Fjáraukalög 2003

Þriðjudaginn 07. október 2003, kl. 15:50:03 (243)

2003-10-07 15:50:03# 130. lþ. 5.3 fundur 87. mál: #A fjáraukalög 2003# frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 130. lþ.

[15:50]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. er býsna rogginn með sig og hann er ólatur við að tíunda eigin afrek í fjölmiðlum um hinn glæsta árangur sinn og ríkisstjórnar sinnar í ríkisfjármálum. Það er út af fyrir sig nokkuð til í því að hagur ríkissjóðs hefur verið allgóður nú hin seinni árin. En á því eru auðvitað þær skýringar helstar að við höfum búið við ákaflega hagstæð ytri skilyrði til reksturs þjóðarbúsins lengst af meira og minna frá miðjum tíunda áratug síðustu aldar. Á því eru líka þær skýringar að hæstv. fjmrh. hefur verið drjúgur við að selja fjölskyldusilfrið. Hann hefur komið í verð og afsett verðmætar eignir sem þjóðin hafði byggt upp í fyrirtækjum sínum á áratuga- og aldalöngu tímabili. (Gripið fram í.) Mesti glansinn fer nú af þessum árangri í ríkisfjármálum þegar sala ríkiseigna er dregin frá. Þá er það þannig að ríkissjóður hefur kannski í aðalatriðum náð því að vera rekinn á núlli í gegnum þetta langa hagvaxtar- og góðærisskeið hvað varðar ytri skilyrði þjóðarbúsins. Þetta væri svo sem ekki slæmt sérstaklega ef afkoma og hagur annarra hefði á sama tíma verið jafngóður. En svo er ekki.

Hæstv. fjmrh. vill t.d. aldrei ræða þá staðreynd að nánast samfellt á þeim tíma sem ríkissjóður hefur verið rekinn á sléttu eða með afgangi hafa sveitarfélögin verið rekin með halla og þau hafa safnað miklum skuldum. Sá hluti hins opinbera rekstrar sem liggur hjá sveitarfélögunum er ekkert síður mikilvægur en rekstur ríkissjóðs og hann er í vaxandi mæli að verða sá stóri hluti af velferðarþjónustunni sem varðar nærþjónustuna við íbúana og skiptir miklu máli í daglegu lífi fólks. Það gerist m.a. með ákvörðunum um að færa mikilvæga málaflokka eins og grunnskólann til sveitarfélaganna.

Mér finnst það því vera svona eins og að skoða bara aðra hliðina á peningnum að ræða þröngt um afkomu ríkissjóðs en horfa algjörlega fram hjá afkomu sveitarfélaganna sem Alþingi, löggjafarvaldið og ríkisstjórn á hverjum tíma með stefnumótun sinni skammta algerlega skilyrðin, því tekjulegur grundvöllur sveitarfélaganna er ákveðinn hér. Hann er ákveðinn hér og svigrúm þeirra og sjálfstæði til eigin tekjuöflunar er afar lítið þar sem tekjurnar eru skammtaðar af löggjafanum eða tekjuramminn og verkefnin eru síðan meira og minna lögbundin. Sveitarfélögin hafa á sér þessar lögbundnu skyldur til þess að sinna hlutunum.

Heimilin í landinu hafa líka safnað miklum skuldum. Ætli þær séu ekki að nálgast 200% af ráðstöfunartekjum heimilanna, líklega um 180% af ráðstöfunartekjum heimilanna. Það þýðir að þó heimilin hættu allt í einu að eyða og ráðstöfuðu hverri einustu krónu sem kæmi inn í tekjur í að borga niður skuldir þá tæki það upp undir tvö ár. Þá yrði nú einhver orðinn magur ef hann ætti að lifa á loftinu á meðan. Það er nú bara ekki svo auðvelt að gera þetta svoleiðis.

Skuldir íslenskra heimila eru, að ég held, reyndar þær hæstu í heiminum eftir að við fórum fram úr Japönum sem lengi áttu heimsmetið í þessum efnum. Svo koma menn hér með alls konar skýringar og segja að þetta sé vegna þess að þjóðin sé ung og búi í dýru húsnæði o.s.frv. og menn eru drjúgir við það þegar þeir gera lítið úr þessum alvarlegu vísbendingum sem við erum að horfast í augu við, þ.e. að sveitarfélögin, heimilin, reyndar atvinnulífið í talsverðum mæli og síðast en ekki síst þjóðarbúið út á við, hafa verið rekin með algjörlega óviðunandi afkomu núna um langt árabil. Við erum að horfa framan í áttunda árið í röð með viðskiptahalla. Hann var að vísu lítill á síðasta ári, en miðað við nýjustu tölur hefur það sennilega fallið öfugu megin við strikið. Það var lítils háttar viðskiptahalli á árinu 2002.

