Alþjóðlegt friðargæslulið Sameinuðu þjóðanna til Palestínu

Mánudaginn 06. október 2003, kl. 15:23:26 (158)

2003-10-06 15:23:26# 130. lþ. 4.1 fundur 47#B alþjóðlegt friðargæslulið Sameinuðu þjóðanna til Palestínu# (óundirbúin fsp.), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 130. lþ.

[15:23]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Skildi ég hv. þm. rétt, að hann væri að réttlæta sjálfsmorðsárásina? Telur hv. þm. virkilega að hér eigi eingöngu þessi stúlka hlut að máli? Er hann þeirrar skoðunar að hún hafi búið til sprengjurnar sem hún festi á sig? Auðvitað er það vitað mál að hér er skipulag að baki.

Með sama hætti og við fordæmum árásina á Sýrland þá hljótum við að fordæma slík hryðjuverk. Það er vitað mál að þeir einstaklingar sem taka þátt í þessum voðaverkum með því að fórna lífi sínu með þessum hætti eru ekki einir að verki. Því miður eru miklu fleiri þar á bak við og það verður að hafa í huga þegar rætt er um þessi mál.