Gjaldfrjáls leikskóli

Mánudaginn 06. október 2003, kl. 19:14:18 (213)

2003-10-06 19:14:18# 130. lþ. 4.5 fundur 4. mál: #A gjaldfrjáls leikskóli# þál., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 130. lþ.

[19:14]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að samfélagið og atvinnulífið sé miklu sveigjanlegra en hv. þm. gerir ráð fyrir. Það er bæði hægt að skipta vinnu milli fólks með hlutastörfum og það er líka hægt að taka upp fjarvinnslu í auknum mæli. Foreldrar gætu unnið heima jafnframt því að gæta barns sem sefur meiri hluta dagsins, ungbarn t.d., og það mætti líka gera leikskólana miklu sveigjanlegri en þeir eru í dag. Þeir eru nefnilega mjög ósveigjanlegir. Af hverju skyldu þeir líka vera sveigjanlegir? Þeir hafa jú enga samkeppni. Ef leikskólinn væri einkavæddur eins og mögulegt væri, ef foreldrarnir fengju ávísun og gætu valið sér leikskóla, sérstaklega í stærri byggðakjörnum, yrði leikskólinn að sinna þessum viðskiptavinum sínum, sem eru foreldrarnir, í staðinn fyrir að loka bara eins og þeir gera í dag. Mörg önnur dæmi eru um ósveigjanleika leikskólanna.

Við þurfum líka að skoða nám foreldra því að margir foreldrar eru í námi. Það er sem sagt spurningin um að bæði menntakerfið, þ.e. öll framhaldsmenntun, og atvinnulífið taki upp miklu meiri sveigjanleika og taki meira tillit til fjölskylduhags starfsmanna sinna eða nemenda þannig að við gætum komið upp manneskjulegra kerfi og þyrftum ekki að senda pínulítil börn að heiman.