Fjárlög 2004

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 18:20:35 (135)

2003-10-03 18:20:35# 130. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., HHj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[18:20]

Helgi Hjörvar (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér er ekki alveg ljóst hver það er sem á að vera með útúrsnúninga í þessum sal, hæstv. fjmrh., því ég hef ekki heyrt betur en Sjálfstfl. hafi lofað því upp á æru og trú að hér yrðu á haustþingi flutt frumvörp um lækkun skatta. Og þegar hæstv. fjmrh. segir að í viðræðum Sjálfstfl. við Framsfl. hafi hann ekki náð þessu fram og það hafi orðið að samkomulagi að hér yrðu ekki flutt frumvörp um skattalækkanir á haustþingi, heldur bara um skattahækkanir, þá hlýtur hæstv. fjmrh. að vera að vísa ábyrgðinni yfir á samstarfsflokk sinn. Nema hæstv. fjmrh. sé að lýsa því yfir að Sjálfstfl. hafi bara sjálfur tekið það að sér að svíkja þau loforð sem hæstv. forsrh. gaf rétt mánuði fyrir kosningar í vor.