Fjáraukalög 2003

Þriðjudaginn 07. október 2003, kl. 14:51:25 (238)

2003-10-07 14:51:25# 130. lþ. 5.3 fundur 87. mál: #A fjáraukalög 2003# frv., EMS
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 130. lþ.

[14:51]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Við ræðum hér frv. til fjáraukalaga fyrir árið 2003. Það er auðvitað rétt að fagna því að enn einu sinni eða, ef ég man rétt, þriðja árið í röð náum við því að fjalla um fjáraukalagafrv. samhliða fjárlögum næsta árs, sem er mjög til bóta því það kemur auðvitað í veg fyrir margs konar tvíverknað sem ella verður á þeim málum. Og það er eðlilegt að þakka hæstv. fjmrh. og hans fólki fyrir það í hversu gott form þetta er komið.

En það er ýmislegt hér sem nauðsynlegt er að gera athugasemdir við. Ég hef áður í tengslum við andsvör við hæstv. fjmrh. nefnt lög um fjárreiður ríkisins og tel nauðsynlegt að rifja nokkur atriði upp í þeim efnum, vegna þess að í ágætri skýrslu sem Ríkisendurskoðun tók saman í apríl 2001 um fjárlagaferlið, kom ýmislegt fram sem er nauðsynlegt að rifja upp nú þegar við fjöllum um fyrsta fjáraukalagafrv. á nýju kjörtímabili.

Það hefur áður komið fram hér hvað fjárreiðulögin segja um það sem á að vera í fjáraukalagafrv. en við það má bæta sem segir í fjárreiðulögum, með leyfi forseta:

,,Öðrum óskum um breyttar heimildir til fjárráðstafana en getur í 1. mgr. skal jafnan vísað til ákvörðunar Alþingis í tengslum við afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta ár.``

Og það er akkúrat þarna sem ég held að deilan standi um það hversu mikið á að vera í fjáraukalögunum og hversu mikið á að fara yfir í fjárlög næsta árs. En þetta er skýrt nánar og ég held að það sé mikilvægur texti í athugasemdum með frv. þegar það var hér til meðhöndlunar, en þar segir, með leyfi forseta:

,,Í fjáraukalögum innan fjárhagsárs verði fjallað um þær fjárráðstafanir sem ekki var hægt að sjá fyrir við afgreiðslu fjárlaga. Fjáraukalög snerust þannig fyrst og fremst um ófrávíkjanleg málefni en ekki um rekstrarvanda einstakra ríkisstofnana. Aðrar fjárhagsráðstafanir eiga að koma til umfjöllunar eftir atvikum við afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta fjárhagsár eða við afgreiðslu lokafjárlaga fyrir síðasta fjárhagsár.``

Herra forseti. Því miður hefur þetta markmið ekki náðst algjörlega og m.a. er í þessu frv. eins og svo mörgum öðrum frv. til fjáraukalaga verið að fjalla um ákveðinn rekstrarvanda einstakra ríkisstofnana. Þó er rétt að taka fram að þrátt fyrir að þarna sé markmiðið býsna skýrt, þá eru auðvitað oft á tíðum æðióljós skilin þarna á milli og getur verið mikið álitamál hvort tilgreina eigi fjárheimildir í fjárlögum eða fjáraukalögum.

Ég mun hér á eftir fjalla lítillega um nokkur atriði sem ég tel að séu álitamál. Sum að vísu að mínu mati augljóslega þess eðlis að þau eiga frekar heima í fjárlögum næsta árs en í fjáraukalögum. En ýmislegt er það sem tengist þó fjáraukalögum og ákvarðanir um hvað fari þar inn eru ekki síst í höndum ríkisstjórnar. Þó er ljóst að Alþingi ákveður allt sem tengist nýjum lögum en það sem er ófyrirséð er oft og tíðum ákvörðun ríkisstjórnar.

