Fjárlög 2004

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 18:22:48 (137)

2003-10-03 18:22:48# 130. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[18:22]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Aðeins vegna orða hæstv. fjmrh. um skattamálin sem eðlilega hafa verið töluvert stór hluti af umræðunni hér í dag. Hæstv. ráðherra virðist vera í einhverjum vandræðum með að átta sig á viðhorfi Samf. til þessa máls og telur að það megi draga saman viðhorf okkar á þá leið að Samf. telji tillögurnar vera of litlar og of seint fram komnar. Mér finnst það nú afar undarleg niðurstaða hjá hæstv. ráðherra að telja þetta. Gagnrýni okkar í dag hefur fyrst og fremst beinst að því að ekki er verið að segja það sama í dag og sagt var fyrir kosningar. Það er verið að lofa skattalækkunum einhvers staðar inni í framtíðinni án þess að það sé skilgreint, hvorki í tíma né aðferðum. Og síðast en ekki síst höfum við undrað okkur á því að fyrsta ár kjörtímabilsins skuli byrja á því að komið sé með skattahækkanir. Að boða skattalækkanir og síðan framkvæma skattahækkanir. Þetta hefur nú verið megininntak gagnrýni okkar í dag.

Það er auðvitað eðlilegt þess vegna, herra forseti, að spyrja hæstv. fjmrh.: Þegar kemur að skattahækkunum og 20 milljarðar hafa verið nefndir, verður þá mismunurinn af skattahækkunum og skattalækkunum 20 milljarðar? Eða verður skattalækkunin bara 20 milljarðar og verður búið í einhvern ótilgreindan árafjölda að safna upp í þá skattalækkun með skattahækkun?