Matvælaverð á Íslandi og í nágrannalöndunum

Mánudaginn 06. október 2003, kl. 15:11:40 (150)

2003-10-06 15:11:40# 130. lþ. 4.1 fundur 46#B matvælaverð á Íslandi og í nágrannalöndunum# (óundirbúin fsp.), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 130. lþ.

[15:11]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Það er rétt sem hv. þm. nefndi að Hagfræðistofnun Háskólans var með sérstökum samningi falið þetta verkefni og er öðrum stofnunum ekki til að dreifa hvað verkefnið varðar að svo stöddu. Ég veit ekki annað en að stofnunin muni standa við þennan samning og klára hann. Það er hins vegar rétt að í ályktuninni fólst að stefnt skyldi að því að kynna mætti þinginu málið innan sex mánaða og út af fyrir sig var ég áhugamaður um það á sínum tíma, eins og þingmaðurinn veit. Þetta var stjórnarandstöðumál sem þingmaðurinn hafði forustu um og stjórnarflokkarnir samþykktu af því að okkur fannst áhugavert að sundurgreina þetta mál og hafa það fyrir framan þingheim allan. Og við erum ekki að sýna neitt áhugaleysi í málinu. Þvert á móti, við viljum að þetta sé vel unnið og muni gagnast þinginu. Ég vænti þess að upplýsingarnar sem þarna munu koma fram, þó að ég hafi engar upplýsingar um það hvert þær beinast, muni reynast okkur þörf vísbending inn í framtíðina. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að Evrópusambandið hafi ekkert með matarverð að gera hér á landi. Á því höfum við fullt vald sjálf, gætum breytt því sem við teldum að breyta þyrfti. Það hefur í raun ekkert með Evrópusambandið að gera. Þó að sumir haldi að sólin komi upp í Brussel er það ekki svo.