Fjáröflun til vegagerðar, vörugjald af ökutækjum o.fl.

Þriðjudaginn 07. október 2003, kl. 17:35:18 (258)

2003-10-07 17:35:18# 130. lþ. 5.4 fundur 90. mál: #A fjáröflun til vegagerðar, vörugjald af ökutækjum o.fl.# (hækkun þungaskatts og vörugjalds) frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 130. lþ.

[17:35]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Virðulegi forseti. Það frv. sem forseti hefur hér kynnt og ég mæli nú fyrir er fylgifrumvarp með fjárlagafrv. ársins 2004 og lýtur að tekjuöflun á grundvelli laganna um fjáröflun til vegagerðar og laganna um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Með frv. þessu eru lagðar til hækkanir á gjaldskrá þungskatts annars vegar og vörugjalds á eldsneyti, hins svokallaða bensínsgjalds, í samræmi við forsendur í tekjuáætlun fjárlagafrumvarpsins. Lagt er til að fast árgjald og kílómetragjald þungaskattsins ásamt almennu og sérstöku vörgjaldi af bensíni hækki um 8%. Viðbótartekjur ríkissjóðs af þessari hækkun eru áætlaðar samtals um 1 milljarður kr. á ársgrundvelli, þar af 600 millj. kr. af bensíngjaldi og 400 millj. kr. af þungaskatti. Þar af má áætla að hækkun til markaðra tekjustofna Vegagerðarinnar nemi samtals 850 millj. kr., en þar er um að ræða hinn sérstaka hluta vörugjalds af bensíni og svo þungaskatt.

Nokkuð er orðið um liðið síðan þessir grundvallartekjustofnar ríkissjóðs hafa verið hækkaðir. Föstu gjaldi þungaskatts var síðast breytt með lögum nr. 151/1998 og kom sú breyting að fullu til framkvæmda 1. júlí 1999. Hið sama á við um kílómetragjald þungaskattsins sem var breytt með sömu lögum og kom sú breyting að fullu til framkvæmda 11. júní 1999. Hins vegar var kílómetragjaldi þungaskattsins síðast breytt með lögum árið 2000 þar sem um var að ræða 10% lækkun sem kom til framkvæmda 11. febrúar 2001.

Óhætt er að segja, án þess að ég sé að nefna margar viðmiðunartölur í því sambandi, að vísitala neysluverðs hefur hækkað mun meira á því tímabili sem um er að ræða hér frá 1999 heldur en lagt er til í frv. Vísitalan hefur hækkað um 20,3% frá 1. júlí 1999. Hún hefur hækkað um 12,4% frá 11. febrúar 2001. Menn geta valið sér þá tímapunkta sem þeir vilja í þessu sambandi. En hvað sem því líður er hækkunin sem nú er lögð til langt undir breytingu á vísitölu á þessu tímabili.

Haustið 1999 var gerð breyting á lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. og tekið upp fast gjald í krónum á bensín í stað hlutfallsgjalds sem áður var við lýði og var 97% af tollverði. Frá þessum tíma hefur hið fasta vörugjald á bensíni verið 10 kr. og 50 aurar á hvern lítra. Það var þó lækkað nokkuð eða um 1 kr. og 55 aura frá því í apríl á síðasta ári til loka júní sama árs. Í grunninn hefur því almenna bensíngjaldið verið óbreytt frá því haustið 1999. Sama er að segja um hið sérstaka vörugjald á bensíni sem nú er 28 kr. og 60 aurar.

Í frv. þessu er miðað við að hækkunin á bensíngjaldi komi strax til framkvæmda, þ.e. þegar frv. hefur verið afgreitt. En hvað þungaskatt varðar er gert ráð fyrir því að hækkunin komi til framkvæmda 1. janúar 2004, hvað varðar hið fasta árgjald, en 11. febrúar 2004, hvað varðar kílómetragjald í þungaskatti.

Þessar tillögur, virðulegi forseti, skýra sig auðvitað sjálfar. Þær eru hluti af almennri tekjuöflun ríkissjóðs og segja má að á vissan hátt hafi verið misráðið að láta líða svo langan tíma sem raun ber vitni milli hækkana á þessum gjöldum vegna þess að hér er um að ræða ákveðna grundvallartekjuöflun í ríkissjóð.

Áður fyrr og það ekki fyrir mjög löngu voru reglurnar um þetta þannig að fjmrh. hafði í lögum heimild til þess að hækka til að mynda vörugjald á bensíni um sem nam hækkun byggingarvísitölu þegar honum þótti það við eiga. En eftir því sem menn áttuðu sig betur á því að eðlilega ætti Alþingi að hafa síðasta orðið um allar skattahækkanir og endanlega við stjórnarskrárbreytinguna 1995 var fallið frá slíku valdframsali frá þinginu til handa fjmrh.

En það sem ég er að benda á með þessu, með því að rifja þetta upp, er að sjálfsögðu það að mönnum þótti það ekki tiltökumál að gjaldtaka af þessu tagi færðist upp eða gjöld af þessu tagi hækkuðu til samræmis við vísitölu. Nú hefur það sem sagt ekki gerst í fjögur ár að þessir gjaldstofnar hafi hækkað. Ég tel að við þurfum að gera það að þessu sinni þó að slík hækkun sé aldrei neinn sérstakur gleðiboðskapur. Ég tel hins vegar að athuga eigi í þingnefndinni hvort jafnframt eigi núna að lögbinda hækkun þessara gjalda um t.d. 2% eða 2,5% árlega út kjörtímabilið til þess að fyrir liggi næstu árin hvernig skattlagning ríkisins á bensín og þungskattur muni þróast.

Síðan er því við að bæta að uppi hafa verið áform, virðulegi forseti, um að breyta þungaskattskerfinu í sérstakt olíugjald. Frumvarp um það efni er tilbúið og ég geri ráð fyrir því að það verði flutt í þinginu á þessu hausti, vonandi fyrr en síðar. En þessi hækkunartillaga hér er óháð því máli vegna þess að það er hlutlaust gagnvart tekjum ríkissjóðs og getur farið saman við hvaða tekjuöflunarstig sem er og sem þingið ákveður hverju sinni. Það mál er því óháð og ótengt þessari breytingu sem hérna er lögð til. En ef það kemur til framkvæmda mun innheimta þungaskattsins auðvitað falla niður og það fyrirkomulag allt saman verða með mjög öðrum hætti.

Ég legg til, virðulegi forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.