Ísland og þróunarlöndin

Þriðjudaginn 07. október 2003, kl. 13:33:16 (216)

2003-10-07 13:33:16# 130. lþ. 5.94 fundur 60#B Ísland og þróunarlöndin# (umræður utan dagskrár), Flm. ÞSveinb (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 130. lþ.

[13:33]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. ,,Ísland og þróunarlöndin`` er yfirskrift álitsgerðar um þróunarsamvinnu Íslands og þátttöku í starfi alþjóðastofnana sem unnin var fyrir utanrrh. og gefin út 1. september sl. Hér er á ferðinni vönduð álitsgerð sem getur komið að gagni við stefnumótun og framkvæmd þróunarsamvinnu Íslands á næstu árum ef rétt er á haldið. Því er fyllsta ástæða til þess að ræða hana hér á hinu háa Alþingi.

Af þessu tilefni er vert að rifja upp að þrír áratugir eru síðan aðildarríki Sameinuðu þjóðanna samþykktu að iðnríkin skyldu veita sem næmi 0,7% af landsframleiðslu til opinberrar þróunaraðstoðar. Á þessu ári munu framlög Íslands til þróunarsamvinnu nema 0,16% af landsframleiðslu og hafa því þokast í rétta átt frá árinu 1999 þegar þau námu einungis 0,09% af þjóðarframleiðslu.

En það verður að segjast eins og er, herra forseti, að hækkun framlaga hefur hreyfst með hraða snigilsins á liðnum árum og áratugum og enn eigum við langt í land með að ná markmiðum þeim sem við undirgengumst sem aðildarríki Sameinuðu þjóðanna. Í ljósi þess að Ísland hefur um árabil vermt efstu sæti lista yfir ríkidæmi og velsæld jafnt hjá OECD og Þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna blasir við að hægt er að gera betur, svo miklu betur.

Í sjálfu sér væri hægt að lýsa því í löngu máli hvernig til hefur tekist með íslenska þróunarsamvinnu og ekki síður að eyða orku sinni í að leita að sökudólgum vegna lélegrar frammistöðu okkar á þessum vettvangi.

Hina pólitísku ábyrgð á slakri frammistöðu Íslands bera í raun allir stjórnmálaflokkar sem setið hafa í ríkisstjórn sl. 30 ár. En nú er meira um vert að horfa fram á veginn og ræða hvernig löggjafinn vill að þessum málum verði skipað til framtíðar. Samfylkingin vill að aukning framlaga til þróunarsamvinnu við fátæk ríki haldist í hendur við pólitísk markmið Íslands á alþjóðlegum vettvangi og utanríkisstefnu okkar í heild sinni. Með hækkandi framlögum aukast umsvif stofnana á borð við Þróunarsamvinnustofnun Íslands og mun fleiri tækifæri gefast til þess að taka þátt í marghliða aðstoð eins og hún er kölluð, t.d. með samvinnu við frjáls félagasamtök, bæði innlend og erlend. Ísland hefur samþykkt þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna og þar með samþykkt að vinna að þeim ásamt öðrum ríkjum og varla verður það gert nema þau séu höfð að leiðarljósi við val samstarfsverkefna við fátæk ríki.

Ríkjum heims er ætlað að ná þúsaldarmarkmiðunum fyrir árið 2015. Þau miða að því að eyða fátækt og hungri, m.a. með því að draga úr hrikalegri misskiptingu tekna í heiminum, efla menntun barna, bæta heilsufar kvenna og vinna að jafnrétti kynjanna. Í dag sýnist árið 2015 e.t.v. langt undan en í raun er lítill tími til stefnu, ekki bara fyrir okkur hér heldur fyrir þorra mannkyns. Við verðum að eiga svör við því með hvaða hætti Ísland ætlar að leggja sín lóð á vogarskálarnar til þess að draga úr dánartíðni barna, bæta heilsufar kvenna og lækka dánartíðni þeirra vegna barnsburðar. Og hvernig ætlum við að berjast gegn útbreiðslu alnæmis, malaríu og berkla? Stefnumótun á sviði þróunarsamvinnu þarf að taka á þessum stóru og lífsnauðsynlegu verkefnum.

Álitsgerðin sem hér um ræðir er m.a. tæki til þess að leggja mat á þróunarsamvinnu Íslands hingað til og marka stefnuna. Höfundar hennar leggja það til að stuðningur við ýmsar sérstofnanir Sameinuðu þjóðanna verði aukinn með megináherslu á Matvæla-, þróunar- og landbúnaðarstofnunina. Þá er lagt til að efla starfsemi Háskóla Sameinuðu þjóðanna hér á landi, einnig stuðning okkar við skuldaniðurfellingu fátækustu ríkja heims og brýnt fyrir stjórnvöldum að fresta ekki frekar aðild Íslands að Alþjóðaumhverfissjóðnum.

Virðulegi forseti. Í stuttri ræðu gefst ekki tækifæri til þess að fara ítarlega í efni máls en vonandi gefst tækifæri til þess í umræðum um utanríkismál í vetur. Á þessari stundu er hins vegar mikilvægt að hæstv. utanrrh. greini þingheimi frá því hvernig hann hyggist nýta sér niðurstöður álitsgerðarinnar. Styður hæstv. utanrrh. tillögur höfundanna? Hyggst hann gera þær að sínum og hrinda þeim í framkvæmd? Og síðast en ekki síst, hæstv. forseti, hyggst ráðherrann beita sér fyrir því að framlög til þróunarsamvinnu verði tvöfölduð á næstu þremur árum eins og lagt er til í álitsgerðinni?