Fjáraukalög 2003

Þriðjudaginn 07. október 2003, kl. 17:28:41 (254)

2003-10-07 17:28:41# 130. lþ. 5.3 fundur 87. mál: #A fjáraukalög 2003# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 130. lþ.

[17:28]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Aðeins lítil leiðrétting. Það er alrangt hjá hæstv. ráðherra að ég hafi alla tíð verið andvígur allri sölu á fyrirtækjum í eigu ríkis eða sveitarfélaga. Þetta er ekki rétt og ég get nefnt mörg dæmi um slíkt. Ég hef hins vegar gagnrýnt sölu á ýmsum fyrirtækjum, hvernig að henni var staðið, SR-mjöli, Áburðarverksmiðjunni, fyrir söluverðið og hvernig að málunum var staðið. Í öðrum tilvikum eins og varðandi ríkisbankana taldi ég og við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði að það væri heppilegt til að tryggja stöðugleika í íslensku fjármála- og efnahagslífi að hér væri ríkisbanki og við færðum fyrir þessu málefnaleg rök. Í þriðja lagi eru vissulega eignir sem við teljum ekki rétt að verði settar á markað og þá erum við að horfa til grunnþjónustu í samfélaginu, til raforkugeirans, vatnsveitna og annars af því tagi. Ég er alveg tilbúinn til að skiptast á skoðunum á mjög málefnalegan hátt við hæstv. ráðherra eða hvern sem er, og það er einmitt það sem hefur skort. Þegar óskað er eftir upplýstri málefnalegri afstöðu og skoðanaskiptum hefur staðið á því af hálfu þeirra sem hér stýra landinu, því miður.