Frá og með árinu 1996 að telja til og með þess sem við horfum framan í í ár, þegar viðskiptahalli er að aukast á nýjan leik, er sem sagt mínus framan við uppgjörið á hverju einasta ári og það svo ekkert litlu nemur þau árin sem viðskiptahallinn var hér mestur eða upp undir 10% af landsframleiðslu.

Ég verð því að segja, virðulegur forseti, að ég deili ekki nema í takmörkuðum mæli þessum góðærisvaðli sem stendur hér upp úr öðrum hverjum manni. Það er eiginlega alveg merkilegt hvernig menn geta talað sig upp í það og sannfært sjálfa sig um að það sé svona grenjandi góðæri. Hvers konar notkun er þetta á þessu hugtaki? Hverjir njóta þessa góðæris? Verðum við þá ekki að fara ofan í saumana á því? Jú, segja má að nokkurt góðæri hafi verið hjá ríkissjóði ef það er skoðað afar þröngt, m.a. vegna þess að ríkissjóður hefur verið að selja eignir. En það gildir ekki um stóra og mikilvæga aðila í samfélaginu að öðru leyti sem hafa alls ekkert búið við mjög góðan efnahag. Þegar efnahagsreikningur annarra er gerður upp er hann ekkert sérlega glæsilegur. Það mun taka í að borga þessar skuldir.

Þarna er auðvitað alvarlegust skuldastaða þjóðarbúsins út á við. Hún er mjög alvarleg. Hún hefur verið að aukast jafnt og þétt og mun gera á næstu árum all verulega ef áform eða áætlanir um viðskiptahalla, sem ég reyndar tel að séu varfærnar, ganga eftir, þ.e. ef hann helst innan þeirra marka að fara ekki mikið yfir þrjá af hundraði af þjóðartekjum.

Þetta þarf nú að hafa í huga allt saman, herra forseti, þegar menn ræða hér glaðhlakkalegir um stöðu ríkisfjármálanna. Ég tel að hæstv. fjmrh. mætti gjarnan temja sér aðeins meiri hógværð í þeim efnum þó ýmislegt hafi vel til tekist og margt sé þar ágætlega gert. Ég tel t.d. að það hvernig ríkissjóður hefur verið að greiða inn á lífeyrisskuldbindingar og fleira í þeim dúr sé til fyrirmyndar, að þannig eigum við að taka á slíkum málum, þ.e. að setja okkur langtímaáætalnir um að koma þeim hlutum í lag. Auðvitað hefur þeim fjármunum sem losnað hafa m.a. með sölu ríkiseigna að sjálfsögðu að ýmsu leyti verið skynsamlega varið. Það er gott í sjálfu sér að ríkissjóður hafi náð niður skuldum sínum. Það er ákaflega gott. Það er gott að hafa þá peninga handa á milli sem ella hefðu farið í vaxtagreiðslur. Það er gott að ríkissjóður hafi þá sterkari stöðu til að þjóna sínu hlutverki m.a. sem sveiflujöfnunaraðili í efnahagslegum sviptingum á komandi árum og mun örugglega ekki af veita þannig að t.d. ríkissjóður geti tekið á sig hallarekstur einhver ár ef menn þurfa að fleyta þjóðarbúinu yfir erfiðleikatíma sem gjarnan gætu átt eftir að verða, t.d. í lokin á þeim miklu stórframkvæmdum sem nú eru hafnar.