Ég vil enn á ný, með leyfi forseta, vitna í þessa títtnefndu skýrslu frá Ríkisendurskoðun um fjárlagaferlið, því þar segir m.a.:

,,Þegar stofnað er til útgjalda án fjárheimildar en gengið út frá því að hennar verði leitað síðar, hefur fjárveitingavaldið í raun og veru verið fært frá þinginu. Búið er að stofna til útgjaldanna og því hefði neitun þingsins litla þýðingu. Auk þess er margt óljóst varðandi lagalega ábyrgð ráðherra neiti þingið að samþykkja fjárveitingu vegna útgjalda sem búið er að stofna til. Síðast en ekki síst er mjög ósennilegt að ríkisstjórn sem nýtur stuðnings meiri hluta þingmanna yrði synjað um fjárveitingu. Eftir á veitt fjárheimild felur þannig í sér raunverulegt framsal fjárveitingavaldsins til ríkisstjórnarinnar, enda þótt hið formlega fjárveitingavald sé áfram hjá þinginu.``

Herra forseti. Þetta var tilvitnun í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Það er rétt að vekja sérstaka athygli á síðustu setningunni og eðlilegt að brýna það fyrir ríkisstjórninni og sérstaklega hæstv. fjmrh. að fara varlega með þetta vald sitt og gæta þess ætíð að gera þetta ekki nema í ýtrustu neyð, því þarna er í raun verið að framselja, eins og þarna segir, fjárveitingavaldið til ríkisstjórnar frá þinginu þó svo hið formlega vald sé áfram hjá þinginu.

Herra forseti. Í fjárln. munum við samfylkingarmenn óska eftir að fá sundurliðun á því hvað er í raun búið að ákveða og hvað er verið að áætla til loka ársins, þ.e. að fá algjörlega klára skýrslu um hvaða útgjöld hafi átt sér stað nú þegar án heimildar frá þinginu og hvað verið er að áætla fyrir.

Þetta rifjar að sjálfsögðu upp það sem áður hefur gerst milli umræðna um fjáraukalög, þá hefur oft og tíðum mikið bæst við af liðum sem ekki hafa komið fram í frv. sjálfu. En við vonum auðvitað að það sé eitt af því sem lagast hefur á milli ára og nú verði minna um slíkt en áður hefur verið.

En, herra forseti, það er auðvitað margt í þessu frv. sem vekur athygli. Það fyrsta sem ég vil nefna er að nú kemur fram að hlutfall skatttekna af landsframleiðslu hækkar úr 29% í 29,2% sem er meiri hækkun þó hún sé ekki mikil, en gert er ráð fyrir í fjárlögum fyrir næsta ár, því þá er gert ráð fyrir að þessi 29,2% fari upp í 29,3%. En hér erum við að fjalla um breytingu frá fjárlögunum yfir í fjáraukalagafrv. þannig að hér hefur hlutfall skatttekna greinilega aukist meira en gert var ráð fyrir. Og það er auðvitað eðlilegt að við veltum fyrir okkur þeirri þróun sem við höfum auðvitað séð ansi oft og endurtekur sig nú, að útgjöld ríkissjóðs aukast meira en tekjur. Útgjöld ríkissjóðs núna miðað við þetta frv. aukast um 8 milljarða, meðan tekjurnar aukast um 3 milljarða. Og þarna er mismunur upp á heila 5 milljarða.

Hæstv. ráðherra fór nokkuð vel yfir heildartölur varðandi hin auknu útgjöld og nokkuð yfir tekjubreytingarnar. Það er þó einn liður sem vekur athygli mína og væri fróðlegt ef hæstv. ráðherra gæti upplýst okkur um hver skýringin væri á. En það kemur fram þrátt fyrir að skattar á vöru og þjónustu aukist mjög og virðisaukaskattur þar auðvitað mest og það er augljóst mál að stóraukinn innflutningur bíla hefur þar töluvert að segja, en hins vegar lækka tekjur af áfengis- og tóbaksgjöldum um 340 millj. þrátt fyrir gjaldskrárhækkun í upphafi ársins, sem hefði væntanlega átt að auka tekjurnar. Það er því spurning hvort við erum að upplifa það nú meðal þessarar ágætu þjóðar að áfengisneysla og tóbaksneysla hafi dregist svo mjög saman að tekjur af þeim liðum hafi minnkað sem þessu nemur.

