Gjaldfrjáls leikskóli

Mánudaginn 06. október 2003, kl. 19:15:50 (214)

2003-10-06 19:15:50# 130. lþ. 4.5 fundur 4. mál: #A gjaldfrjáls leikskóli# þál., Flm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 130. lþ.

[19:15]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Það er nú ekki þannig, að mínu mati, að við höfum verið að rökræða um það hvort við séum með eða á móti því að senda ung börn að heiman. Það er rétt og skylt að taka umræður um það hvernig við teljum að samfélagið væri best og hvernig við viljum sjá það þróast, en ég held að við hljótum alltaf að þurfa að horfast í augu við veruleikann eins og hann er. Mannlegt samfélag er ekki þannig og eitt stykki þjóðfélag, að því verði svipt til með farsælum hætti út frá hugmyndum okkar um hvernig það ætti að vera, svona en ekki hinsegin.

Veruleikinn er sá að afkoma allra venjulegra heimila í landinu leyfir ekkert annað en það að foreldrarnir vinni baki brotnu. Úr því að það gildir um kjarnafjölskylduna, gift fólk og sambúðarfólk, hvað þá um einstæðu foreldrana? Svona er veruleikinn, hv. þm. Pétur Blöndal, og ég get ekki deilt þeirri skoðun að mönnum séu allir vegir færir af því að þetta sé svo sveigjanlegt og það séu fjarvinnslumöguleikar eða hvað það nú er. Ég held að það sé ekki þannig í veruleikanum, því miður.

Það er hins vegar hlutur sem við eigum að berjast fyrir og reyna að breyta að sjálfsögðu. Þar held ég, og nefni það enn einu sinni, að stytting vinnuvikunnar, án þess að það komi niður á kjörum fólks, sé þessi snara í hengds manns húsi sem eiginlega enginn þorir orðið að nefna á Íslandi í dag. Hér hefur þróunin verið í öfuga átt borið saman við það sem verið hefur í flestum nágrannalöndum. Vinnuvikan hefur verið að styttast, nema hér, þar sem hún hefur heldur lengst ef eitthvað er, ef við lítum til nokkurra ára meðaltals.

Ég tel nú að leikskólinn reyni að vera eins sveigjanlegur og mæta þörfum foreldranna eins og hann getur og ég er ósammála þeirri gagnrýni sem hv. þm. setti hér fram um leikskólann, mér finnst hún ekki alveg sanngjörn. Foreldrar geta t.d. valið þann tíma sem börnin eru í leikskólanum, mælt í hálfum klukkustundum. Menn hafa val um það hvort börnin fái fæði í leikskólanum o.s.frv. Þannig að það er reynt, innan þeirra marka sem ég held að aðstæður leikskólanna bjóði þeim, að hafa þetta kerfi eins sveigjanlegt og gott og kostur er.