Fjáraukalög 2003

Þriðjudaginn 07. október 2003, kl. 14:08:21 (229)

2003-10-07 14:08:21# 130. lþ. 5.3 fundur 87. mál: #A fjáraukalög 2003# frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 130. lþ.

[14:08]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til fjáraukalaga fyrir árið 2003, sbr. lög nr. 58/2003, en frv. þetta er að finna á þskj. 87 og er 87. mál þessa þings.

Frv. er annað frv. til fjáraukalaga til breytingar á fjárlögum fyrir árið 2003 sem lagt er fyrir Alþingi. Mun ég því fjalla um þær fjárheimildir sem sótt er um frá fjárlögum að viðbættum fyrri fjáraukalögum ársins í samræmi við efni frv.

Til upprifjunar fólu fyrri fjáraukalög ársins í sér að Alþingi samþykkti að auka útgjöld ríkissjóðs um samtals 4,7 milljarða frá því sem ákveðið var í fjárlögum. Þar voru 3 milljarðar til vegamála, 1 milljarður til menningarhúsa á landsbyggðinni og 700 millj. kr. til atvinnuþróunar úti á landi.

Í lögunum var einnig gerð breyting á áætlun um söluhagnað eigna sem hækkaði tekjuhlið fjárlaga um 2,6 milljarða kr. Í því frv. sem hér er til umræðu er farið fram á að fjárheimildir verði auknar um 8 milljarða kr. og áætlað er að tekjur aukist um 3 milljarða. Frá samþykkt fjárlaga í desember sl. er því gert ráð fyrir að fjárheimildir aukist um 12,7 milljarða samtals og tekjur aukist um 5,6 milljarða kr.

Áætlað er að tekjuafgangur á ríkissjóði verði um 6,2 milljarðar á þessu ári og hreinn lánsfjárjöfnuður verði 17,6 milljarðar. Er það nokkru minna en áætlað var í fjárlögum en samt vel ásættanleg niðurstaða í ljósi þróunar efnahagsmála það sem af er ári og að ríkisstjórnin greip til ráðstafana í atvinnu- og byggðamálum fyrr á árinu.

Breytingarnar fela í sér að í stað þess að ríkissjóður greiði niður skuldir um sem nemur 11 milljörðum kr. er áformað að greiða niður skuldir um u.þ.b. 9 milljarða. Þá standa óbreytt áform um að greiða 7,5 milljarða inn á skuldbindingar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Loks er gert ráð fyrir að staðan við Seðlabanka Íslands batni um 1 milljarð á árinu.

Ríflegan lánsfjárafgang má einkum rekja til tekna af eignasölu en tekjur af sölu á hlut ríkissjóðs í viðskiptabönkunum skila sér á þessu ári. Í forsendum fyrri fjáraukalaga ársins var gert ráð fyrir að flýting vegaframkvæmda yrði fjármögnuð af söluhagnaði eigna. Þrátt fyrir það er áætlað að afgangur á ríkissjóði nemi tæplega 2 milljörðum kr. þegar litið er fram hjá óreglulegum tekjum og gjöldum, þ.e. að frátöldum hagnaði af sölu eigna og að frátöldum reiknuðum lífeyrisskuldbindingum og afskriftum skattkrafna en að meðtöldum útgjöldum vegna aðgerða í atvinnu- og byggðamálum. Sýna þessar tölur að staða ríkissjóðs er traust og að söluhagnaður eigna er ekki notaður í rekstrarverkefni á vegum ríkissjóðs.

Vík ég nú nánar að einstökum atriðum frv., herra forseti. Á tekjuhlið þess er gert ráð fyrir 3 milljarða kr. auknum tekjum frá því sem áður var áætlað. Tekjur hafa verið endurskoðaðar í ljósi innheimtunnar á árinu og þróunar efnahagsmála. Þrátt fyrir að talsverðar breytingar hafi orðið á efnahagsforsendum frá því sem áætlað var í fjárlögum og efnahagsumsvif hafi orðið meiri, er áætlað að skatttekjur hækki aðeins lítillega frá fjárlögum. Skýringarnar felast einkum í því að heildarlaunabreytingar eru taldar verða svipaðar eða ívið minni en í forsendum fjárlaga. Hefur það áhrif á áætlanir um tekjuskatt einstaklinga og tekjur af tryggingagjaldi. Á móti hafa aukin umsvif skilað sér í meiri tekjum af veltusköttum en áætlað var og áætlanir um tekjur af arði fyrirtækja í eigu ríkisins hafa verið endurskoðaðar í ljósi afkomu þeirra. Þannig er í frv. gert ráð fyrir að skattar á tekjur og hagnað einstaklinga og fyrirtækja skili hálfum milljarði minna en áætlað var, tekjur af tryggingagjaldi lækki um rúmlega 600 millj. en skattar af vörum og þjónustu hækki um rúma 2,7 milljarða. Loks er áætlað að aðrar rekstrartekjur ríkissjóðs aukist um rúmlega 2,2 milljarða að stærstum hluta vegna aukinna arðgreiðslna ríkisfyrirtækja og endurskoðunar á vaxtatekjum ríkssjóðs í ljósi niðurstöðu ríkisreiknings fyrra árs.

