Fjárlög 2004

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 17:57:36 (128)

2003-10-03 17:57:36# 130. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[17:57]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Hér hefur farið fram athyglisverð og ítarleg umræða í dag um fjárlagafrumvarp næsta árs og önnur þau plögg sem frammi liggja og tengjast fjárlagafrumvarpinu. Ég vil þakka fyrir málefnalega umræðu á þessum vettvangi í dag.

En eðli málsins samkvæmt er umræðan við 1. umr. að sjálfsögðu almenns eðlis og blandast þar ýmislegt inn í eftir því hver hugðarefni einstakra þingmanna kunna að vera. Þetta er sú skipan sem tíðkast hefur á Alþingi Íslendinga og á reyndar við um önnur þingmál og ekki eingöngu fjárlagafrumvarpið. 1. umr. er almenns eðlis, síðan ræða menn málin í meiri smáatriðum, sérstaklega við 2. umr.

Í umræðunni í dag var af nýjum þingmanni hreyft við þeirri hugmynd að rétt væri að taka þessa almennu umræðu fyrr á árinu, þ.e. á vorþingi, og ræða rammasetninguna þá og hefja meiri eða kannski dýpri umræðu um þetta leyti árs um efni fjárlagafrumvarps komandi árs. Þetta er reyndar ekki ný hugmynd og þannig er þetta gert sums staðar í nálægum löndum, en eigi að síður hefur það ekki verið talið henta okkar aðstæðum, a.m.k. ekki fram til þessa.

[18:00]

Ég vil víkja hér að örfáum einstökum atriðum sem nefnd hafa verið í umræðunni en koma síðan að því sem margir þingmenn hafa nefnt og snýr að skattamálum.

Ég vil fyrst láta þess getið varðandi það sem hv. þm. Einar Már Sigurðarson sagði í sambandi við þróunaraðstoðina að því miður hefur slæðst meinleg villa inn í fjárlagafrv. sem ég vil nota tækifærið og leiðrétta, hún skrifast alfarið á okkar reikning í fjmrn. En þannig er að á lið Þróunarsamvinnustofnunar var gerð svokölluð gengisleiðrétting, eins og gert er um aðra gengisbundna liði, en átti ekki að gera hvað varðaði Þróunarsamvinnustofnunina. Þetta uppgötvaðist ekki fyrr en lokið var við að prenta talnabálk frumvarpsins og því er skekkja í frv. að þessu leyti til sem nemur 43,3 millj. kr. Við munum beita okkur fyrir því að þetta verði leiðrétt í meðförum þingsins. Ég vil greina frá því hér en jafnframt biðjast velvirðingar á þessum leiðu mistökum. --- Hvort þessi breyting nægir síðan til þess að gera þingmanninn ánægðan, það er svo önnur saga sem ég ætla ekki að spá í, en þarna munar um 10%.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson gat sér þess til án þess að hann vildi fullyrða það beint að rannsóknarframlög væru í raun að minnka, sérstaklega hvað varðaði grunnrannsóknir. Ég andmæli þessu og vísa til þess sem ég sagði í framsöguræðu minni um það að rannsóknarframlögin eru að hækka. Það eru hér aukin framlög um nokkur hundruð milljónir. En hvað varðar grunnrannsóknirnar held ég að það sé alveg óhætt að halda því fram að sá greinarmunur sem gerður hefur verið á grunnrannsóknum og hagnýtum rannsóknum sé mjög á undanhaldi þannig að ég held að það sé ekki hægt að draga þar alveg jafnskýra línu og hv. þm. vildi vera láta. Þess vegna segi ég það að ég held mig við það sem ég sagði í framsöguræðu minni, að framlögin eru að aukast verulega og munu halda áfram að að gera það út allt kjörtímabilið í samræmi við þá stefnumótun sem ríkisstjórnin kynnti í vor og var afgreidd hér í þinginu með lagabreytingum.

Það kom fyrirspurn frá hv. þm. Helga Hjörvar um stöðu Fæðingarorlofssjóðs. Ég hygg að þingheimur allur viti það að hann gengur nú á sína fjármuni, en því er við að bæta að félagsmálaráðherra hefur þegar hafið undirbúning að því að skoða það mál sérstaklega og geri ég ráð fyrir því að hann muni gera þinginu grein fyrir því síðar í vetur með hvaða hætti verður brugðist þar við.

Félagsmálaráðherra og heilbrigðisráðherra einnig hafa síðan gert grein fyrir ýmsum atriðum sem snúa að þeim og ráðuneytum þeirra í tengslum við fjárlagafrumvarpið og ég ætla ekkert að reyna að bæta þar um betur. Þeir hafa gert grein fyrir þeim brtt. við önnur lög sem undir þá heyra eða þær breytingar sem ætlunin er að gera á reglugerðum í tengslum við gjaldtöku sem undir þá heyra. Ég tel að þeir hafi flutt alveg fullkomlega frambærileg rök fyrir því sem ætlunin er að gera í þeim efnum.