Herra forseti. Mig langar að koma sérstaklega inn á nokkur atriði í þessu fjáraukalagafrumvarpi og biðja kannski um skýringar á þeim eða ræða. Ég veit ekki hvort þær hafa að einhverju leyti komið fram nú þegar. En þá má gjarnan endurtaka það. Ég staldra fyrst við rekstur Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri. Ég geri það í ljósi frétta þaðan um að þar telji menn sig knúna til umtalsverðra uppsagna á starfsfólki. Því miður er ekki að sjá af þeirri úrlausn sem fjórðungssjúkrahúsið fær í fjáraukalagafrumvarpinu, sbr. útskýringar á bls. 74, að þar sé í raun á neinn hátt verið að koma til móts við þann rekstrarvanda sem brennur á sjúkrahúsinu vegna núgildandi starfsemi. Færðar eru þarna inn 100 milljónir í aukafjárveitingu til greiðslu uppsafnaðs rekstrarhalla. Ég held að Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri sé ekki að segja upp fólki í sjálfu sér vegna uppsafnaðs rekstrarhalla. Það er að segja upp fólki vegna þess að það hefur ekki nægjanlegar rekstrarfjárveitingar til að halda úti þeirri starfsemi sem þar er. Það er mjög alvarlegt mál og mjög heimskulegt, að mínu mati, að veikja þessa flaggstofnun sérhæfðrar heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni sem þjónar alveg gríðarlega mikilvægu hlutverki fyrir allt norðan- og austanvert landið. Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri er upptökusjúkrahús, sérgreinasjúkrahús, fyrir 40.000--60.000 íbúa byggð á norðan- og austanverðu landinu og getur þjónað stærra hluverki í heilbrigðiskerfi landsmanna en það gerir í dag og ég tel að skynsamlegt sé að láta það gera það, ekki síst eftir sameiningu stóru sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu. Það er í mínum huga ekki síður skynsamlegt.

Það má taka sjálfstæðismenn á orðinu sem lengi andæfðu hugmyndum um sameiningu sjúkrahúsanna hér vegna þess að það væri svo gott að hafa samkeppni og samanburð. Hvert ætla menn með hann þegar búið er að sameina þetta allt á höfuðborgarsvæðinu? Það má nú deila um hversu vel það hefur tekist. Svo sannarlega má deila um það því margt bendir til að reynslan hér hafi ekki síður orðið sú sem hún hefur orðið víða annars staðar, þ.e. að svona fljótfærnislegar sameiningar sem ekki eru nægjanlega vel undirbúnar skili miklu minna en menn halda í rekstrarsparnaði en hafa í för með sér ýmiss konar vandamál. En það er kannski önnur saga sem betra er að ræða við hæstv. heilbrrh. Og þó, því auðvitað er það útgjaldamál einnig.

[16:00]

Ég sem sagt harma það mjög ef ekki á að koma þannig til móts við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri sem er, eins og ég segi, gríðarlega mikilvæg miðlæg stofnun í allri æðri heilbrigðisþjónustu á norðan- og austanverðu landinu að það geti keyrt áfram og byggt upp starfsemi sína fyrir fullum seglum, heldur þurfi að fara að segja upp starfsfólki. Ég held að menn verði líka að horfast í augu við það að þar er rekið sérgreinasjúkrahús, lítil eining, sem þarf að glíma við það að uppfylla allar reglur, t.d. um vaktaskipan og hvíldartíma lækna og starfsfólks samkvæmt evrópskum reglum og guð má vita hvað. Það er ærið úrlausnarefni bara að leysa það allt saman og ná að manna þessar stöður þó að það bætist ekki við að menn séu í hengjandi vanda með reksturinn. Mér er vel kunnugt um að í mörgum tilvikum mætti ná fram miklum sparnaði ef hægt væri að leysa mál norðan heiða í staðinn fyrir að þurfa að senda sjúklinga suður til ýmiss konar sérhæfðra rannsókna eða þjónustu. Það snýst stundum um kaup á minni háttar tækjabúnaði eða öðru slíku, mundi nýta betur og styrkja þá starfsemi sem til staðar er nyrðra og spara auðvitað, síðast en ekki síst, sjúklingunum mikil útgjöld, sjúklingunum og/eða Tryggingastofnun eftir því hvort slíkt er endurgreitt í einhverjum mæli.

