Gjaldfrjáls leikskóli

Mánudaginn 06. október 2003, kl. 18:50:15 (208)

2003-10-06 18:50:15# 130. lþ. 4.5 fundur 4. mál: #A gjaldfrjáls leikskóli# þál., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 130. lþ.

[18:50]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Þetta þingmál er til marks um forgangsröðun Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Formaður flokksins er 1. flm. þessarar þáltill. en jafnframt eru allir þingmenn flokksins meðflytjendur. Þetta var eitt af megináherslumálum okkar í nýafstöðnum alþingiskosningum og er táknrænt að við leggjum fram mál sem miðar að því að styrkja undirstöður fjölskyldunnar.

Eins og hér hefur verið gerð grein fyrir gerir þessi þáltill. ráð fyrir því að skipuð verði nefnd sem fái það verkefni að undirbúa og annast viðræður við sveitarfélögin um átak þeirra og ríkisins í að gera leikskóladvöl gjaldfrjálsa í áföngum.

Sem betur fer hafa verið stigin nokkur skref til framfara gagnvart fjölskyldufólki á undanförnum árum. Þar er merkast að telja stofnun Fæðingarorlofssjóðs sem ég tel eitt mesta framfaraspor sem stigið hefur verið á liðnum árum. Árangurinn er þegar að koma í ljós. Feður nýta í ríkari mæli en gert hafði verið ráð fyrir rétt sinn til töku fæðingarorlofs. Þetta tel ég mjög til góðs. Þegar fram líða stundir sé ég fyrir mér að rétturinn til fæðingarorlofs verði lengdur og taki til fyrstu tveggja ára barnsins. Að mínum dómi er mjög vafasamt að reyna að keyra mjög ung börn inn í vinnuferli hinna fullorðnu. Þar þarf sveigjanleika þar sem lítil börn geta ekki unnið átta stunda vinnudag eins og við hin fullorðnu gerum. Þarna mætti hugsa sér samspil milli lengra fæðingarorlofs og styttingar vinnudagsins.

Hitt framfaramálið sem við viljum vinna að á þessum vettvangi er styrking leikskólans, að styrkja fyrsta skólastigið. Þetta er liður í því. Við viljum ekki einungis horfa á þetta sem kjarabót fyrir barnafjölskylduna, sem það vissulega er. Við lítum einnig á þetta sem lið í að styrkja fyrsta skólastigið.

Við viljum endurskoða tekjustofna ríkis og sveitarfélaga. Það er ljóst að sveitarfélögin munu ekki að óbreyttu rísa fjárhagslega undir því átaki sem við gerum ráð fyrir. Við viljum reyndar framkvæma þetta í áföngum, en við gerum tillögu um að tekjustofnar sveitarfélaganna verði styrktir, m.a. með það fyrir augum að styrkja þetta fyrsta skólastig.

Augljóst er að þetta er mikið kjaramál fyrir fjölskylduna. Fjölskyldur greiða um 30 þús. kr. fyrir leikskólavist barna sinna, iðulega 50--60 þús. kr., fjölskyldur með börn á unga aldri. Fyrir fjölskylduna er mikið hagsmunamál að þessi þáltill. fái jákvæða afgreiðslu í þinginu.