Matvælaverð á Íslandi og í nágrannalöndunum

Mánudaginn 06. október 2003, kl. 15:13:12 (151)

2003-10-06 15:13:12# 130. lþ. 4.1 fundur 46#B matvælaverð á Íslandi og í nágrannalöndunum# (óundirbúin fsp.), RG
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 130. lþ.

[15:13]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Já, það er svolítið eins og að hella olíu á eld ef maður nefnir Evrópusambandið í þessum sal og hæstv. forsrh. er nálægur. Þess vegna gat ég ekki stillt mig um að nefna það þar sem fyrirspurnin hér á undan beindist beinlínis að því.

Það er einfaldlega þannig að meðaltal matarverðs á öllum sviðum í Evrópusambandinu er svo langt undir því sem gerist hér á Íslandi og eins og fram kom í samanburði sem fékkst í fyrravor vorum við með nærri 70% hærra matarverð en meðaltalsverð í Evrópulöndunum.

Það er alvarlegt umhugsunarefni líka, virðulegi forseti, að ég fékk Hagstofuna til að skoða hvaða breyting hefði orðið á matvælavísitölunni árið 2002 og það kemur í ljós að hún hefur hækkað um 5 stig á sama tíma og erlendur gjaldmiðill hefur lækkað um 1,7% sem hefði átt að hafa mjög mikil áhrif á matarverð og aðföng. En ég þakka þetta góða svar og vænti þess að við getum tekið saman höndum um að gera þessar breytingar.