Fjárlög 2004

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 17:55:23 (127)

2003-10-03 17:55:23# 130. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[17:55]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Mér þykja það nokkuð merkileg tíðindi ef ég hef verið í fararbroddi þeirra manna sem hafa talað hvað óvarlegast um íslensk heilbrigðismál. Það er einhver einkunn sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson vill gefa mér. En ég efast um að hann geti fundið orðum sínum stað. Það er þá hans vandamál.

Það var grein í Morgunblaðinu, leiðari, fyrir nokkrum dögum um heilbrigðismálin. Leiðaranum lauk á þessum orðum: ,,Það er ekki sparnaður nema eitthvað sparist.`` Það er heilmikil speki í þessu. Við horfum upp á það og vitum það að kostnaðurinn er að aukast. Almenningur trúir því að það sé verið að skera niður á spítölunum, það sé verið að minnka framlög til heilbrigðismála á sama tíma og við jukum framlögin á síðustu fjórum árum um 22 þús. millj. Framlögin hafa aukist meira en við ætluðum. Það eru staðreyndirnar sem liggja fyrir. Það er ekki að tala óvarlega að benda á staðreyndir, eða hvað?

Við höfum sett fjárlög og menn hafa staðið saman að því. Við 2. umr. fjárlaga getum við farið nákvæmar yfir það hvað hefur gerst. Ég ætla ekki að gera það núna. Við erum einmitt að athuga núna t.d. Landspítalann -- háskólasjúkrahús. Við skulum þá bera það saman þegar þar að kemur hver hefur verið óraunhæfur og hver ekki. En þingið var örugglega að gera það sem það taldi rétt og hefur talið rétt og var með áætlanir um það á sínum snærum.

Þetta er málið. Heilbrigðismálin eru svo stór hluti af útgjöldum ríkisins að ef menn ætla að reyna að hemja útgjöldin þá geta þeir ekki litið fram hjá þessum kostnaðarþætti.