Aldarafmæli heimastjórnar

Mánudaginn 06. október 2003, kl. 17:54:46 (199)

2003-10-06 17:54:46# 130. lþ. 4.4 fundur 3. mál: #A aldarafmæli heimastjórnar# þál., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 130. lþ.

[17:54]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér fannst margt sem kom fram í máli hv. þm. Péturs Blöndals vera áhugavert innlegg í umræðuna. Það er kannski rétt að minna á og halda því til haga að hugmyndin sem hér er lögð fram, eða hugmyndirnar því hér er um að ræða margar hugmyndir, gengur út á það að kjósa níu manna nefnd til þess að fara vandlega yfir þessa hluti. Hér eru hugmyndir sem vissulega er kominn tími til að Alþingi taki að einhverju leyti afstöðu til og fari í þá vinnu sem nauðsynlegt er að vinna.

Það voru nokkur orð sem vöktu sérstaklega athygli mína í ræðu hv. þm. og það var einkanlega þar sem hv. þm. fjallaði um það ef íslenska ríkið, eða íslenska þjóðin eða hvað við eigum að kalla það, skyldi afsala sér að einhverju leyti valdi sínu til alþjóðastofnana eða alþjóðasamfélagsins. Hv. þm. sagði að Íslendingum hefði vegnað best eftir að þeir fengu fullveldi og sjálfstæði og ég get tekið undir það. Hins vegar verðum við einnig að fylgjast með þeim breytingum sem eiga sér stað í samfélaginu og því sem er að gerast í kringum okkur. Ég held að sjálfstæði nútímans sé ekki það að fá að vera í friði, heldur fyrst og fremst að geta tekið þátt. Það eru það örar breytingar sem hafa átt sér stað í heiminum. Áður fyrr fólst kannski sjálfstæðið fyrst og fremst í því að fá að vera í friði fyrir afskiptum annarra en nú held ég að sjálfstæðið felist að miklu leyti í því að fá að taka þátt.

Við höfum um nokkurt skeið í raun og veru verið í svona alþjóðlegu samstarfi, þ.e. í gegnum EES-samninginn, og hvort sem mönnum líkar það betur eða verr höfum við að talsverðum hluta afsalað okkur löggjafarvaldinu í því formi að við yfirtökum að mestu leyti athugasemdalaust reglugerðir sem koma frá Evrópusambandinu.

Ég spyr því hv. þm., einfaldlega vegna þess sem hér kom fram í máli hans áðan, hvort hann sé þeirrar skoðunar að við eigum að hægja á okkur og draga úr þessu samstarfi innan EES.