Alþjóðlegt friðargæslulið Sameinuðu þjóðanna til Palestínu

Mánudaginn 06. október 2003, kl. 15:19:41 (156)

2003-10-06 15:19:41# 130. lþ. 4.1 fundur 47#B alþjóðlegt friðargæslulið Sameinuðu þjóðanna til Palestínu# (óundirbúin fsp.), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 130. lþ.

[15:19]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég, eins og margir aðrir, fordæmi árás Ísraelsmanna á Sýrland. Þó að ég skilji vel réttláta reiði Ísraelsmanna vegna sjálfsmorðsárásar í Haifa þá tel ég að það muni ekki bæta um að ráðast inn í Sýrland. Ég get endurtekið það hér að ég tel að Palestínumenn þurfi að taka betur á sínum málum og það telur forsætisráðherra þess lands jafnframt. Það hefur lengi legið fyrir að Palestínumenn þurfa að taka betur á sínum öryggismálum og koma með viðvarandi hætti í veg fyrir það að slíkar árásir geti átt sér stað. Það er því ekkert nýtt í því sambandi.

Hins vegar er jafnframt nauðsynlegt að Ísraelsmenn standi betur við það sem gert er ráð fyrir í friðaráætluninni. Ég er sannfærður um að þessi árás inn í Sýrland hjálpar ekki til í þeim efnum því hún mun aðeins stigmagna þessi átök.

Ég er þeirrar skoðunar að ekki verði komið á friði á þessu svæði nema með aðstoð alþjóðasamfélagsins og alþjóðlegum friðargæsluliðum og flestir eru þeirrar skoðunar. En það er ekki svo einfalt að við getum samþykkt það hér og nú að friðargæslulið fari þarna inn. Það þarf að fara þarna inn með vilja beggja aðila, bæði Ísraelsmanna og Palestínumanna. Það verður að skapast bærileg sátt um það. Sú sátt er því miður ekki núna fyrir hendi. En við skulum vona að þessi átök stigmagnist ekki heldur gangi í aðra átt. Full ástæða er til þess að hafa miklar áhyggjur af þeirri þróun sem þarna á sér stað og ég vona að hv. þingmaður sé mér sammála um það.