Ísland og þróunarlöndin

Þriðjudaginn 07. október 2003, kl. 13:49:05 (220)

2003-10-07 13:49:05# 130. lþ. 5.94 fundur 60#B Ísland og þróunarlöndin# (umræður utan dagskrár), SigurlS
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 130. lþ.

[13:49]

Sigurlín Margrét Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég vil koma með ábendingu til utanrrh. um verkefni í þróunarhjálp. Ísland getur lagt sitt af mörkum og aðstoðað við þróunarhjálp heyrnarlausra og annað sem snýr að málefnum fatlaðra í þróunarlöndum. Sérstaklega mætti skoða þessa málaflokka í Írak og Afganistan, svo einhver lönd séu tekin sem dæmi.

Landssamtök heyrnarlausra á Norðurlöndum hafa í mörg ár átt samvinnu við þróunarsamvinnustofnanir í sínum löndum og sinnt málefnum heyrnarlausra í þróunarlöndum, t.d. komið upp skólum fyrir heyrnarlausra, blinda og aðra hópa fatlaðra.

Ég vil bara góðfúslega fá að benda á þetta sem hentug verkefni í þessari umræðu því þróunarhjálp hvers konar má skoða í víðara samhengi en því að kenna Afríkumönnum fiskveiðar.