Í frv. er lagt til að útgjaldaheimildir verði auknar um samtals 8 milljarða. Þar af verði 2,3 milljarðar til heilbr.- og trmrn., 1,5 milljarðar til félmrn., 1,3 til fjmrn. og um einn milljarður til hvors ráðuneytis um sig, menntmrn. og umhvrn. Frávik frá fjárheimildum heilbr.- og trmrn. skýrast að stærstum hluta af hallarekstri sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva en áformað er að verja um 1,3 milljörðum til að minnka þann halla. Þá eru útgjöldum sjúkratrygginga áætlaðar 430 millj. kr. umfram fjárheimildir, einkum vegna aukinna útgjalda til hjálpartækja og lyfjakostnaðar. Loks má nefna 550 millj. kr. aukafjárveitingu til stofnkostnaðar sjúkrastofnana.

Útgjöld félmrn. umfram áætlun fjárlaga skýrast af 1,1 milljarði í aukin útgjöld vegna atvinnuleysisbóta og 300 millj. kr. til Ábyrgðasjóðs launa. Af útgjöldum fjmrn. eru 600 millj. kr. vegna hærri vaxtabóta en áætlað var í fjárlögum. 270 millj. kr. útgjöld eru vegna meiri fjármagnstekjuskatts af hagnaði af eignasölu og tæplega 170 millj. kr. útgjöld eru vegna aukinna launabóta til stofnana ríkisins vegna úrskurðar Kjaradóms og kjaranefndar. Útgjöld menntmrn. umfram fjárlög skýrast að stærstum hluta af útgjöldum háskóla og framhaldsskóla vegna fjölgunar nemenda umfram forsendur og af rekstrarhalla framhaldsskólanna. Útgjöld umhvrn. skýrast annars vegar af rúmlega 550 millj. kr. fjárheimild til ofanflóðaverkefna á þessu ári og svo 300 millj. kr. tekjum og útgjöldum úrvinnslusjóðs sem tók til starfa í ársbyrjun.

Aðrar helstu breytingar á útgjöldum eru 300 millj. kr. til Vegagerðarinnar sem er fyrirhugað að fjármagna með sölu á landspildu í höfuðborginni. Einnig er lögð til 100 millj. kr. fjárveiting til Vegagerðarinnar til að gera upp umframkostnað vegna samninga við sérleyfishafa og fjölgun ferjusiglinga árið 2002. Þá má nefna 350 millj. kr. aukin útgjöld utanrrn. vegna neyðaraðstoðar í Írak og flugumferðarstjórnar í Pristina í Kosovo. Loks má nefna 170 millj. kr. útgjöld landbrn. til úreldingar sláturhúsa og áætlun um að vaxtagjöld ríkissjóðs lækki um 430 millj. kr. frá fjárlögum.

Virðulegi forseti. Frumvarpið endurspeglar þær breytingar sem eru að verða í efnahagsmálum á yfirstandandi ári, en fram undan er hagvaxtarskeið sem áætlanir gera ráð fyrir að muni vara í nokkur ár. Annars vegar koma fram í þessu frv. breytingar sem gerðar voru af hálfu Alþingis snemma á árinu vegna meira atvinnuleysis en spáð hafði verið og þar af leiðandi koma fram minni tekjur af tekjusköttum einstaklinga og tryggingagjaldi, auk hærri útgjalda vegna atvinnuleysisbóta. Hins vegar eru skýr merki um uppsveiflu eftir mitt árið sem sjá má í auknum tekjum af veltusköttum og bjartari horfum almennings og fyrirtækja. Traust staða ríkisfjármála hefur m.a. orðið til þess að við höfum komist í gegnum tímabundið samdráttarskeið í efnahagsmálum án þess að kollsteypa hafi orðið í verðlagi eða að ríkissjóður hafi safnað skuldum.

Ég hef nú, herra forseti, rakið helstu efnisatriði þessa frv. og sé ekki ástæðu til að ræða einstaka liði þess umfram það sem fram hefur komið. Legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. fjárln. þegar þessari umræðu er lokið.