Kjör og aðbúnaður starfsmanna við Kárahnjúka

Mánudaginn 06. október 2003, kl. 15:58:13 (177)

2003-10-06 15:58:13# 130. lþ. 4.96 fundur 56#B kjör og aðbúnaður starfsmanna við Kárahnjúka# (umræður utan dagskrár), BH
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 130. lþ.

[15:58]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Uppi á hálendinu hefur á síðustu mánuðum verið að festa sig í sessi lítið þorp, þorpið við Kárahnjúka. Austfirðingar hafa lengi beðið eftir þessari framkvæmd og bjartsýni hefur verið ríkjandi á svæðinu í kjölfar ákvörðunarinnar um að reisa virkjun við Kárahnjúka. Þessi virkjun er umdeild. Deilt er um mikil umhverfisáhrif framkvæmdanna en mörgum þykir þeim til fórnað vegna væntinga um efnahagslegan ávinning. Ég held að fæstir hafi þó gert sér í hugarlund fyrir fram þá umræðu sem skekið hefur þjóðfélagið í árdaga framkvæmdanna en hún hefur aðallega snúist um stöðu og aðbúnað verkafólksins á svæðinu, um félagsleg undirboð, skort á löggæslu og mannsæmandi heilbrigðisþjónustu, og manni bregður við að um svo sjálfsagða hluti skuli deilt nú í upphafi 21. aldarinnar.

Þá vekur málið enn meiri undrun í ljósi þess að það eru íslensk stjórnvöld sem standa að framkvæmdinni en það er nefnilega ekki síst þáttur þeirra sem er gagnrýni verður. Eða hvers vegna tryggja ekki íslensk stjórnvöld fjárveitingar til löggæslu á svæðinu um leið og þau taka ákvörðun um að reisa 700 manna þorp á hálendinu? Hvers vegna sjá þau ekki til þess að fjárveitingar séu nægar til að tryggja eftirlit með aðbúnaði og öryggi starfsmanna á svæðinu? Og hvað með heilbrigðisþjónustuna? Var aldrei ráð fyrir því gert í upphafi að senda þyrfti lækni með gilt starfsleyfi til að sinna þjónustu á háfjallaþorpinu?

Herra forseti. Samtök launafólks hafa staðið ötulan vörð um hagsmuni starfsmanna við Kárahnjúka en því miður er ekki fullreynt enn hvort viðunandi niðurstaða fáist. Ríkisstjórnin þarf líka að standa sína vakt og tryggja fjárveitingar til ýmissa samfélagslegra verkefna þar og það er óskiljanlegt hvernig fram hjá þeim augljósu þáttum var litið í upphafi. Það er nefnilega þar sem skórinn kreppir og stjórnvöld þurfa að bregðast strax við eigi ekki illa að fara þegar veturinn gengur fyrir alvöru í garð við Kárahnjúka.