Kjör og aðbúnaður starfsmanna við Kárahnjúka

Mánudaginn 06. október 2003, kl. 15:46:37 (172)

2003-10-06 15:46:37# 130. lþ. 4.96 fundur 56#B kjör og aðbúnaður starfsmanna við Kárahnjúka# (umræður utan dagskrár), félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 130. lþ.

[15:46]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon):

Herra forseti. Töluverð umræða hefur farið fram um stöðu mála við Kárahnjúka undanfarið. Hún snýr bæði að aðbúnaði, öryggi og hollustuháttum en ekki síst kjörum erlendra starfsmanna á svæðinu.

Það er út af fyrir sig ekki óeðlilegt að slík umræða fari fram. Hér er um að ræða eitt stærsta og mikilvægasta atvinnuuppbyggingarverkefni Íslandssögunnar og því brýnt fyrir alla aðila að það fari vel fram. Hins vegar veldur það mér áhyggjum að dregið sé í efa að farið sé að lögum og reglum og að íslenskir kjarasamningar séu virtir. Í mínum huga væri slík framkoma ólíðandi með öllu ef satt reyndist. Með henni væri grafið undan þeim leikreglum sem gilda á vinnumarkaði á Íslandi þar sem aðilar vinnumarkaðar semja í frjálsum samningum sín á milli um kaup og kjör. Slíkt veikir einnig samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja. Meginsjónarmið um velferð og lífskjör í okkar íslenska velferðarsamfélagi er í húfi ef leikreglur eru brotnar með slíkum hætti og það gengur ekki. Þetta hef ég ítrekað sagt, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, og undrast að þú skulir ekki hafa heyrt. Ég tel það vera hlutverk okkar að fylgjast með þessum málum og standa vörð um þessi meginsjónarmið. Það hef ég lagt mig fram um að gera og mun halda því áfram.

Vegna aukinna verkefna á svæðinu var starfsmönnum umdæmis Vinnueftirlits ríkisins á Austurlandi fjölgað um einn síðasta vor og eru þeir nú fjórir í 3,75 stöðugildum. Jafnframt veita sérfræðingar stofnunarinnar aðstoð við framkvæmd eftirlitsins og fara reglubundnar ferðir austur til aðstoðar starfsmönnum umdæmisins. Félmrn. hefur verið í sambandi við Vinnueftirlit ríkisins vegna þessara mála. Sameiginlegir fundir hafa verið haldnir og hefur Vinnueftirlitið gert ráðuneytinu grein fyrir þeim vanda sem við er að glíma. Að mati Vinnueftirlits hefði ýmislegt mátt betur fara og hefur stofnunin gert athugasemdir við eitt og annað í þeim efnum. Hins vegar hefur verið unnið að úrbótum af hálfu fyrirtækja á staðnum og hefur Vinnueftirlitið fylgst grannt með þeim.

Það er mat okkar að Vinnueftirlitið hafi haft ágæta stöðu til að fylgjast með gangi mála og rækja sitt lögbundna hlutverk. Ekkert hefur enn komið fram sem gefið hefur tilefni til að beita ákvæðum 87. gr. laga nr. 46 frá 1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Þar hefur Vinnueftirlitið heimild til að beita dagsektum vegna brota á lögunum. Vinnueftirlitið mun áfram rækja hlutverk sitt af kostgæfni og veita félmrn. upplýsingar um stöðu mála eftir þörfum. Það verður vakað yfir málum hér eftir sem hingað til.

Þá hefur ráðuneytið í samstarfi við Vinnumálastofnun farið rækilega yfir þær athugasemdir sem hafa komið fram vegna erlendra starfsmanna við Kárahnjúka. Tvennt hefur verið gagnrýnt fyrst og fremst, annars vegar að þeir njóti ekki kjara í samræmi við íslenska kjarasamninga, sem er ein forsendan fyrir útgáfu atvinnuleyfa, og hins vegar að þeir séu starfandi á ólögmætum grundvelli.

Félmrn. fól Vinnumálastofnun að kanna þessar ásakanir en hún hefur heimild til að afturkalla atvinnuleyfi ef forsendur fyrir veitingu þeirra eru rangar. Í framhaldi af því óskaði Vinnumálastofnun eftir upplýsingum um launakjör þeirra erlendu starfsmanna sem höfðu fengið atvinnuleyfi á grundvelli 10. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga.

Miðað við þær upplýsingar sem fram komu bendir ekkert til annars en að fyrirtækin standist þær forsendur sem útgáfa dvalarleyfanna byggðist á. Til að sannreyna þetta fylgdist forstjóri Vinnumálastofnunar með útborgun launa sem greidd eru á grundvelli virkjanasamningsins til þessa hóps nú nýverið. Ekkert hefur því komið fram sem gefur tilefni til að halda að íslenskir kjarasamningar hafi verið brotnir varðandi þessa hópa, sem betur fer.

Hvað varðar þá erlendu starfsmenn sem koma af Evrópska efnahagssvæðinu eða á vegum svokallaðrar starfsmannaleigu þá ber vinnuveitanda að tilkynna um komu þeirra til Útlendingastofnunar áður en starfsmenn koma til landsins. Vinnumálastofnun hefur í samvinnu við Útlendingastofnun brýnt þessar skyldur fyrir fyrirtækjunum. Jafnframt hafa þessar stofnanir tvær sett fram kröfur um að gengið verði frá læknisvottorðum og öðrum formlegum gögnum til að fullnægt sé lagaskyldum við útgáfu atvinnu- og dvalarleyfa vegna þessara og annarra starfsmanna.

Herra forseti. Sú hefð hefur þróast á íslenskum vinnumarkaði að eftirlit með íslenskum kjarasamningum og framkvæmd þeirra er á herðum aðila vinnumarkaðarins. Það er því ánægjulegt að þeir aðilar skuli hafa náð saman um framkvæmd launagreiðslna vegna þessara starfsmanna með sérstakri bókun sem var undirrituð þann 1. október sl. Það bendir til að samskipti þessara aðila séu að skána, sem mér hefur fundist heldur ábótavant og hef ég sagt frá því opinberlega og taldi að fyrirtækin þyrftu að taka sér tak í þeim efnum. Það virðist nú góðu heilli vera að gerast.