Í öðru lagi var hér rætt áðan, heyrði ég, um úreldingu sláturhúsa. Hæstv. fjmrh. taldi sig kannski ekki sérfræðinginn í því máli faglega og honum verður að fyrirgefast það, það hlýtur að heyra undir hæstv. landbrh. að standa faglega séð ábyrgur fyrir þeirri stefnumótun sem þar er á ferðinni. Hæstv. fjmrh. lætur sig samt hafa það að leggja hér til fjárveitingar í þetta mál og hlýtur þar af leiðandi að þurfa að geta forsvarað það. Og ég hlýt að taka undir það sem hv. þm. Jón Bjarnason sagði, mér finnst sú stefnumótun sem þar er byggt á ákaflega losaraleg og sérkennilega ígrunduð, t.d. þessi mikla áhersla á að það eigi eingöngu að setja á vetur þau hús sem nú þegar hafa útflutningsleyfi í stað þess að skoða t.d. hvar þurfi að vera til staðar sláturhús, einfaldlega til þess að það sé boðlegt út frá aðstæðum bænda og út frá dýraverndunarsjónarmiðum, hvað varðar flutningaleiðir og annað í þeim dúr. Það var greinilegt að sú skýrsla sem þarna er byggt á hafði ekki farið vel ofan í saumana á ýmsu. Þar voru t.d. hús sem eru í tiltölulega góðu ástandi og eru alveg við það að fá þetta fræga útflutningsleyfi, eru kannski bara í þann veginn að ljúka uppbyggingu og þeirri fjárfestingu sem til þarf en þau eru bara ekki tekin með af því að þau hafa ekki leyfið í höndunum í dag. Ég held og það má enginn misskilja mig með það, að það sé óumflýjanlegt að í einhverjum tilvikum hverfi úr rekstri hús sem eru orðin algjörlega ósamkeppnisfær og hverra bíður ekkert annað en að hverfa úr rekstri, einfaldlega vegna þess að þar er það illa hýst eða ástandið þannig.

Það er ekki þar með sagt að það sé rétt að alhæfa með þeim hætti sem skýrslan gerði. Ég hefði gjarnan viljað sjá að þetta mál væri nálgast á tveimur forsendum, annars vegar á grundvelli vandaðrar stefnumótunar um það hvar við þurfum að hafa þessa þjónustu til þess að það sé boðlegt ástand í landinu og síðan stæði mönnum til boða hvort tveggja, annars vegar úreldingarstyrkir, í þeim tilvikum sem það er besti kosturinn og menn velja að nota hann, og hins vegar stuðningur við að koma húsunum í forsvaranlegt horf, þeim húsum sem eiga að verða til frambúðar. Úr því að verið er að setja í þetta umtalsverða opinbera fjármuni, hátt á annað hundrað millj. kr., má þá ekki alveg eins ráðstafa hluta þess fjár þannig að í staðinn fyrir þessa blindu úreldingarhugsun komi á móti einhver hugsun um það að stundum sé rétt að byggja upp, koma hlutunum í forsvaranlegt horf? Norðvestanvert landið og Vestfirðirnir --- það er auðvitað alveg yfirgengilegt ef menn eru að keyra fé vestast af Vestfjörðum og inn á mitt Norðurland eða suður á Selfoss. Það eru nú meiri ósköpin. Hefði ekki verið hugsanlegt að líta á landakortið og skoða þessa hluti?

Síðan eru enn í þessu ónefndir hlutir eins og sjúkdómavarnir sem ættu með réttu að setja því talsverðar skorður hvað er leyfilegt í þessum efnum í staðinn fyrir að menn flytji lifandi búpening þvert yfir margar sjúkdómavarnalínur og svo aftur til baka, kannski misjafnlega vel þveginn.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra líka um Lýðheilsustofnun, sem eftir allnokkur harmkvæli komst á laggirnar hér um mitt sumar eða á að heita svo. Það er nú búið að togast talsvert á um málefni þeirrar stofnunar sem er miður því að þar var að mörgu leyti hin þarfasta framkvæmd á ferð, að byggja þar upp myndarlega og öfluga stofnun þar sem sameinaðir væru og samræmdir ýmsir þættir sem flokkast undir lýðheilsu. Það var rifist um staðsetninguna en það tókst að troða henni niður hér á mölinni eins og fleiru þrátt fyrir áform um annað. Ég vil spyrja hvort verið sé að færa þar til fjármuni úr verkefnum yfir í rekstur, eða hvernig ber að skilja þessar útskýringar á bls. 73, þ.e. að krukkað er í tekjur margra aðila sem þarna sameinast, eins og manneldisráðs, tóbaksvarnaráðs og m.a.s. áfengis- og vímuvarnaráðs? Þær tekjur koma m.a. af gjöldum sem lögð eru á gagngert til þess að ráðstafa síðan í forvarnir og annað slíkt. Ég spyr ráðherra að því: Er það á hreinu að þarna sé ekki verið að sæta færis og færa yfir í rekstur fjármuni sem af hálfu Alþingis við fjárlagagerð og samkvæmt lögum, sérlögum, eru hugsaðir í verkefni sem verkefnabundnar tekjur viðkomandi aðila? Mér finnst skipta máli að það sé alveg á hreinu.

