Fjáraukalög 2003

Þriðjudaginn 07. október 2003, kl. 14:25:15 (234)

2003-10-07 14:25:15# 130. lþ. 5.3 fundur 87. mál: #A fjáraukalög 2003# frv., JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 130. lþ.

[14:25]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. hefur mælt fyrir frv. til fjáraukalaga fyrir árið 2003, en í lögum um fjárreiður ríkisins, nr. 88 frá 1987, er gert ráð fyrir því að með frv. til fjáraukalaga sé leitað eftir heimildum til frekari fjárráðstafana innan ársins en fjárlög gera ráð fyrir, þ.e. ef nauðsyn krefur.

Meginákvæði laganna um fjárreiður ríkisins kveða á um að heimilda sé leitað fyrir fram, þ.e. áður en skuldbindandi ákvörðun er tekin, nema í hreinum undantekningartilvikum, hreinum bráðatilvikum, eins og kveðið er á um í 33. gr. Lögin um fjárreiður ríkisins kveða á um hvernig fara skuli með bæði vinnu og framlagningu fjárlaga og fjárlagafrv. Í 29. gr. er kveðið svo á um að ríkisaðilar í A-hluta skuli hverju sinni afla heimilda í lögum til að kaupa, selja, skipta eða leigja. Sömuleiðis skuli þeir líka halda sig innan veittra heimilda fjárlaga í rekstri sínum og einungis er heimild ríkisins til að hafa afskipti af því á milli fjárlaga ef upp koma ófyrirsjáanleg atvik.

Það er mjög mikilvægt, herra forseti, að öllum sé þetta ljóst. Þetta gildir um allar ríkisstofnanir og líka, og ekki hvað síst, um aðalskrifstofur ráðuneytanna og ráðuneytin sjálf. Það er mjög mikilvægt að hafa þetta í huga því að margur er brattur að setja ofan í við annan en lítur gjarnan ekki í eigin barm. Þetta á við í mörgum tilfellum, einnig við framkvæmd fjárlaga.

Í 43.--44. gr. laganna um fjárreiður ríkisins stendur, með leyfi forseta:

,,Ef þörf krefur skal í frv. til fjáraukalaga leitað eftir heimildum til frekari fjárráðstafana en fjárlög ársins gera ráð fyrir.`` Þær heimildir eru einungis nýttar, t.d. í eftirfarandi tilvikum: ,,Valdi ófyrirséð atvik, kjarasamningar eða ný löggjöf því að grípa þarf til sérstakra fjárráðstafna, sem ekki var gert ráð fyrir í fjárlögum ársins skal leitað heimilda fyrir þeim í frumvarpi til fjáraukalaga.``

Það er því afar þröngur stakkur skorinn varðandi beitingu fjáraukalagaheimildarinnar. Ég hef áður mælt á Alþingi fyrir frv. til laga um breytingar á lögum um fjárreiður ríkisins sem kveða á um að fjáraukalögin séu bæði unnin að vori, þ.e. eftir að Alþingi hefur afgreitt mál á vetrarþingi, þá séu afgreidd og unnin fjáraukalög sem taki til þeirra breytinga sem átt hafa sér stað, bæði í samþykktum þingsins og öðrum forsendum sem geta hafa breyst við tekjur og gjöld ríkisins frá því að fjárlög voru afgreidd.

Ég hef líka lagt til, herra forseti, að vinnunni við fjárlagagerðina í heild sinni yrði breytt. Við vitum að undirbúningur fjárlagavinnunnar fyrir næsta ár fer í gang snemma á árinu á undan, þ.e. í aprílmánuði er undirbúningsvinna fyrir fjárlagagerð fyrir næsta ár komin í gang. Þá fyndist mér hið rétta að ríkisstjórnin legði fram sitt frv. fyrir þinglok, eða sinn ramma að fjárlögum næsta árs fyrir Alþingi og Alþingi ræddi þann ramma áður en það lýkur störfum á vorþingi. Þar yrði í rauninni samþykktur sá rammi sem unnið yrði innan, við undirbúning fjárlaga næsta árs. Eftir þá meðferð þingsins getur framkvæmdarvaldið síðan haldið áfram og unnið undirbúning fjárlagafrv. og það yrði síðan lagt fram af fjmrh. fyrir hönd ríkisstjórnarinnar í upphafi haustþings. Fjárln. gæti og ætti í millitíðinni, um sumarið, að fylgjast með einstökum þáttum í undirbúningi fjárlagafrv. og koma þar að, eftir því sem tök væru á. Þannig gæti frv. og undirbúningur þess, ramminn og öll vinnan verið unnin í meira samráði við þing og framkvæmdarvald en nú er.

