Ísland og þróunarlöndin

Þriðjudaginn 07. október 2003, kl. 13:38:32 (217)

2003-10-07 13:38:32# 130. lþ. 5.94 fundur 60#B Ísland og þróunarlöndin# (umræður utan dagskrár), utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 130. lþ.

[13:38]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta mál til umræðu á Alþingi. Að mínu mati er mjög mikilvægt að þessi mál séu rædd á vettvangi Alþingis og það var einmitt hugmyndin með þessari skýrslu, að birta hana þannig að hún kæmi til opinberrar umræðu áður en við legðum fram tillögur okkar um það hvernig yrði unnið að málinu í framtíðinni. Það er mín skoðun að á komandi árum verði þátttaka Íslands í alþjóðlegu þróunarstarfi einn helsti lykilþátturinn í íslenskri utanríkisstefnu. Ísland er ein af ríkustu þjóðum heims. Við höfum skyldur á þessum vettvangi og okkur ber að leggja af mörkum til fátækustu þjóða heims. Okkur ber að axla okkar ábyrgð í þessum efnum eins og allar aðrar þjóðir, hvort sem það er tvíhliða eða í marghliða samhengi.

Núverandi ríkisstjórn hefur tekið þróunarsamvinnuna föstum tökum. Á árinu 1997 var gerð skýrsla um þessi mál þar sem sett voru fram markmið um það hvernig við ættum að vinna að þeim og við settum okkur það mark að þróunarframlög til þróunarsamvinnu færu úr u.þ.b. 0,10% af landsframleiðslu eins og þá var í 0,15% árið 2003. Við þetta hefur verið staðið því að nýjustu útreikningar sýna að á árinu 2003 bendi allt til þess að framlög til þróunarsamvinnu af okkar hálfu verði 0,17% á árinu 2003 þannig að það hefur smátt og smátt farið upp á við og nálgast nú hratt og örugglega 0,2%. Það er vissulega langt undir því sem gengur og gerist annars staðar á Norðurlöndunum en við höfum verið að mjakast upp á við.

Það verður að hafa í huga í sambandi við þessi mál að þróunaraðstoð er flókið mál og við Íslendingar höfum verið að stíga okkar fyrstu skref á þessum vettvangi, bæði á sviði þróunarsamvinnu og jafnframt á sviði friðargæslu, og við höfum smátt og smátt öðlast reynslu í þessum málaflokki. Það hefur verið eitt helsta vandamál þróunaraðstoðar í heiminum á undanförnum árum að lítill undirbúningur hefur verið á bak við verkefnin. Við höfum lagt okkur fram um það, Íslendingar, að skipuleggja þessi mál vel og reyna að ná fram verkefnum sem gætu tryggt langvarandi árangur. Það þýðir gott skipulag og við höfum lagt á það áherslu að þetta sé gert á forsendum móttökulandsins en ekki á forsendum stuðningslandsins. Það hefur allt of mikið verið um það í þróunaraðstoð að hún hefur verið á forsendum þess lands sem veitir stuðninginn en ekki á forsendum þess lands sem tekur á móti. Við höfum lagt mikið upp úr þessu.

Ég vil líka segja í sambandi við önnur mál að við höfum verið að efla utanrrn. á þessu sviði. Við höfum unnið að því að efla sérstaka skrifstofu innan ráðuneytisins og þá ekki síst í tengslum við þá staðreynd að við erum að taka við ábyrgðarstarfi á vettvangi Alþjóðabankans þar sem Þorsteinn Ingólfsson sendiherra hefur nýlega tekið við störfum. Þar berum við ábyrgð gagnvart öllum hinum Norðurlöndunum og baltnesku ríkjunum líka sem hefur gert það að verkum að við höfum orðið að fjölga starfsfólki og við ætlum okkur að nýta þetta tækifæri sem vísi að eflingu þróunarsamstarfsins innan ráðuneytisins í framtíðinni.

Það er líka rétt að nefna það að 18. september sl. gerðumst við aðilar að Þróunaraðstoðarnefnd OECD. Ég vil að lokum segja það varðandi spurningar hv. þingmanns að þessi skýrsla er komin fram að mínu frumkvæði. Ég hef ekki tekið endanlega afstöðu til þess hvaða tillögur við munum setja fram á grundvelli hennar. Það munum við gera á næstunni en við viljum hlusta á þau sjónarmið sem koma fram á Alþingi og við munum í tillögugerðinni m.a. taka mið af þeim sjónarmiðum sem hér koma fram.