Fjáraukalög 2003

Þriðjudaginn 07. október 2003, kl. 17:23:24 (253)

2003-10-07 17:23:24# 130. lþ. 5.3 fundur 87. mál: #A fjáraukalög 2003# frv., fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 130. lþ.

[17:23]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Frú forseti. Það eru nokkur atriði sem fram hafa komið frá því að ég tók síðast til máls sem ég vildi drepa hér á.

Hv. þm. Einar Már Sigurðarson var hér með nokkrar viðbótarspurningar sem lúta m.a. að húsnæðismálum Stjórnarráðsins. Þar hafa verið töluverðar breytingar eins og kunnugt er. Það er mikilvægt að koma ráðuneytunum í viðunandi framtíðarhúsnæði. Það var ætlunin að rífa gamla Landssímahúsið við Sölvhólsgötu og byggja þar byggingu sem hýst gæti þrjú eða fjögur ráðuneyti en frá því hefur verið fallið, m.a. til þess að auka ekki á þenslu hér á byggingarmarkaði. Því máli hefur sem sagt verið frestað. Í millitíðinni hefur hins vegar verið ákveðið að leysa úr vanda nokkurra ráðuneyta. Hagstofan flutti í Borgartún 21a, hún er ráðuneyti eins og kunnugt er, og dómsmrn. fékk til afnota húsnæði Hagstofunnar. Síðan er ráðgert að efnahagsskrifstofa fjmrn., sem nú er á Lindargötu 9, fái húsnæði dómsmrn. sem áður var, og að umhvrn. flytji síðan úr leiguhúsnæði hér í miðbænum á Lindargötu 9. Hér er heilmikil flétta í gangi sem hv. þm. nefndi að hluta til og spurðist fyrir um.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að 100 ára afmæli heimastjórnar á Íslandi hefur nú legið fyrir í bráðum 100 ár. Hins vegar er það nýtilkomið að efna til sérstakra viðburða af því tilefni, það er ný ákvörðun, og til hennar hefur verið varið 8 millj. kr. samkvæmt þessu frv. en það er farið fram á 8 millj. kr. fjárveitingu til að standa straum af þeim.

Varðandi ríkislögreglustjórann enn og aftur, sem tveir þingmenn minntust hér á, er náttúrlega verið að auka fjármagnið til hans. Það hefur verið gert á undanförnum árum vegna þess að honum hafa verið falin aukin verkefni. Það er meginskýringin á því.

Út af bifreiðum Stjórnarráðsins sem hv. þm. spurði um er það þannig að hér var eitt sinn safnliður fyrir bifreiðar Stjórnarráðsins en var felldur brott fyrir nokrum árum og þá tekinn upp sá siður að hvert ráðuneyti fyrir sig skyldi fjármagna endurnýjun á þessum bílum. Nú er gert ráð fyrir því í fjárlagafrv. að settar verði 5 millj. kr. á þennan lið og má þá gera ráð fyrir því að svo verði árlega en til þess að koma honum af stað er beðið hér um 18 millj. kr. aukafjárveitingu til þess að standa fyrir einhverri endurnýjun á þessu ári. Ef einhver afgangur verður af því flyst hann bara yfir á næsta ár og ég get ekki svarað því nákvæmlega hvaða ráðuneyti munu hugsa sér til hreyfings í þessum efnum.

Út af sölu ríkisfyrirtækja almennt er ekki rétti vettvangurinn núna að skiptast á skoðunum við hv. þm. Ögmund Jónasson um það efni, enda er það svo til vonlaust mál. Hann er svo mikið á móti því að það er alveg sama hvaða aðferðum beitt yrði eða hvernig farið yrði í það mál, ekki nokkur maður gæti sannfært Ögmund Jónasson um réttmæti þess að selja fyrirtæki í ríkisins eigu.

Það sem þetta mál snertir og varðar þetta frv. er það að hér í lánsfjáryfirlitinu er verið að gera grein fyrir því hvaða breytingar verða á lánahreyfingum og lánsfjárjöfnuði, hvaða breytingar verða á greiðslum sem koma inn í ríkissjóð og greiðslum sem fara út úr ríkissjóði. Það eru mismæli hjá hv. þm. að það hafi verið Búnaðarbankinn sem var seldur á gamlársdag, það var Landsbankinn, og í samræmi við ákvæði fjárreiðulaganna var andvirði hans bókfært á árið 2002. Það sagði hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon réttilega. En það er bara í samræmi við ákvæði fjárreiðulaganna þó að greiðslur falli til síðar meir.

Og nú er verið að taka tillit til breyttra aðstæðna varðandi greiðslurnar í þessu fjáraukalagafrv. Allt er þetta eðlilegt og samkvæmt réttum reglum og viðmiðunum.