[14:30]

Eins og við þekkjum kemur frv. hér fyrir Alþingi á haustin og fer síðan til hraðmeðferðar hjá fjárln. Á einum og hálfum mánuði er henni ætlað að fara yfir þennan veigamikla bálk og leita skýringa og upplýsinga um ýmsar tölulegar forsendur og töluleg atriði frv. og annað það er nauðsynlegt telst við að ganga frá fjárlögum fyrir ríkisbúskapinn fyrir næsta ár. Það gefur augaleið að á þeim skamma tíma og með þeirri aðkomu hefur fjárln. og þingið afar takmarkaða möguleika til þess að koma í raun að stefnumarkandi ákvörðun hvað varðar fjárlagagerðina og einstaka málaflokka hennar. Þessu tel ég að eigi að breyta.

Eins og nú er eru fjárlögin samþykkt í byrjun desember fyrir næsta ár og síðan hefur þingið ekki mikil afskipti af þeim. Þingið heldur áfram yfir veturinn og þá eru samþykkt lög sem geta haft áhrif á bæði gjalda- og tekjuhlið fjárlaganna fyrir það ár og þess vegna tel ég að það væri mjög mikilvægt einmitt að vori að skipulega væru unnin fjáraukalög sem tækju tillit til þeirra breytinga sem hefðu orðið á gjalda- og tekjuflokkum í meðförum þingsins og einnig öðrum forsendum sem gætu hafa breyst vegna utanaðkomandi aðstæðna í rekstri þjóðarbúsins. Þannig gæti þingið í raun orðið ábyrgt bæði fyrir fjáröfluninni og fjárráðstöfuninni sem lög í raun kveða á um. Síðan væru þá lögð fram aftur fjáraukalög að hausti fyrir seinni hluta þess árs. Með þeim hætti yrði tryggt að það yrði Alþingi sem ákvæði hvernig tekna skyldi aflað og hvernig fjármunum varið en ekki framkvæmdarvaldið eins og við stöndum í megindráttum frammi fyrir.

Þetta tel ég mjög mikilvægt, herra forseti, að breytingar verði skoðaðar í þessa veruna til að styrkja þinglega meðferð fjárlaga og framkvæmd þeirra á vegum Alþingis.

Víkjum aðeins að þessu frv. hér. Hæstv. ráðherra fór yfir ýmsar forsendur sem hafa breyst. Þær hefðu staðist varðandi fjárlögin eins og þau voru afgreidd fyrir nærri ári síðan. Hæstv. ráðherra rakti að hagvöxtur muni að öllum líkindum verða óbreyttur frá forsendum fjárlaga eða 1,75%. Fjárfestingar munu eðlilega aukast og verða um 7,75% en voru áætlaðar um 2% í forsendum fjárlaga. Einkaneysla eykst frá því sem gert var ráð fyrir og viðskiptahallinn við útlönd eykst líka. Það eru viss hættumerki að viðskiptahallinn virðist vera kominn á hraða ferð og er það vá sem verður að huga vandlega að að ekki fari úr böndunum.

Það er einnig umhugsunarefni að verðmæti útflutnings dragast saman og verða neikvæð frá því sem ráð var fyrir gert og neikvæð frá því sem var á fyrra ári. En varðandi þær tölur sem lagðar eru til í fjáraukalagafrv. og hæstv. ráðherra hefur getið um er þetta bara frv. sem lagt er fram og ljóst að mun eiga eftir að breytast mikið í meðförum þingsins. Okkur er kunnugt um að það vantar verulega á, vantar háar upphæðir, m.a. til heilbrigðiskerfisins, til sjúkrastofnana, til daggjaldastofnana, til menntakerfisins o.s.frv. Því er það ljóst að til þess að rétta af þá starfsemi sem er í gangi og við viljum að haldi óbreyttum styrk sínum þarf að gera verulegar breytingar á þessu fjáraukalagafrv. eins og það liggur nú fyrir.