Herra forseti. Það sem er athyglisvert þegar við berum saman ýmsar tölur og hvað hefur verið að breytast á árinu, er að við sjáum að hlutfall atvinnuleysis hefur t.d. hækkað miðað við áætlanir. Verg landsframleiðsla stendur hins vegar í stað en ýmsar tekjur af veltusköttum eru að aukast meðan tekjur af beinum launum minnka --- og þetta tengist auðvitað saman vegna þess að um leið og atvinnuleysi vex þá lækka laun mjög margra --- en þetta segir okkur væntanlega það fyrst og fremst að það eru ákveðnir hópar í samfélaginu sem hafa verið að bera minna úr býtum en áður, en á móti virðast aðrir hópar fá meira en áður, vegna þess að þeir hljóta að drífa áfram þá aukningu, þensluaukningu eða neysluaukningu sem átt hefur sér stað á yfirstandandi ári.

Herra forseti. Ég sagði áðan að ég mundi minnast á nokkur atriði sem vakið hefðu athygli mína og ég teldi að væru a.m.k. á gráu svæði ef ekki utan þess sem fjárreiðulög gera ráð fyrir að séu í frv. til fjáraukalaga. Ég minntist á eitt atriði varðandi það í andsvari við hæstv. fjmrh. áðan en það kemur sem sagt fram í frv. að gert er ráð fyrir því að auka fjárveitingar til embættis forseta Íslands um 14,3 millj. kr. Skýringin sem gefin er á því er að það sé í fyrsta lagi vegna mikillar aukningar launagreiðslna til handhafa forsetavalds á árinu 2002. Það er auðvitað afar sérkennilegt ef ekki er hægt að halda betur utan um það hvernig þetta fellur til gagnvart þessu embætti en að launagreiðslur sem eiga sér stað á árinu 2002 þurfi að koma á fjáraukalögum árið 2003. Ekki trúi ég því að launagreiðslur til handhafa forsetavalds séu svo lengi á leiðinni að þær séu yfirleitt greiddar árið eftir. Það væri þó auðvitað hugsanleg skýring.

[15:00]

Til viðbótar er þarna mikill kostnaður sem fallið hefur til vegna heimsóknar forseta Kína. Ég verð að segja, herra forseti, að ég taldi fullvíst, vegna þeirra óskapa sem við þurftum að horfa upp á við afgreiðslu fjáraukalaga fyrir árið 2002, að sögu heimsóknar forseta Kína væri lokið í fjárhagslegu tilliti. En lengi er von á einum. Hér kemur enn upp að það hefur ekki náðst að gera heimsókn forseta Kína upp á árinu 2002. Þess vegna kemur heimsókn forseta Kína enn við sögu á árinu 2003. (Gripið fram í: Því miður.) Það verður að segjast, hv. þm., að það er auðvitað miður. Þetta segir okkur að einhvers staðar er pottur brotinn í að safna saman reikningum eða gera sér grein fyrir því hvenær kostnaður fellur til.

Herra forseti. Fleira hér tengist þeim sem efst sitja í valdapíramídanum. Í forsrn. eru einnig ákveðnir hlutir sem eitthvað hafa legið milli hluta. Í ljós kemur að vegna samnings sem gerður er á miðju ári 2002, milli forsrn. og Alþýðusambands Íslands um efnahagsrannsóknir, hafa menn ekki áttað sig á því fyrr en árið 2003 að greiða ætti 15 millj. kr. meira en gert var ráð fyrir á árinu 2002. Samningurinn gerði ráð fyrir að greiddar yrðu 30 millj. kr. á ári en eingöngu voru inni 15 millj. kr. Þess vegna á í fjáraukalagafrv. fyrir árið 2003 að bæta við þessum 15 millj. kr.

