Sjókvíaeldi

Mánudaginn 06. október 2003, kl. 15:34:27 (167)

2003-10-06 15:34:27# 130. lþ. 4.1 fundur 49#B sjókvíaeldi# (óundirbúin fsp.), KolH
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 130. lþ.

[15:34]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegur forseti. Strangar reglur að mati hæstv. landbrh. nægja ekki, það er alveg ljóst, það verður að gera meira en gert hefur verið. Og þó að hæstv. landbrh. hafi bannað eldi á frjóum laxi í kvíum í ákveðnum fjörðum, þá hefur ekkert verið bannað um eldi á ófrjóum laxi og það er vitað að hann getur líka valdið skaða í lífríkinu í ám þar sem villtur stofn hreiðrar um sig.

Það hljómaði eins og hæstv. ráðherra væri að biðja færeysku fiskeldi bölbæna hér áðan. Ég ætla að vona að Færeyingarnir sleppi við böl það sem getur stafað af fiskeldinu eins og maður vonar auðvitað að Íslendingar sleppi við það. En sannleikurinn er auðvitað sá að laxar sleppa úr kvíum og sannleikurinn er líka sá að Íslendingum hefur ekki tekist að koma í veg fyrir slíkar sleppingar. Það hafa áralangar rannsóknir sýnt þar sem eldislax og eldissilungur hefur verið að skila sér í ár, ekki bara núna heldur líka í fyrra.