Kjör og aðbúnaður starfsmanna við Kárahnjúka

Mánudaginn 06. október 2003, kl. 16:09:52 (182)

2003-10-06 16:09:52# 130. lþ. 4.96 fundur 56#B kjör og aðbúnaður starfsmanna við Kárahnjúka# (umræður utan dagskrár), DJ
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 130. lþ.

[16:09]

Dagný Jónsdóttir:

Herra forseti. Stjórnsýsla hæstv. félmrh. í þessu máli hefur verið vönduð í hvívetna og í samræmi við þær reglur íslenskra stjórnsýslulaga sem íslensk stjórnvöld eru bundin af í störfum sínum.

Er verið að gagnrýna að félmrh. hafi í störfum sínum virt rannsóknarreglur stjórnsýslulaganna með því að vanda vel til upplýsingaöflunar í tengslum við þetta mál? Er verið að gagnrýna hann fyrir að framfylgja ákvæðum stjórnsýslulaga um meðalhófsreglu og ganga ekki lengra fram en nauðsyn krefur í krafti embættis síns?

Ég er hrædd um, herra forseti, að þá fyrst væri hægt að tala um ítalskt ástand á íslenskum vinnumarkaði og í íslensku samfélagi ef þær íslensku lagareglur væru ekki virtar.

Herra forseti. Íslenskur læknir hefur þegar hafið störf á virkjunarsvæðinu. Lokadrög samnings um heilbrigðisþjónustu liggja fyrir og verður hann undirritaður af heilbrigðisstofnun Austurlands og Impregilo í þessari viku. Tillögur liggja fyrir um fjárveitingar fyrir heilbrigðisstofnunina til að vinna í málinu.

Herra forseti. Á Austurlandi á sér stað gífurleg uppbygging og ekki óeðlilegt að árekstrar verði þegar margir menningarheimar mætast. Ég treysti því að íslensk stjórnsýsla haldi áfram að taka á málum líkt og hún hefur gert hingað til. Við verðum að geta treyst á íslensk lög í þessu máli.