Aldarafmæli heimastjórnar

Mánudaginn 06. október 2003, kl. 17:06:03 (193)

2003-10-06 17:06:03# 130. lþ. 4.4 fundur 3. mál: #A aldarafmæli heimastjórnar# þál., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 130. lþ.

[17:06]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Hér er verið að flytja merkilegt mál og sumar af þeim tillögum sem í því eru settar fram eru að mínu viti afar brýnar og þyrftu að ná fram sem allra fyrst. Þar vil ég nefna að gera landið að einu kjördæmi sem ég tel að hefði auðvitað átt að gera síðast þegar lögunum var breytt, en það varð ekki niðurstaðan. En ég hygg að fleiri séu komnir á þá skoðun í dag en þegar sú umræða var í aðdraganda þeirrar breytingar.

Ég tel líka að fyrir löngu hefði þurft að setja hér lög sem gerðu almenningi mögulegt að fá fram kosningar um umdeild mál þar sem tiltekinn fjöldi kjósenda gæti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um brýn og merkileg mál. Þessi atriði vil ég telja hér fyrst en ekki vegna þess að ég setji þau endilega fremst í röðina, heldur vegna þess að ég ætla að eyða tíma mínum í að tala um a-liðinn sem, með leyfi forseta, hljóðar svona:

,,Að gera tillögur um hvernig tryggja má í stjórnarskrá sameign þjóðarinnar á náttúruauðlindum, svo sem lifandi auðlindum í hafi eða öðrum sem kunna að finnast á eða í hafsbotni, auðlindum í fallvötnum, auðlindum í fjarskipta\-rásum í lofti, þjóðlendum, svo og öðrum náttúruauðlindum sem enginn á og álíta má sameiginlega arfleifð þjóðarinnar.``

Við höfum nefnilega tekið þátt í umræðu í mörg undanfarin ár um mikilvægustu auðlindina, fiskinn í sjónum. Sú umræða hefur ekki verið forráðamönnum þjóðarinnar, þingmönnum, ráðherrum og frammámönnum í þjóðlífinu endilega til mikils sóma, vegna þess að þar hafa menn talað um réttlæti, talað um þjóðareign, en framkvæmt óréttlæti og afhent þjóðareign til útgerðarmanna eins og þeir ættu hana sjálfir, gefið mönnum leyfi til þess að selja þessa þjóðareign og kaupa hana sín í milli.

Í greinargerð sem fylgir tillögunni stendur að það sé vísir að góðri samstöðu um þetta atriði og þar bent á að ríkisstjórnin hafi lýst yfir að hún vilji beita sér fyrir því að upp verði tekið ákvæði um að auðlindir hafsins verði sameign þjóðarinnar. Já, þetta væri gott spor ef hægt væri að treysta því að meining væri á bak við þessi orð. Það hefur áður komið fram yfirlýsing frá hæstv. ríkisstjórn um að menn vildu setja ákvæði af þessu tagi í stjórnarskrá. En það hefur ekki verið framkvæmt. Eiga menn að trúa því núna að úr framkvæmdunum verði frekar en á síðasta kjörtímabili þegar yfirlýsingarnar komu fram frá hæstv. forsrh. um að svona skyldi þetta verða?

Ætti maður kannski að rifja upp með hvaða hætti menn hafa staðið að þessum málum? Þar sem í 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða stendur að þjóðin eigi þetta, en síðan eru aðrar greinar þannig útfærðar og framfylgt að farið er með þetta eins og hverja aðra eign útgerðarmanna.

Eða ætti maður kannski að láta sér detta í hug að menn mundu fara sömu leið og gert var þegar sett voru lög um samningsveð? Þar sem það var sett fram fyrst í lögunum að ekki mætti veðsetja veiðiheimildir, en síðar í lögunum voru innleidd ákvæði sem gerðu mönnum kleift að veðsetja í raun og veru veiðiheimildirnar, því ekki má færa þær af skipunum nema með leyfi veðhafanna. Þar var komið jafngildi veðsetningar.

Þess vegna er ég tortrygginn á þá ríkisstjórn og þá ráðamenn sem fara með völd í landinu því að sporin hræða langt aftur í tímann. Ég held nefnilega að það sé ekki líklegt að þeir meini neitt með því að þeir vilji að auðlindin í sjónum verði þjóðareign af því tagi sem við erum að leggja til að þjóðareignir íslensku þjóðarinnar verði, þ.e. þjóðareign í alvöru þar sem nýting viðkomandi þjóðareignar hlýtur að þurfa að hlíta jafnræðisreglu.

Það er nefnilega ekki hægt að hugsa sér það að menn setji í stjórnarskrá ákvæði um það að fiskstofnarnir við Íslandsstrendur séu þjóðareign, en halda síðan áfram að hafa þá þjóðareign til sölu með þeim hætti sem gert er. Menn hljóta að þurfa að innkalla þessi réttindi og koma þeim á almennan markað undir reglum þar sem allir standa jafnir gagnvart því að fá þau réttindi til nýtingar.

Ef ég hef heyrt rétt fram að þessu, þá hefur ekki orðið stefnubreyting hjá Sjálfstfl. og ekki heldur hjá a.m.k. hluta Framsfl. í þessu efni. Það er liggur nefnilega fyrir að aðalniðurstaða auðlindanefndarinnar, sem var að eins skyldi farið með allar auðlindir og þar með talið sjávarútvegsauðlindina, féll sjálfstæðismönnum og ýmsum framsóknarmönnum ekki í geð. Þess vegna var búin til útgönguleið sem menn hafa síðan túlkað eftir sínu höfði reyndar og gengið býsna langt í því. Hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. hafa nú verið í bræðralagi um það að boða þá leið og héldu því fram að þeir væru nú aldeilis að koma til móts við þjóðina og ná samstöðu eins og það hét um þetta mikla deilumál sem hefur verið í þjóðfélaginu.

Ég tel að þetta þurfi að ræða, bæði í kringum þessa tillögu og væntanlega tillögu ríkisstjórnarinnar ef marka má yfirlýsingarnar, þ.e. hvað er innifalið í þeim yfirlýsingum. Er þar einhver meining? Ég tel að íslenska þjóðin þurfi að taka mjög vel eftir því hvort menn meina það sama með því að gera nýjar auðlindir að þjóðareign, þ.e. setja ákvæði í stjórnarskrá, eins og þeir hafa meint fram að þessu hvað varðar þá auðlind sem mestu máli skiptir.