Þá vil ég líka spyrja um ríkislögreglustjóra. Ég varð alveg forundrandi þegar ég las um ríkislögreglustjóra því að hann hefur verið áskrifandi, eins og kunnugt er, að stórfelldum hækkunum í öllum frv., bæði fjárlaga- og fjáraukalagafrv. sem hér hafa sést og virðist ekkert duga því að alltaf er sami barlómurinn þar á bæ. Nú bárust þau merkilegu tíðindi í sumar að ríkislögreglustjórinn gæti ekki sinnt starfi sínu, hann gæti ekki framfylgt lögum af því að hann vantaði peninga. Og það sem var einkennilegra var að ríkislögreglustjórinn útnefndi sérstök mál sem yrðu afgangs. Hann mundi ekki fara í að rannsaka samráð olíufélaganna nema hann fengi einhverja tugi milljóna í viðbót í fjárveitingar. Svona hef ég aldrei áður heyrt opinberan embættismann, sem hefur lögbundnum skyldum að gegna, tjá sig. Þetta væri svona svipað og menntmrh. brygðist þannig við ónógum fjárveitingum til framhaldsskóla að hann slægi af einn þeirra og segði: Ég hef ákveðið að hafa ekki skóla á Austurlandi af því að ég hef ekki peninga til þess, í staðinn fyrir að reyna þá að leita almennra leiða til þess að sinna lögbundnu hlutverki sínu að því marki sem hægt er fyrir þá fjármuni sem í boði eru. Og ég tel auðvitað að það hafi verið hneyksli að ríkislögreglustjóri skyldi ekki vera áminntur í framhaldi af því hvernig hann kom fram í þessu máli í sumar. Embættinu ber eins og það getur að sinna öllum málum. Það verður þá frekar að hafa það þó að þau tefjist en það á að vera almenn nálgun en ekki sértæk með þessum hætti.

Það má náttúrlega spyrja í framhaldinu: Af hverju er þá ekki fjárveiting lögð til í fjáraukalagafrv. til þess að ríkislögreglustjórinn geti sinnt skyldum sínum og farið að rannsaka samráðshneykslið hjá olíufélögunum? Eða hvað? Er búið að leysa það mál með einhverjum öðrum hætti? Kann hæstv. fjmrh. á það? Hann hlýtur að vera í sæmilegu sambandi við ríkislögreglustjórann þannig að hann geti svarað fyrir þetta hér.

Að síðustu, herra forseti, um framhaldsskólana. Málefni þeirra hafa verið í miklum ólestri. Þeir hafa dregið skuldahala sem hefur verið að lengjast á undanförnum árum og það er auðvitað til vansa að á því skuli ekki hafa verið tekið fyrir löngu. Þess vegna fletti maður fljótt upp á því hvað væri þar að sjá og lesa og í ljós kemur að af allverulegri hækkun til framhaldsskólanna, sem að stærstum hluta stafar af meiri fjölda nemenda en áætlanir gerðu ráð fyrir, eru aðeins 180 millj. kr. ætlaðar til að koma til móts við skóla með verulegan, uppsafnaðan rekstrarhalla. Og ég spyr hæstv. fjmrh.: Hvað þýðir að ,,koma til móts við``? Hversu mikill verður halinn þó að til þessara 180 millj. kr. komi?

Nú veit ég vegna heimsókna í ýmsa framhaldsskóla að menn eru þar í mörgum tilvikum að velta á undan sér, og hafa verið jafnvel um árabil, nokkurra tuga og allt upp í margra tuga milljóna skuldahala sem náttúrlega er óvinnandi vegur fyrir stofnanir af þessu tagi, gerir allt starf stjórnendanna erfiðara og leiðinlegra heldur en það þyrfti að vera. Ég vildi gjarnan að hæstv. fjmrh. kæmi hér í svörum á eftir aðeins inn á það að hve miklu leyti þarna er verið að leysa varanlega þennan vanda framhaldsskólanna sem þeir hafa dregið á eftir sér.