Fjáraukalög 2003

Þriðjudaginn 07. október 2003, kl. 17:12:42 (252)

2003-10-07 17:12:42# 130. lþ. 5.3 fundur 87. mál: #A fjáraukalög 2003# frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 130. lþ.

[17:12]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég heyrði ekki betur en það væri umvöndunartónn í máli hæstv. fjmrh. undir lok umræðunnar. Svo var á honum að skilja að honum væri umhugað um að yfirbragð þinghaldsins væri slétt og fellt. En þarf nokkurn að undra þótt eitthvað gári á yfirborði þeirrar pottsúpu sem ríkisstjórnin hefur búið þessari þjóð, m.a. í tengslum við einkavæðingu bankanna? Nei, hv. þm. Jón Bjarnason skyldi gæta orða sinna, hann skyldi ekki hafa um þetta óviðurkvæmilegt tal. Hann hefði sagt að bankarnir væru notaðir sem skiptimynt í valdabaráttu og að sterkir fjármálaaðilar væru að sölsa undir sig eignir þjóðarinnar. Er það ekki nákvæmlega það sem er að gerast? Nema hann gleymdi náttúrlega einu, kannski af kurteisi við hæstv. ráðherra, að allt er þetta gert með hjálp ríkisstjórnarinnar og þar hefur hæstv. ráðherra gegnt veigamiklu hlutverki. Það er kannski komin ástæða til að ræða það örlítið við þessa umræðu en ég ætla ekki að lengja hana, aðeins spyrja hvort þetta sé ekki einmitt sannleikur málsins. Hvort bankarnir, sem áður voru ríkiseign, séu ekki notaðir sem valdatæki fyrir sterka fjármálamenn að brjótast hér til áhrifa og valda í efnahags- og fjármálalífi þessarar þjóðar? Þetta eru einfaldlega staðreyndir svo fullyrðingar hv. þm. Jóns Bjarnasonar standast fyllilega.

Þjóðin hefur fylgst agndofa með þessari atburðarás allar götur frá því að hæstv. viðskrh. og bankamálaráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, mætti uppábúin í Þjóðmenningarhúsinu á gamlársdag til þess að gefa Búnaðarbankann. Og nú er verið að upplýsa það við þessa umræðu að það sé óuppgert með hvaða hætti verði gengið frá þessum kaupum. Ég held að það sé reyndar allt of hátíðlegt orð að nota um þessa gjöf, ,,kaup``, því að það er ekkert borgað.

[17:15]

En vita menn hvað Búnaðarbankinn var að fá í arð? Þetta var upplýst í blöðum ekki alls fyrir löngu. Þá var greint frá sex mánaða uppgjöri Búnaðarbankans og það var greint frá því að hreinn arður, hreinn gróði eftir skatta, á sex mánuðum voru yfir 3 milljarðar, 3.065 millj. kr. Og hjá Landsbankanum, sem er væntanlega ekki búið að ganga enn frá hvernig eigi að selja eða gefa, var þessi upphæð 1,4 milljarðar í hreinan gróða eftir skatt. Og nú eru menn að ræða það á hvern hátt hægt sé að ná þessu svokallaða kaupverði eða söluverði enn þá lengra niður.

Ég vil spyrja: Er það rétt, sem hér er fullyrt í viðskiptalífinu, að aðilar innan þessara gömlu ríkisbanka ráði einnig yfir fyrirtækjum sem eru mjög skuldsett, skulda m.a. þessum fjármálastofnunum, og þá liggi beint við að skuldir þeirra verði afskrifaðar, færðar niður, og þar með lækki söluverð bankanna, þar með fái skattgreiðandinn, íslenskur almenningur, minna í sinn hlut? Getur þetta verið satt? Þarf ekki að ræða þetta, þarf ekki að upplýsa um þetta?

Einu viðbrögðin sem koma frá ríkisstjórninni þegar imprað er á þessu og hún krafin sagna eru höstug svör um að menn skuli ekki koma upp á dekk með óviðurkvæmilegt tal.