Áfram má halda og við skulum halda okkur við oddvita ríkisstjórnarinnar. Í utanrrn. kemur einnig fyrir sérkennilegur hlutur sem a.m.k. hlýtur að vera spurning um hvort eigi heima í fjáraukalögum fyrir árið 2003. Í fyrsta lagi kemur þar fram að samkomulag hafi orðið um að þær reglur sem gilda um embættismenn og Kjaradómur hefur dæmt 5% álag vegna þess að þeir séu ekki æviráðnir nái til embættismanna utanríkisþjónustunnar. Það er eðlilegt að spurt sé: Af hverju átti þetta ekki að ná til embættismanna utanríkisþjónustunnar í upphafi? Ekki veit ég skýringuna á því. Það sem ég gerði athugasemd við er að þarna er þess óskað að peningar fáist vegna þessara greiðslna allt frá árinu 1996. Deilan um þetta, hvort embættismenn hjá utanríkisþjónustunni séu embættismenn eins og aðrir embættismenn, hefur staðið milli þeirra sem að málinu koma frá 1996 til ársins 2003. Væntanlega hafa (Gripið fram í.) staðið um þetta deilur allan þennan tíma. Maður veltir því fyrir sér af hverju ríkissáttasemjari hefur ekki verið kallaður að deilunni fyrst hún stóð svona lengi.

Nú getur verið, herra forseti, að hér séu einhverjar villur í frv. Á fundi fjárln. í morgun kom í ljós að það sem fjallað er um undir utanrrn., um að kostnaður vegna alþjóðabjörgunarsveitarinnar í Alsír hafi fallið til árið 2002, var prentvilla. Þetta gerðist árið 2003. Við skulum vona að eitthvað af því sem ég hér hef nefnt gæti hugsanlega haft þá skýringu að ártölin séu röng.

En eitt til viðbótar sem fellur í þennan hóp. Í landbrn. er verið að greiða leiðréttingar vegna lífeyrissjóðsgreiðslna sem fallið hafa til á árunum 2002 og 2003. Sérkennilegt er að lífeyrisgreiðslur á árinu 2002 hafi ekki verið fyrirsjáanlegar, a.m.k. þegar gengið var frá fjárlögum fyrir árið 2003.

Herra forseti. Á stöku stað í frv. vekur orðalagið sérstaka athygli, þ.e. í því samhengi hvort hlutirnir hafa verið fyrirséðir eða ekki. Undir því merka embætti ríkislögreglustjóra, hjá dóms- og kirkjumrn., er örlítill kafli varðandi tæki og búnað, sérstaklega vegna flutninga fjarskiptamiðstöðvar og almannavarna í Skógarhlíð sem staðið hefur yfir um skeið. Í ljós kemur að heildarkostnaður við þetta er að nálgast 100 millj. kr. En það sem vekur sérstaka athygli mína er að nú vantar 15 millj. kr. til viðbótar. Af hverju vantar þessar 15 millj. kr.? Það segir hér, með leyfi forseta:

,,Fjárvöntun að fjárhæð 15 millj. kr. stafar af því að starfsemin sem þarna fer fram er mjög sérhæfð.``

Það var sem sagt ekki hægt að sjá fyrir að sú starfsemi sem þarna fer fram væri mjög sérhæfð. Betra er seint en aldrei, segi ég. Þeir eru búnir að uppgötva það hjá ríkislögreglustjóra að þetta er mjög sérhæfð starfsemi. Það hefði verið eðlilegra að menn hefðu séð þetta þegar þeir voru að skipuleggja alla þessa starfsemi, að hún er sérhæfð.

Annað orðalag vekur sérstaka athygli mína, herra forseti. Þegar fjallað er um skattrannsóknastjóra ríkisins og óskað eftir sérstakri viðbótarheimild vegna viðamikilla skattrannsókna á árinu þá segir, með leyfi forseta:

,,Á undanförnum 18--20 mánuðum hefur stofnunin haft til meðferðar nokkur stór og viðamikil mál.``

Þetta held ég að sé hárrétt, að þarna hafi verið stór og viðamikil mál á ferðinni. Þess vegna er allt mjög eðlilegt við þessa beiðni. En það kallar hins vegar á tengingar við aðra stofnun sem heitir Samkeppnistofnun vegna þess að sú stofnun hefur einnig átt við býsna viðamikil mál á undanförnum mánuðum. Ekki nóg með það heldur hefur komið fram að fjárskortur stofnunarinnar hafi jafnvel tafið mál. Ekki bara það, herra forseti, heldur hefur hæstv. viðskrh., yfirmaður stofnunarinnar, sérstaklega fjallað um það í viðtölum við fjölmiðla að huga þyrfti að þessum málum. En í frétt Ríkisútvarpsins þann 11. ágúst sl. sagði hæstv. viðskrh., með leyfi forseta:

,,Hún segir að mjög mikilvægt sé að Samkeppnisstofnun hafi það rúman fjárhag að hún geti sinnt öllum þeim málum sem hún fær til umfjöllunar og ekki síður þarf hún að geta tekið mál upp sjálf.``

Með þessu var hæstv. ráðherra að vísa til þess að ekki væri nægjanlegt fjármagn til staðar vegna þess að viðtalið gekk út á það. Það kemur að auki fram í þessari frétt að á fundi með efh.- og viðskn. hafi hæstv. ráðherra sagt að veita þyrfti aukin fjárframlög til Samkeppnisstofnunar. Þess vegna, herra forseti, er óhjákvæmilegt að spyrja hæstv. fjmrh. út í málið þar sem hæstv. viðskrh. er ekki, frekar en aðrir hæstv. ráðherrar, mætt við þessar umræður. Eins og mjög oft áður situr hæstv. fjmrh. hér einn og mun væntanlega útskýra fyrir okkur hvernig á þessu stendur, hvort hæstv. viðskrh. hafi komist að því að þarna væri ekki neinn skortur á fjármunum eða hvort fjmrn. hafi gengið svo hart fram í þessum málum að það hafi ekki hleypt til þess auknum fjármunum.

Herra forseti. Það er augljóst, miðað við þann tíma sem ég sé að ég á eftir við þessa umræðu, að ég mun ekki komast yfir öll þau atriði sem ég hefði viljað minnast á. Eitt ætla ég þó að taka fyrir sem vekur sérstaka athygli. Það varðar framkvæmdir á stjórnarráðsreitnum. Þetta kemur fyrir á nokkrum stöðum í frv., fyrst undir forsrn. á lið sem heitir Fasteignir Stjórnarráðsins. Þar er óskað eftir 75 millj. kr. fjárveitingu vegna verkefna á vegum fasteigna Stjórnarráðsins, þ.e. endurbóta á Skuggasundi 3, Lindargötu 9 og Arnarhvoli. Þetta er mikill kapall sem kemur víða við. Stöldum aðeins fyrst við þessa tölu, 75 millj. kr.

Þarna voru 25 millj. kr. á fjárlögum þannig að þarna er verið að biðja um litla 200% aukningu á þessum lið. En eins og ég sagði áðan, þá kemur þetta víðar fram. Hjá dómsmrn., sem er að flytja í hluta af þessu húsnæði, er beðið um 4,4 millj. kr.

Ef ég man rétt er síðan beðið um, undir liðnum Rekstrarfélag stjórnarráðsbygginga við Arnarhól, 15,2 millj. kr. vegna kostnaðarins við að hluti af þessu húsnæði skuli standa auður. Skipulagið er svo mikið á þessu að það virðist aldrei vitað fyrir fram hvað á að taka við þegar ákvörðun er tekin. Það er bara beðið eftir því að næsta ákvörðun verði tekin. Hér eru samanlagt tengdar þessu tæpar 100 millj. kr. En inn í þennan kapal tengist einnig Hagstofa Íslands. Hagstofan flutti þarna út og yfir í nýtt húsnæði uppi í Borgartúni. Nú er verið að óska eftir því að Hagstofan fái, vegna þess kostnaðar sem þar hefur bæst við, rúmlega 36 millj. kr. Það er til að standa undir þeim kostnaði af þeim flutningi hefur hlotist. Inn í þennan kapal erum við því komin með yfir 130 millj. kr.

Takið eftir, herra forseti, að hér erum við að tala um fjáraukalagafrv. fyrir árið 2003, þ.e. við göngum út frá því að allt þetta hafi verið ófyrirséð þegar gengið var frá fjárlögum fyrir árið 2003. Allt þetta hefur komið upp á þessu ári.

Ég held, herra forseti, og hef það lokaorð mín í þessari ræðu, að tími sé til þess kominn að skipulagið á stjórnarráðsreitnum, bæði á framkvæmdum og rekstri, verði tekið til endurskoðunar.