Aldarafmæli heimastjórnar

Mánudaginn 06. október 2003, kl. 17:39:45 (197)

2003-10-06 17:39:45# 130. lþ. 4.4 fundur 3. mál: #A aldarafmæli heimastjórnar# þál., GAK
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 130. lþ.

[17:39]

Guðjón A. Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða tillögur sem allir þingmenn Samf. flytja um breytingu á stjórnarskrá í tilefni aldarafmælis heimastjórnar. Í þessari ályktun eru nefnd mörg atriði. Í fyrsta lagi ákvæði um sameign þjóðarinnar á náttúruauðlindum og í öðru lagi um framsal ríkisvalds til alþjóðastofnana eða samtaka. Í þriðja lagi er rætt um að landið verði eitt kjördæmi. Í fjórða lagi lagt til að tiltekinn fjöldi landsmanna geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um mál. Síðan er fimmta atriðið um samband ríkis og kirkju. Þá er hvatt til að leita annarra leiða til að auka réttindi og áhrif einstaklinga og kjósenda.

Það er lagt til að þetta mál verði sett í níu manna nefnd. Eins og málið er upp sett þá er það auðvitað sjálfsagt. Hér eru mörg verkefni tekin fyrir í einni tillögu og engin af þeim verða hrist fram úr erminni án þess að menn leggi þar fram vinnu og skiptist á skoðunum. Um öll þessi mál eru skiptar skoðanir í okkar þjóðfélagi og einnig deilur milli stjórnar og stjórnarandstöðu.

Sá sem hér stendur og talar fyrir hönd Frjálsl. getur lýst því yfir að við erum að mörgu leyti sammála þeim áhersluatriðum sem lagt er upp með í tillögunni þó að ég taki fram að við höfum annan málatilbúnað á sumum af þeim atriðum sem fram koma í tillögunni. Málið er þannig vaxið að Frjálsl. hefur á undanförnum árum flutt frv. til laga um breytingu á kirkjuskipan ríkisins með það að markmiði að fullur lagalegur aðskilnaður verði milli ríkis og kirkju og öll trúfélög sitji við sama borð að því leyti að menn séu jafnir án tillits til trúar eins og stjórnarskráin kveður reyndar á um.

Á undanförnum árum höfum við flutt frumvörp um að við teldum rétt að fara að skoða hvernig ætti að standa að aðskilnaði ríkis og kirkju. Þar af leiðandi er það efnisatriði í þáltill. Samf. samstiga þeirri hugsun sem við höfum sett fram í málflutningi okkar á undanförnum árum. En eins og fram kom í máli formanns Samf., þegar hann mælti fyrir málinu, vill samfylkingarfólkið og Samf. fara varlegar í málin, a.m.k. hægar en við höfum lagt til. Í frv. okkar höfum við lagt til ákveðna aðferð sem sýnir fram á hvernig þetta ætti að gerast.

Þegar við ræðum um ríki og kirkju, svo ég fari um það nokkrum orðum til viðbótar, er ljóst að kirkjan hefur verið ein af meginstoðum í íslensku þjóðfélagi. Langmestur hluti íslensku þjóðarinnar er kristinn og verður vonandi svo áfram um langa hríð. En það segir ekki að önnur trúfélög og aðrar trúarskoðanir manna skuli ekki jafnvirtar af okkur sem kristin erum. Við eigum auðvitað að hugsa þannig ef við viljum vera samkvæm sjálfum okkur og horfa á réttindi annarra og virða skoðanir fólks. Allir skulu jafnir í trú sinni.

Mér finnst það grundvallaratriði sem hreyft er í þessari tillögu, að þessi mál verði skoðuð upp á nýtt. Það er alveg rétt sem vikið var að í framsögu formanns Samf. að biskupinn, herra Karl Sigurbjörnsson, vék að þessu máli á síðasta ári. Hann talaði annars vegar um skilnað að borði og sæng og hins vegar lögskilnað sem kirkjan þyrfti að fara að horfast í augu við.

[17:45]

Það held ég að sé alveg tímabært að fari að gerast og að menn setjist niður yfir það að skoða hvaða framtíðarfyrirkomulag á að vera á skipan okkar að þessu leyti.

Ég vil líka vekja athygli á því, virðulegi forseti, að Frjálslyndi flokkurinn hefur einnig lagt hér fram á þinginu till. til þál. um kosningar til Alþingis þar sem við höfum lagt til að landið verði gert að einu kjördæmi. Sú tillaga var flutt af Frjálslynda flokknum hér á hv. Alþingi á síðasta kjörtímabili þannig að okkur greinir ekki á, má segja, Frjálsl. og Samf., að því leyti til í stefnumótuninni, við teljum að það eigi að stíga þetta skref til fulls.

Ég held að sú kjördæmaskipan sem komst á með þeirri kjördæmaskipan sem við nú búum við, að hafa annars vegar þrjú gríðarlega stór landsbyggðarkjördæmi og hins vegar skipt Reykjavíkurkjördæmi, sé bara skref í átt til þess að gera landið að einu kjördæmi. Ég held að við eigum að horfast í augu við það fyrr en seinna.

Ég segi það alveg sem mína skoðun að ég hef ekki séð að landsbyggðin hafi í nokkru notið sérstakrar varnarstöðu af því að hafa landið skipt upp í þessi kjördæmi, a.m.k. stendur landsbyggðin víða mjög veikt. Framkvæmdarvaldið hefur svo að langmestu leyti verið í Reykjavík og menn hafa stundum skýrt það með því að þar sem menn hefðu nú misjafnt vægi atkvæða á landinu væri sjálfsagt að völdin væru í Reykjavík, framkvæmdarvaldið. Ég held að langbest væri að þetta heyrði brátt sögunni til.

Ég vil hins vegar víkja að einu atriði varðandi það þegar verið er að tala um að allir skuli vera jafnir með atkvæðisrétt sinn. Ég vil vekja athygli á því að í núverandi kosningalögum er kveðið á um það að 5.500 manns sem kjósa einn ákveðinn flokk geti ekki átt neinn þingmann, þ.e. ef þeir brjóta ekki 5% múrinn. Og það er náttúrlega heldur ekki jafn atkvæðisréttur að sú staða geti komið upp að 5.500 manns geti ekki átt þingmann, þegar niðurstaðan er sú að það þarf ekki nema 2.707 atkvæði á bak við þingmann, eins og það er hjá Framsfl. Það er (Gripið fram í: Þeir fá alltaf ...) lágmark að í þinginu séu ákvæði um að ekki þurfi meira atkvæðamagn heldur en það til þess að ná manni inn á þing sem kveður á um að það geti orðið til þingflokkur með tvo þingmenn. Mér finnst mikið réttlætismál að það sé skoðað.