Það sem ég hef aldrei skilið --- ég hef lagt mig eftir því að reyna að átta mig á meginlínum stjórnmálanna --- er hvernig það gat gengið að hv. þm. eins og Birgir Ármannsson, hægri sinnar, létu þetta yfir sig ganga, þessi kaup og þetta pólitíska brask með bankana, hvers vegna í ósköpunum, fyrst þeir voru seldir, það var ekki gert á markaði, selt sem hlutafé á markaði. Nei, það þurfti að búa til aðra formúlu þannig að stjórnmálaflokkarnir og aðilar þeim handgengnir gætu fengið tök á þessum eignum þjóðarinnar. Þetta var krafa Framsfl. En að sjálfstæðismenn létu þetta yfir sig ganga, og hægri sinnar þar, hef ég aldrei skilið. Ég tel að við þessi skipti hafi fyrst og fremst Framsfl. hagnast sem pólitískt afl, sem hefur gumað af því að tengjast aðilum í viðskiptalífi. Hæstv. viðskrh. talaði um ,,okkar menn``, ,,okkar menn í efnahagslífinu``, ,,okkar fyrirtæki``. Það er hægt að fletta þessari umræðu upp í þingtíðindum.

Mér finnst aldeilis ótrúlegt að það skuli upplýst núna, við þessa umræðu, að sjálf aðferðafræðin við sölu bankanna sé óuppgerð, menn viti ekki hvernig á þessu standi en séu að leggja 2 milljarða til hliðar til þess að geta veitt í vasa svokallaðra kaupenda bankanna. Mér finnst þetta alveg með ólíkindum. Ég bið hæstv. fjmrh. að gera okkur betur grein fyrir því hvort ég hef skilið þetta rétt, að aðferðafræðin sé ekki frágengin. Eða er þetta misskilningur hjá mér, er það aðeins hitt að það sé ekki komið í ljós hve miklar skuldir bankarnir ætla að greiða niður?

Hafa menn gert sér grein fyrir því að ef greiða þarf niður skuldir í Landsbankanum eða afskrifa þær mun hið sama gilda um Búnaðarbankann? Hann mun einnig njóta góðs af því, og síðan öfugt. Ef skuldir verða afskrifaðar í Búnaðarbankanum munu ,,kaupendur`` Landsbankans einnig njóta góðs af því. Er þetta ekki rétt skilið? Ég óska eftir því að hæstv. fjmrh. leiðrétti mig ef þetta er rangt.

Eitt vildi ég nefna í tengslum við þessa umræðu, Landssímann. Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir því að arður út úr Landssímanum nemi 880 millj. kr. en í fjáraukalögum er gert ráð fyrir rúmum 2 milljörðum. Í rauninni hef ég ekki nokkra stöðu til að meta hvað er eðlilegt eða óeðlilegt í þessu sambandi. En það er eitt sem mig langaði til að spyrja um, tengslin á milli fjmrn. annars vegar og Landssímans hins vegar, hlutafélagsins annars vegar og fulltrúa okkar, þjóðarinnar, framkvæmdarvaldsins, hins vegar. Hafa þau eitthvað breyst, þessi tengsl, eftir hlutafélagavæðinguna? Nú vitum við að það er aðeins eitt hlutabréf --- nei, þau eru nú orðin eitthvað fleiri, hlutabréfin í Landssímanum, en að uppistöðu til er þetta eitt hlutabréf sem er á hendi hæstv. samgrh. --- hvað hefur breyst með hlutafjárvæðingu Landssímans hvað þetta varðar? Nú geri ég mér grein fyrir því að hér fyrr á tíð rann umtalsvert fé, og meira en við erum að tala um hér, frá Landssímanum inn í ríkissjóð. Það var skýringin á því að fjármálamenn vildu láta einkavæða fyrirtækið, þarna var komin uppspretta peninga sem áður runnu í ríkissjóð, skattborgaranum til hagsbóta. Nú breyttist þetta allt. En ég spyr eiginlega fyrir forvitni sakir hvað hafi breyst í samskiptum ríkisins og þessa fyrirtækis við hlutafélagsvæðinguna.

En fyrst og fremst leikur mér forvitni á að heyra hæstv. fjmrh. skýra nánar fyrir okkur fyrirkomulag hinnar svokölluðu sölu bankanna. Hvað á hann við þegar hann segir að það sé óuppgert hvernig standa skuli að sölunni? Eða er þetta misskilningur hjá mér? Er hitt aðeins óuppgert hve mikið verður afskrifað og þar af leiðandi hve mikið skattborgarinn þarf að blæða fyrir þessar pólitísku ákvarðanir ríkisstjórnarinnar?