Aldarafmæli heimastjórnar

Mánudaginn 06. október 2003, kl. 16:37:40 (188)

2003-10-06 16:37:40# 130. lþ. 4.4 fundur 3. mál: #A aldarafmæli heimastjórnar# þál., JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 130. lþ.

[16:37]

Jón Bjarnason (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér fannst þetta vera hálfvandræðalegt andsvar hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni. Í fyrsta lagi ýjar hann að því að þingmál skyldu borin hingað inn eftir vigt þingflokka og það væru rökin. Ég lít ekki svo á. Og ég er ekki að gera hv. þingmanni upp neinar skoðanir varðandi annað en það sem hann hefur sjálfur sagt um trúrækni sína. Þetta kemur því máli ekki við að mínu mati. Þaðan af síður hugmyndir hans um að þetta opni möguleikann á því að endurvekja kaþólska trú. Það er nú blæbrigðamunur á þessum trúm, hvort það er lúterskan eða kaþólskan. Ég veit ekki hver á að hafa verið ávinningurinn af að skipta úr kaþólsku yfir í lútersku. Það er ekki það sem máli skiptir.

Ég tel hins vegar að menningarlegur og siðferðislegur stöðugleiki, öryggi, felist í því í þessu samfélagi að farið sé afar gætilega í að draga upp andstæður á milli þessara tveggja þátta, undirstöðuþátta, í samfélagi okkar. Þeir eru annars vegar þing og framkvæmdarvald og hins vegar kirkjuskipan, þá þjóðkirkjan hjá okkur. Ég tel að það eigi að fara afar varlega í að draga þá upp sem andstæður. Þetta hafa verið hornsteinar þess menningarsamfélags sem við höfum búið við með kostum þess og göllum. Ég ítreka þá afstöðu mína að þetta sé ekki það brýnasta mál sem þurfi að bera hér inn fyrir Alþingi og fyrir þjóðina. Þar eru önnur mál mikilvægari í dag.