Herra forseti. Ég vil þá nefna nokkur þau atriði sem ég vil gera að umtalsefni í frv. Hæstv. ráðherra nefndi þar tölur í heild sinni og ég vil draga fram nokkur mál. Fyrst vil ég nefna að undir forsrn. er veruleg aukning til nefndar sem heitir óbyggðanefnd. Þar er lagt til að framlög til hennar séu hækkuð um 22,6 millj. frá fjárlögum en á fjárlögum voru að mig minnir 48 eða 49 millj. kr. til óbyggðanefndar.

Þessi störf sem lúta að rekstri þjóðlendumálanna hafa verið mjög gagnrýnd í samfélaginu af þeim sem eiga hlut að máli, hvernig þar hefur verið gengið fram, og þar hefur einmitt verið skorað á hæstv. fjmrh. að fresta frekari aðgerðum í málinu uns dómar væru gengnir í þeirri fyrstu lotu sem tekin var hvað varðaði þjóðlendumálin. Það yrði beðið átekta meðan dómar gengju til fulls í þeim svo að ekki væri verið að stofna til útgjalda, bæði af hálfu þolendanna, þ.e. landeigendanna, og eins ríkisins í máli sem væri þá þegar fyrir dómi. Að gengnum dómum í 1. áfanga þessa máls væri jú komin ákveðin forsenda fyrir framhaldið og gæti það þá orðið útlátaminna fyrir bæði ríkið og hlutaðeigandi. Hér tel ég að fjmrh. hefði einmitt átt að sýna mun meiri aðgæslu í sínum vinnubrögðum heldur en raun er á því að meðferð þjóðlendumálsins er til mikilla vansa fyrir framkvæmdarvaldið.

Þá vil ég næst nefna hér til á vegum landbrn. að gert er ráð fyrir sérstaklega auknum greiðslum til úreldingar sláturhúsa. Þar er lagt til að verði varið 170 millj. kr. til úreldingar sveitasláturhúsa, sérstaklega þeirra sem ekki uppfylla skilyrði til útflutnings. Virðulegi forseti. Það getur verið skynsamleg aðgerð í einstaka tilvikum að ríkið komi inn til þess að styrkja ákveðnar byggðaaðgerðir eða koma til þess að styrkja hagkvæmni í ákveðnum atvinnugreinum. En ég verð að segja fyrir mig að þessi tillaga hér um úreldingu sláturhúsa er illa undirbyggð að mínu mati. Það liggur ekki fyrir nein sérstök stefnumörkun í því hvernig eigi að haga fyrirkomulagi slátrunar og kjötiðnaðar í landinu. Þó að byggt sé á þessari skýrslu sem unnin var á vegum landbrn. um stefnumótun í sauðfjárslátrun er hún svo götótt að það er varla hægt að tala um að í henni felist nokkur stefnumótun. Það er meira lagst í strauminn og honum fylgt. Og það er ekki stefnumótun að leggjast upp í loft í árstrauminn og renna til sjávar.

Við ættum að vita, þjóðin öll, um þau erfiðu kjör sem sauðfjárbændur búa nú við, bæði vegna þeirra gengisbreytinga sem hafa orðið, aðallega vegna þess að útflutningur hefur lækkað í verði og æ stærra hlutfall hefur líka orðið í útflutningi, og neysla hér innan lands hefur dregist saman. Í sauðfjárbúskap svissa menn ekki yfir á einu ári í að draga saman eða auka við. Það er langtímaferli sem þar á sér stað áður en lambakjöt er komið á borð neytenda þannig að menn breyta þar ekkert um kúrs á miðju ári. Sú er staðreyndin að til þess að halda þeim tekjum sem ráð var fyrir gert innan sauðfjárræktarinnar á sl. ári mun vanta milli 250 og 300 millj. kr. inn í tekjuhlið þessa atvinnuvegar. Það bitnar fyrst og fremst á launakjörum sauðfjárbænda. Ég hefði því frekar viljað sjá hér að það væri tekið á þessum þætti með beinum hætti, að komið væri til móts við þetta gríðarlega tekjutap sem sauðfjárbændur verða nú fyrir og er mörgum hverjum óbærilegt að takast á við eða standa undir. Svo óundirbúin úrelding sláturhúsa tel ég að geti orkað tvímælis og spyr hæstv. fjmrh. hvort það sé tryggt að þessi beiting fjármagns standist í raun lög því þessar greiðslur fara fyrst og fremst á húsin og til eigenda húsanna sem þarna er verið að taka til en það hlýtur að vera erfiðara að ætla að láta þessar greiðslur ná til þess að bæta upp tapað afurðaverð eða tapaðar inneignir bænda hjá sláturhúsum sem ekki geta staðið skil á þeim. Ég hefði viljað, herra forseti, að hæstv. ráðherra gerði frekar grein fyrir því hvernig hann sæi að þetta framlag, þessar 170 millj. kr., til úreldingar sláturhúsa, í raun til úreldingar atvinnutækifæra, ætti að koma til styrktar á kjörum einstakra bænda.

