Sjókvíaeldi

Mánudaginn 06. október 2003, kl. 15:35:43 (168)

2003-10-06 15:35:43# 130. lþ. 4.1 fundur 49#B sjókvíaeldi# (óundirbúin fsp.), landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 130. lþ.

[15:35]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Nei, ég bið ekki færeysku fiskeldi bölbæna. Færeyingar stunda það hins vegar að veiða lax í sjó og ég vona að þeir nái þessum laxi sem hér slapp þannig að það er mikilvægt.

Það má segja að sú hugsun sem snýr að erfðablöndun sé ekkert mjög gömul í landinu. Hún er tiltölulega ný af nálinni. Það er ekkert langt síðan við fórum hér með kynbættan Kollafjarðarstofn um flestar ár landsins. Ég virði þessa nýju hugsun vísindamanna og vil vernda hana á allan hátt og draga úr erfðablöndun. Við eigum hér dýrmætan íslensk-norskan lax sem við viljum nota til þess að skapa verðmæti á Íslandi og það horfir í sjálfu sér vel. Ég vil bara fylgja því eftir með sem ströngustum reglum og koma í veg fyrir slys og ég hygg að fiskeldismenn séu mér algerlega sammála. Þeir vilja ekki skaða íslenskar fiskveiðiár og þeir eru ekkert að fara að brjóta þær reglur eða fara með fiskeldi í neina þá firði sem bannað er, enda yrðu þeir reknir upp aftur ef þeir færu þar niður.