Aldarafmæli heimastjórnar

Mánudaginn 06. október 2003, kl. 17:14:35 (194)

2003-10-06 17:14:35# 130. lþ. 4.4 fundur 3. mál: #A aldarafmæli heimastjórnar# þál., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 130. lþ.

[17:14]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Sú till. til þál. sem hér er flutt um breytingar á stjórnarskrá í tilefni aldarafmælis heimastjórnar, undir forustu Össurar Skarphéðinssonar en allir þingmenn Samfylkingar flytja þetta mál, tel ég að sé mjög verðug afmælisgjöf til íslensku þjóðarinnar á aldarafmæli heimastjórnarinnar. Tillagan er í nokkrum liðum og fjallar um mjög mikilvæga þætti sem nauðsynlegt er að taka á því það er alveg ljóst að stjórnarskráin hefur ekki þróast í takt við öra þjóðfélagsþróun frá 1944, ef undan er skilið að þingið fór í það þarfa verkefni að endurskoða mannréttindakafla stjórnarskrárinnar.

Þær tillögur sem hér eru lagðar til og fram koma í tillögugreininni hafa raunar margar hverjar, ef ekki flestar, verið áratugum saman á dagskrá þingsins annað slagið. Má þar nefna t.d. að gera tillögur um hvernig tryggja má í stjórnarskrá sameign þjóðarinnar á náttúruauðlindum. Sú tillaga var fyrst flutt fyrir 35 árum. Tillaga okkar jafnaðarmanna um að gera landið að einu kjördæmi er nú orðin hartnær 80 ára gömul og ég spái því að það þarfa skref sem stigið var í kjördæmabreytingunni nú síðast muni leiða til þess að fyrr en seinna verði farið út í það að gera landið að einu kjördæmi. Tel ég að sú kjördæmabreyting hafi verið stórt skref í þá átt, vegna þess að auðvitað er það svo að við erum þar að tala um mikilvæg mannréttindi sem er jafn atkvæðaréttur allra landsmanna.

Málið um að kanna hvort tímabært sé í ljósi þjóðfélagsbreytinga að huga að breytingum á ákvæðum stjórnarskrár um samband ríkis og kirkju hefur líka alltaf annað slagið skotið hér upp kollinum og er alveg ljóst að það er mál sem þarf að skoða og kanna kosti þess og galla hvort fara eigi út í þær breytingar. Árið 1995 flutti Ásta R. Jóhannesdóttir ásamt mér tillögu um að farið yrði í það að kanna kosti þess og galla að auka sjálfstæði og ábyrgð kirkjunnar. Ég tel að rétta leiðin í því sé að það verði skoðað með þeim hætti að kanna kosti þess og galla þannig að bæði þingmenn og allir landsmenn geri sér þá ljóst hvað felst í slíkri breytingu.

Einn af þeim þáttum sem nefndir eru í þessari gagnmerku tillögu er um að tiltekinn hluti landsmanna geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um mál og að skoða í því efni möguleika á nýtingu nýrrar tækni til að auka lýðræðisleg áhrif almennings. Hér er á ferðinni tillaga sem ég hef flutt ásamt félögum mínum í Samfylkingunni mörg ár í röð, og ég verð, herra forseti, að nota það tækifæri sem ég hef hér til að gagnrýna þingið fyrir að sú tillaga, þó að hún hafi verið flutt sennilega átta sinnum, hefur aldrei hlotið þinglega meðferð á Alþingi, henni hefur ávallt verið vísað til sérnefndar og aldrei fengið þar neina umfjöllun að heitið geti. Ég vona að sú tillaga sem hér er flutt hljóti ekki sömu örlög en ég býst við að þar sem hér er um till. til þál. að ræða um breytingu á stjórnarskránni en ekki frv. til stjórnarskipunarlaga um breytingu á stjórnarskránni, eins og sú tillaga sem ég hef flutt gegnum árin var, þá fari þessi tillaga til allshn. Ég vona að hún fái þar þá umfjöllun sem hún á skilið og aðra meðferð en verið hefur varðandi þá tillögu sem ég nefndi um þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að fara mörgum orðum um þann þátt svo oft hefur verið rætt um þetta hér í þingsölum, en það hefur oft komið fram krafa um að auka rétt fólks til þjóðaratkvæðagreiðslu og ekkert hefur orðið úr því. Réttur fólks nú til þess að hafa áhrif á framgang einstakra mál er bundinn við atkvæðagreiðslur um minni háttar mál, svo sem um opnun á áfengisútsölu eða hvort leyfa skuli hundahald í einstökum sveitarfélögum. Ég held að víða í grannlöndum okkar hafi verið farin sú leið að heimila þjóðaratkvæðagreiðslur og auka þannig lýðræðislegan rétt fólksins sem verulega skortir á hér, vegna þess að samkvæmt stjórnskipan okkar getur fólk einungis haft áhrif með atkvæði sínu í kosningum til Alþingis og sveitarstjórna og svo við kjör forseta lýðveldisins. En það vita auðvitað allir að forsetinn hefur aldrei frá stofnun lýðveldisins beitt heimild 26. gr. stjórnarskrárinnar um synjun staðfestingar á lagafrumvarpi sem Alþingi hefur samþykkt. Það ákvæði felur raunar aðeins í sér frestandi neitunarvald því synji forsetinn um staðfestingu verður að bera lagafrv. undir þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég tel reyndar vel koma til greina varðandi þjóðaratkvæðagreiðslu að heimila það að aukinn meiri hluti þings gæti farið fram á þjóðaratkvæðagreiðslu í umdeildum málum, eins og ég held að sé a.m.k. í Danmörku. Og ef menn fara út í það þarfa verk að skoða stjórnarskrána með það fyrir augum að auka lýðræðislegan rétt fólksins til þess að fara fram á þjóðaratkvæðagreiðslur þá tel ég að skoða ætti það á sama tíma að afnema þennan óvirka rétt sem er núna hjá forseta þjóðarinnar, sem aldrei hefur verið beitt, taka þennan kaleik frá forseta lýðveldisins. Reyndar er það svo, ég held að Gunnar Schram hafi komið með það á sínum tíma í fjölmiðlum að það hafi a.m.k. þrjú tilvik komið upp sem finna megi um að forseti hafi verið beittur miklum þrýstingi til þess að beita þessu ákvæði stjórnarskrárinnar en aldrei gert það, og ég held að það staðfesti að þetta ákvæði stjórnarskrárinnar er með öllu óvirkt. Raunar er það svo að forsetinn er settur í mjög erfiða stöðu þegar mikill þrýstingur er uppi um að beita þessu ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslu, og ég tel því rétt að grandskoða eigi málið með það í huga að afnema þennan óvirka rétt forsetans en flytja valdið til þjóðaratkvæðagreiðslu til fólksins og tel ég vel koma til greina að skoða líka að aukinn meiri hluti þings gæti farið fram á þjóðaratkvæðagreiðslu í umdeildum málum.