Hugsanleg aðild Noregs að ESB

Mánudaginn 06. október 2003, kl. 15:06:10 (146)

2003-10-06 15:06:10# 130. lþ. 4.1 fundur 45#B hugsanleg aðild Noregs að ESB# (óundirbúin fsp.), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 130. lþ.

[15:06]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Hv. þingmanni skjöplaðist aðeins undir það síðasta. Ég er ekki að setja á fót aldamótanefnd, heldur Evrópunefnd en í aldamótanefndinni sem hv. þm. nefndi og hefur oft nefnt til sögunnar sátu fleiri en ég. Þar sátu til að mynda hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson og Sigríður A. Þórðardóttir þó að ég hefði formennsku í nefndinni. Ég hef í rauninni ekkert skipt um skoðun frá þeim tíma sem ég hafði formennsku í þeirri nefnd. Ég taldi á þeim tíma að menn þyrftu að skoða ýmsa kosti sem væru hugsanlega fyrir hendi. Nú liggja allir þeir þættir fyrir, 100%, og þeir hafa reynst neikvæðir. Ég vildi að sú skoðun ætti sér stað og ég hef sem betur fer í starfi mínu haft betri aðgang til þess að skoða þá kosti en nokkur annar maður íslenskur. Ég hef haft tækifæri til að ræða við nánast alla forustumenn Evrópusambandsins, æðstu menn þar á bæ, í gegnum langa hríð og þekki þess vegna mjög vel til þessara mála. Ég hef ekki breytt um skoðun, taldi þá að það þyrfti að skoða þá kosti sem fyrir hendi væru. Þeir liggja nú fyrir, klárir í mínum huga, þannig að ég tel það ekki skipta máli.

Varðandi nefndina hins vegar tel ég að hún eigi ekki að lúta minni forskrift, heldur eigi að skoða þar alla kosti og ég geri ekki ráð fyrir að aðrir þingflokkar mundu setja sig í þá nefnd nema vegna þess að þar verði allir kostir opnir til skoðunar, í þeirri nefnd.