Ég vakti líka máls á því að þetta virðist gerast án beins skipulags eða er eitthvert skipulag í því að heilir landshlutar --- úr því að ríkið er að grípa inn í á annað borð við þróun þessara mála sem geta verið bágar skoðanir á --- allt Suðvestur- og Norðvesturland, að Hvammstanga eins og nú er ráð fyrir gert, yrðu sláturhúsalausir? Sem betur fór tókst að koma á slátrun í Búðardal þótt seint væri en óvíst er hver framtíð þess húss verður. Grunnurinn er veikur og starfsemin því takmörkuð. Er það einhver stefnumörkun að þar skuli ekkert sláturhús vera? Ríkið getur ekki farið inn með fjármagn með þessum hætti öðruvísi en það sé gert á grunni einhverrar stefnumörkunar. Og hvaða stefnumörkun hefur hæstv. fjmrh. til þess að byggja á hvað þetta varðar? Er það einhver stefnumörkun að loka sláturhúsi þar sem stór hluti bænda í viðkomandi byggð vann? Þeir missa atvinnuna, tugir millj. kr. vinnulauna hverfa úr byggðarlaginu og síðan er slátrunin flutt í önnur stór sláturhús sem verða að mæta vinnunni með því að ráða erlent vinnufólk á álagstímum. Er eitthvert skipulag að baki þessa?

Ég veit að hæstv. fjmrh. hefur fullan skilning á mikilvægi landbúnaðar eins og sauðfjárræktarinnar og kjörum þeirra sem búa dreift. Herra forseti. Er þetta eitthvað sem hann telur að sé það vel grundað að hægt sé að leggja fram með þessum hætti?

Annað vildi ég enn nefna hér, herra forseti, og það eru fjárveitingar til heilbr.- og trmrn. Á fjáraukalögum er beðið um framlag til heilbr.- og trmrn. upp á 15 millj. kr. til að mæta kostnaði þess vegna úrskurðar við Norðlingaölduveitu. Vissulega var heilbrrh. falið að kveða upp og vinna að úrskurði um Norðlingaölduveitu eða Þjórsárveraveitu en ráðuneyti hans sem heilbrrn. var ekki falið það. Hann var settur umhvrh. á meðan og það var á ábyrgð umhvrn. sem þessi vinna var unnin. Ég vil því spyrja, virðulegi forseti, hæstv. fjmrh.: Telur hann að það sé rétt með farið með tilliti til fjárlaga að færa kostnað við mat á umhverfisáhrifum við Norðlingaölduveitu á rekstrarkostnað heilbrrn.? Ég leyfi mér sjálfur að draga það í efa og tel að það sé mjög rangt með farið. Það er afar slæmt ef jafnilla verður með þennan úrskurð hæstv. setts umhvrh. farið, eins og hann flakkar nú innan kerfisins, og lítið gert úr honum líka af hálfu þeirra sem þar eiga að fara eftir.

Virðulegi forseti. Það eru allmörg nokkur önnur atriði sem væri ástæða til að fara í hvað varðar þetta frv. en ég mun athuga það í seinni ræðu minni að fara nánar í einstök efnisatriði.

Ég ítreka það, herra forseti, að frv. til fjáraukalaga á að vera mjög takmarkað og taka aðeins til mjög brýnna verkefna en ekki svo almennra verkefna eins og við sjáum í þessu frv. Það fer á svig við margt.