Ísland og þróunarlöndin

Þriðjudaginn 07. október 2003, kl. 13:54:24 (223)

2003-10-07 13:54:24# 130. lþ. 5.94 fundur 60#B Ísland og þróunarlöndin# (umræður utan dagskrár), KolH
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 130. lþ.

[13:54]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Það er niðurlægjandi að þurfa að standa í þessum sal, við fulltrúar einnar ríkustu þjóðar í allri veröldinni, og hlusta á stjórnarliða segjast hafa hækkað framlögin til þróunarlanda úr 0,09% í 0,16%. Þetta er svo snautlegt. Það er svo lítið sem við þurfum til að taka af skarið og forgangsraða í þágu þróunarhjálpar, því ærinn er vandinn.

Vandamálið er svo risavaxið að manni rennur það til rifja að lesa skýrslu Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna frá því í sumar. Þar kemur í ljós að á síðasta áratug aldarinnar sem nú er nýliðin versnaði ástandið í þróunarlöndunum. Bilið á milli ríkra og fátækra þjóða verður þannig stöðugt meira.

Á tíunda áratugnum þurfti 21 ríki í veröldinni að þola verri lífskjör en árið 1990. Það er mikill munur frá áratugnum þar áður. Einungis fjögur ríki máttu þola versnandi kjör á níunda áratugnum. Ef við skoðum tekjur fólks kemur í ljós að á síðustu tíu árum síðustu aldar lækkuðu tekjur í 54 löndum. Miðað við þessar niðurstöður verður það ekki fyrr en árið 2147 sem þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna verður náð. Ekki 2015, eins og þjóðarleiðtogar þykjast þó ætla að reyna að ná.

Við sjáum að vandamálið er risavaxið og þess vegna verður að taka miklu stærri skref en ríkisstjórn Íslands er að taka í dag. Við erum ein af ríkustu þjóðum veraldarinnar og höfum efni á að forgangsraða í þágu þróunarhjálpar. Ég skora á ríkisstjórn Íslands að gera það.