Fjárlög 2004

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 17:43:44 (121)

2003-10-03 17:43:44# 130. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[17:43]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur verið fróðlegt að hlýða á þessar umræður í dag um fjárlögin og kannski ekki hvað síst reyna að átta sig á þeim merku skýringum sem hér hafa komið fram á því hvers vegna ekki eigi að standa við kosningaloforðin. Það hefur reyndar verið rætt hér fram og til baka og kannski er ekki ástæða til þess að bæta mikið í það.

Ég get hins vegar tekið undir með hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni því ef við greinum heilbrigðiskerfið þannig að það sé að taka við þeim sem þangað leita og gera eins vel og hægt er, þá er íslenskt heilbrigðiskerfi án efa á heimsmælikvarða og stendur sjálfsagt einna fremst, alveg sama við hvaða þjóð er borið saman. Ég get líka tekið undir með hv. þm. að við höfum sjálfir séð útgjöld í heilbrigðiskerfinu hækka á hverju einasta ári og ætíð hafa verið fluttar sömu ræðurnar um að mikilvægt sé að taka á í þessum málaflokki. Kannski hefur hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson flutt hvað flestar og lengstar ræður um að nauðsynlegt sé að taka á í þessum málaflokki. Hv. þm. stendur núna í níunda skiptið að fjárlagafrumvarpi.

Mig langar því að spyrja hv. þm. í þessu samhengi: Hvernig stendur á því að á hverju ári er þessi ræða flutt um að nauðsynlegt sé að taka á sjálfvirkri þenslu í heilbrigðiskerfinu, en við sjáum aldrei neinar metnaðarfullar hugmyndir um hvernig eigi að gera þetta og hvernig eigi að taka á þessu? Það er t.d. lítið sem ekkert að sjá í þessu frv. um að ætlunin sé að reyna að huga að forvörnum eða öðru slíku. Þetta eru sömu sjálfvirku útgjöldin. Er veruleikinn sá að ríkisstjórnin er bara orðin svona þreytt á að taka á þeim vanda sem hv. þm. hefur hér talað um, held ég, meira og minna frá því að hann kom á þing?