Hugsanleg aðild Noregs að ESB

Mánudaginn 06. október 2003, kl. 15:03:16 (144)

2003-10-06 15:03:16# 130. lþ. 4.1 fundur 45#B hugsanleg aðild Noregs að ESB# (óundirbúin fsp.), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 130. lþ.

[15:03]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að ég hef oft og iðulega átt samtöl við Kjell Magne Bondevik, forsætisráðherra Noregs, um Evrópumál, bæði formleg og óformleg. Ekki höfum við þurft að fljúga hvor til annars í hvert skipti heldur höfum við einnig átt margvísleg símtöl um þau efni í rás tímans og ég þykist þekkja ágætlega viðhorf hans til þeirra mála. Ég er ekki endilega að segja að þau séu nákvæmlega upp á hvern stafkrók þau sömu og ég hef haft en þó hefur margt verið sambærilegt og svipað.

Ég hef nú rétt haft tíma til að skoða þessi tilfærðu ummæli sem hv. þm. nefnir. Mér sýnist að það séu afar margir fyrirvarar slegnir af hálfu forsætisráðherra Noregs og ég sé ekki að ummæli míns ágæta vinar, norska forsætisráðherrans, gefi tilefni til þess að ég endurskoði afstöðu mína. Með mikilli og langri vináttu og virðingu þarf samt meira til að hagga mér þó að aðrir vilji skoða einhverja hluti, þ.e. ef undanþágur fengjust frá öllum mögulegum hlutum sem ekki er líklegt að undanþágur fengjust fyrir. Ég sé þetta ekki sem eins mikil tímamót og þeir þarna hjá netútgáfu Aftenpostens.