Ísland og þróunarlöndin

Þriðjudaginn 07. október 2003, kl. 13:56:37 (224)

2003-10-07 13:56:37# 130. lþ. 5.94 fundur 60#B Ísland og þróunarlöndin# (umræður utan dagskrár), BÁ
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 130. lþ.

[13:56]

Birgir Ármannsson:

Herra forseti. Það er ekki ágreiningur um það í þessum sal að aðstoð við fátækustu þjóðir heims sé bæði siðferðislega rétt og skynsamleg út frá efnhagslegu og pólitísku sjónarmiði. Sú skýrsla sem hér er til umræðu er afar vönduð og merkt innlegg í þá umræðu sem fara þarf fram hér á Alþingi um aðstoð okkar í þróunarmálum.

Við þessa umræðu er full ástæða til að vekja athygli á því sem fram hefur komið, að fyrir sex árum setti ríkisstjórn Íslands sér raunhæf en um leið metnaðarfull markmið í þessum efnum. Þau markmið hafa náðst. Aukningin á framlögum Íslendinga til þróunarmála á undanförnum sex árum, úr 0,09 í 0,16%, er umtalsverð. Þetta er mesta aukningin á framlögum okkar til þessa málaflokks í sögunni. Við eigum ekki að gera lítið úr þeim árangri. Þessi árangur sýnir að ríkisstjórnin hefur vilja til að taka þá þessum málum og sinna þróunaraðstoð af meiri krafti en áður var.

Auðvitað á ekki bara að spyrja um krónur og aura í þessu sambandi heldur líka hvernig sá árangur sem að er stefnt kemur fram. Það hefur náðst meiri árangur í þessum efnum. Starfsemi Þróunarsamvinnustofnunar hefur skilað meiri árangri. Aukin reynsla fylgir þeim verkefnum sem unnin hafa verið. Það og aukin áhersla utanrrn. á þessi mál gefur okkur vonir um að betri árangur náist á næstu árum.

Hér hefur verið vikið að öðrum þáttum sem snerta tengslin við þróunarlöndin, t.d. viðskiptum við þróunarlöndin. Að mínu mati er engin ástæða til að gera lítið úr því að sem frjálsust viðskipti og aukin efnahagsleg tengsl við þróunarlöndin hljóti til langs tíma að vera áhrifaríkasta leiðin til að skila þeim meiri hagsæld.