert sambærileg og ekkert þýðir að bera þetta saman. Við eigum að bera okkur saman við Evrópuríkin sem eru nokkurn veginn samferða í því hvernig þau standa að sínum málum. Það er mjög samanburðarhæft að öllu leyti.

Á undanförnum árum hefur Þýskaland verið með einna hæst opinbert framlag til heilbrigðismála. En á síðustu tveim, þrem árum hefur Ísland sótt þar mjög fast á. Ég fæ ekki betur séð á þeim fjárlögum sem hér liggja fyrir, þar sem mig minnir að 73.578 milljónir séu ætlaðar til heilbrigðismála --- landsframleiðslan er 861 milljarður. Það er þá 8,54 og við vitum að einstaklingarnir borga um það bil 1,2--1,3% --- að til þess horfir, og mér sýnist það augljóst, að við séum að borga hæsta hlutfall sem þekkist í Evrópu til heilbrigðismála.

Þess ber líka að geta, herra forseti, að Ísland er yngsta þjóð Evrópu. Tyrkir eru á nokkuð svipuðu stigi og við. En þeir eru nú ekki samanburðarhæfir í heilbriðgismálum. Það er mjög þekkt og vitað að aldurssamsetning þjóða hefur mjög mikil áhrif á útgjöld til heilbrigðismála. Ef við ætlum að hliðra þessum tölum miðað við aldurssamsetningu þá erum við ekki eingöngu hæstir heldur langhæstir. Það er mikið áhyggjuefni og ég ætla að ítreka það hér, herra forseti, að þessi kostnaður hefur vaxið mjög hröðum skrefum á undanförnum árum, á síðustu fjórum árum um 22 þús. millj., 22.192 milljónir.

Ef við ætlum --- og ég veit að við ætlum og ég veit að við viljum --- að reyna allt sem við getum til þess að aukningin í samneyslunni verði innan þeirra marka sem við höfum sett okkur, þ.e. að raunaukningin verði ekki meiri en um 2% á ári, þá er algjörlega tilgangslaust að láta sér detta í hug að við náum nokkrum þeim árangri öðruvísi en að horfast í augu við að við verðum líka að stemma stigu við útgjaldaaukningunni í heilbrigðismálum, stemma stigu við hraða aukningarinnar og reyna að halda okkur þar á 2% aukningu. Annars skulum við bara gleyma þessum markmiðum okkar.

Enginn efast um að íslensk heilbrigðismál séu mjög góð. Þau fá viðurkenningu alls staðar frá. Þau eru frábær. Við höfum hins vegar ekki verið talin í hópi þeirra ríkja sem hafa fengið verðlaun á undanförnum árum frá Alþjóðabankanum. Það hafa nú verið Frakkar og aðrir, t.d. Belgar. En við stöndum mjög vel. Við verðum að horfast í augu við þetta. Þetta er verkefnið og þess vegna eigum við að horfast í augu við það að aukningin hefur verið gríðarleg. Nú ber okkur að reyna að hemja hana einhvern veginn. Þetta eru staðreyndir sem liggja fyrir.

Það breytir engu þó að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson komi hér og segi að þetta sé ósatt. Þetta er satt og það er rétt bara að viðurkenna það og horfast í augu við það. Þetta er líka viðfangsefni sem við verðum að fást við í heilbrigðismálunum.