Ég vil þá, herra forseti, víkja nokkuð að því málefni sem margir hafa fitjað upp á í dag og tengist skattamálunum og þeim fyrirætlunum ríkisstjórnarinnar að lækka hér ýmsa skatta um sem nemur u.þ.b. 20 milljörðum kr. frá og með árinu 2005 og út kjörtímabilið. Það er eins og það skipti nokkuð í tvö horn hvað þetta varðar, ólíklegustu menn kvarta undan því að þetta sé allt of lítið og allt of seint. Aðrir kvarta yfir því að hér sé haft í hótunum við skattgreiðendur um að draga úr tekjum ríkissjóðs. (ÖJ: Njótendur þjónustunnar.) En mér heyrist að aðallínan frá Samfylkingunni sé sú að þetta sé allt of lítið og allt of seint og miklu minna en þeir mundu hafa gert, á meðan Vinstri grænir halda því fram að þetta sé hinn mesti skaðvaldur og fáránlegar tillögur. Þó er nú ekki Samfylkingin að því er virðist á einu máli, vegna þess að a.m.k. einn þingmaður þar í flokki talaði af mikilli varúð og gætni um þessi mál, hv. þm. Jóhann Ársælsson, og varaði við skattalækkunum. Í það minnsta heyrði ég ekki betur. Hann taldi það óvarlegt að vera að lofa skattalækkunum við núverandi aðstæður.

Ég spyr bara: Hvernig halda menn að þessir tveir flokkar, sem voru að reyna að komast í ríkisstjórn saman, hv. vinstri grænir og samfylkingarmenn, hefðu náð saman um þennan þátt mála með svona gerólíka stefnu? Því að menn hafa verið að kvarta yfir því að við sjálfstæðismenn og framsóknarmenn skyldum hafa þurft að gera ákveðnar málamiðlanir til þess að samræma okkar afstöðu miðað við það að kosningastefnuskrár okkar voru ekki samhljóða um þetta málefni. Auðvitað er það þannig að eftir að búið er að mynda ríkisstjórn þá er það stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar sem er vegvísirinn, eins og ég hef leyft mér að kalla það, það er hún sem gildir fyrir hina sameiginlegu stefnu ríkisstjórnarinnar. Þar ná menn auðvitað ekki öllu sínu fram, menn gera tilteknar málamiðlanir, reyna að koma til móts við sjónarmið hver annars.

Það hefur verið gert í þessu máli og ég las upp í framsöguræðu minni fyrr í dag hvað segir í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar varðandi skattamálin. Ég dreg enga dul á það að við sjálfstæðismenn erum býsna ánægðir með það sem þar stendur um þau mál með tilliti til stefnuyfirlýsingar okkar fyrir kosningar. Við gættum þess hins vegar mjög vandlega fyrir kosningar, og þess vegna er það rangt þegar menn segja annað, að skattalækkunarloforð okkar giltu fyrir allt kjörtímabilið. Ég margítrekaði það þar sem ég kom fram fyrir hönd Sjálfstfl. í aðdraganda kosninganna að það ætti eftir að tímasetja nákvæmlega þær lækkanir og jafnframt ganga nákvæmlega frá því hvar yrði borið niður í hvert sinn.

En núna liggur fyrir ákveðin niðurstaða milli flokkanna og hún er sú að við ætlum að fara í skattalækkunarprógramm, ef svo mætti segja, frá og með árinu 2005. Við ætlum ekki að leggja það nákvæmlega á borðið fyrr en fyrir liggur hver verður niðurstaða kjarasamninga hér í vetur, enda var það af hálfu Framsfl. á sl. vori áhersluatriði að tengja þetta kjarasamningum. Síðan kemur til greina af okkar hálfu að lögfesta allt prógrammið. Með öðrum orðum, það verður ekki gert í haust, það er alveg skýrt svar við þeirri spurningu sem a.m.k. tveir þingmenn spurðu hér um, það verður ekki gert í haust. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar, alveg eins og ég var fyrir kosningar og alveg eins og vitnað var í forsrh. um, að það hefði verið best að gera það núna í haust, láta það liggja fyrir frá fyrsta degi hvar ætti að bera niður í skattalækkunum og hvenær. En það varð ekki niðurstaðan. Ég tel hins vegar að það væri samt sem áður hyggilegt að gera það þegar niðurstaðan verður fengin milli flokkanna og þegar ljóst verður hvað kemur út úr kjarasamningum á almennum vinnumarkaði. Þannig liggur þetta mál.

Þess vegna er ekki hægt að svara spurningu hv. þm. Helga Hjörvars um það hverjar verða skatttekjurnar af tekjuskatti einstaklinga árið 2007, vegna þess að það er ekki búið að útfæra það nákvæmlega hvenær á að fara í tekjuskatt, hvenær á að fara í eignarskatt, hvenær á að fara í erfðafjárskatt eða með hvaða hætti á að fara í virðisaukaskatt. Það hefur ekki verið ákveðið hvernig það verður gert. Hins vegar liggja fyrir tilteknar forsendur í framreikningum um upphæðir en ekki skiptingu milli skatttegunda, og það er þess vegna sem ekki er hægt að svara hv. þm. Við ætlum að geyma okkur það að ganga frá þessu máli þangað til síðar en vonandi tekst það á þessum vetri, þ.e. að því gefnu að það takist kjarasamningar þá hefði það verið mín ósk að við mundum leggja fyrir þingið tillögur um að lögfesta þær breytingar sem um verður samkomulag. Ég er ekki að fullyrða að við náum að gera það en ég tel að það væri æskilegast. Þá mundu allir vita hvar þeir standa í því efni.

Þetta er það sem ég vildi sagt hafa, herra forseti, um þessi mál að þessu sinni. Að öðru leyti vil ég aðeins þakka mönnum aftur fyrir málefnalegar umræður og segja það enn á ný að ég óska eftir góðu samstarfi við fjárln. og heiti fullum stuðningi starfsmanna fjmrn. við störf hennar eftir því sem óskað verður eftir.