Fjáraukalög 2003

Þriðjudaginn 07. október 2003, kl. 14:17:11 (230)

2003-10-07 14:17:11# 130. lþ. 5.3 fundur 87. mál: #A fjáraukalög 2003# frv., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 130. lþ.

[14:17]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Við höfum hlýtt á framsögu hæstv. fjmrh. um fjáraukalög fyrir árið 2003.

Það hefur æðioft verið þannig varðandi fjáraukalögin að ýmislegt hefur verið þar á gráu svæði varðandi fjárreiðulög, þ.e. hvort almennt eigi allt heima í fjáraukalögum sem sett er þar fram. Því er óhjákvæmilegt að spyrja hæstv. fjmrh. að því hvort eitthvað annað sé á ferðinni nú en áður, hvort eigi í raun og veru eftir að framkvæma eða greiða margt í frv., hvort hæstv. fjmrh. hafi u.þ.b. hlutföllin þarna á milli, þ.e. hversu mikið er það sem Alþingi stendur frammi fyrir að sé nú þegar framkvæmt og greitt, hve mikið er raunverulega eftir og hversu mikið þarf Alþingi að taka afstöðu til í þessu frv.?

Það er einnig önnur spurning sem mig langar að spyrja hæstv. fjmrh. að. Í framhaldi af því að hæstv. fjmrh. nefndi að það væri nauðsynlegt að tryggja það að reglugerð um framkvæmd fjárlaga mundi virka á einhvern hátt betur, ef ég hef rétt skilið, á árinu 2004 en á árinu 2003 og þeim árum sem liðin eru frá því að reglugerðin var sett. Ég vil því spyrja hæstv. fjmrh. hvort það séu margar stofnanir sem hafa farið fram yfir hið svokallaða 4% mark sem miðað er við í reglugerð um framkvæmd fjárlaga, og ef svo er hvað hafi verið gert varðandi fjármögnun eða fjárhagslega stöðu þeirra stofnana.