Fjáröflun til vegagerðar, vörugjald af ökutækjum o.fl.

Þriðjudaginn 07. október 2003, kl. 18:39:32 (263)

2003-10-07 18:39:32# 130. lþ. 5.4 fundur 90. mál: #A fjáröflun til vegagerðar, vörugjald af ökutækjum o.fl.# (hækkun þungaskatts og vörugjalds) frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 130. lþ.

[18:39]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Lánið leikur við formann Samfylkingarinnar á þessum degi því ekki er ég fyrr kominn á lista ræðumanna en hæstv. samgrh. gengur í salinn en það var einmitt hæstv. samgrh. sem fór mikinn hér í þingsölum fyrr á þessu ári og mærði mjög niðurstöður skýrslu um flutningskostnað og sagði þá einmitt, herra forseti, --- af því að ég er að missa hann úr salnum --- að þær aðgerðir sem þar væru lagðar til yrðu þær sem ríkisstjórnin hygðist grípa til. Ég vil þess vegna spyrja hæstv. samgrh.: Hvað segir hann um þær aðgerðir sem hæstv. fjmrh. ber fyrir okkur? Er hæstv. samgrh. sammála því að það sé í anda skýrslunnar sem hann mærði sem mest í kosningabaráttunni og hér í þessum sölum að leggja á landsbyggðina, á landsmenn 400 millj. kr. þungaskatt til viðbótar?

Herra forseti. Ég sé að hæstv. samgrh. getur ekki svarað þessu því að hann hleypur, lætur fætur toga út úr þingsalnum. Herra forseti. Það finnst mér sýna greind hæstv. samgrh. vegna þess að enginn mannlegur máttur getur með nokkru móti fært rök fyrir því að sú tillaga sem hér liggur fyrir sé í anda þess sem hæstv. samgrh. sagði landsmönnum öllum, þingheimi og þó einkum og sér í lagi landsbyggðinni rétt fyrir kosningar.

Herra forseti. Það er eitt sem stingur í augu þegar maður horfir yfir þingheim. Hér hafa menn setið og rætt í þaula þetta frv. og ýmislegt annað sem tengist fjárlögum ríkisins, en núna þegar við erum farin að ræða auknar skattaálögur á landsbyggðina þá sést ekki einn einasti þingmaður Framsfl. Hvar eru þingmenn Framsfl. núna þegar hæstv. fjmrh. er að skella heilum milljarði á landsmenn sem kemur þyngra niður á landsbyggðinni en öðrum hlutum landsins? Ég lýsi eftir þingmönnum Framsfl. sem riðu eins og hetjur um héruð fyrir kosningar og sóru gagnvart landsmönnum að þeir mundu beita sér fyrir aðgerðum til þess að draga úr skattaþjökun landsbyggðarinnar.

Herra forseti. Hér fyrir framan mig situr ungur þingmaður, hv. þm. Birgir Ármannsson, sem flutti prýðilega jómfrúrræðu fyrr í dag. Hann er einn úr hópi ungra þingmanna Sjálfstfl. sem segja má að hafi rutt sér braut inn í fremstu víglínu íslenskra stjórnmála með því að draga einn gunnfána að húni. Það voru skattalækkanir. Hv. þm. Birgir Ármannsson lýsti því með sannri innlifaðri gleði nýhólpins engils í grein í Morgunblaðinu um daginn hvað það væri gaman að vera partur af þessu liði, hvað það væri gaman að fá að vera hluti af stjórnarflokkum sem leggja til 20 milljarða skattalækkanir.

Herra forseti. Ekki vil ég segja við þennan unga mann, sem ég er sannfærður um að á sér glæsta framtíð fyrir höndum í þessum sal: Ill var þín gangan fyrsta. En ég neita því ekki að eitthvað líkt því kom upp í huga mér, og ég velti því fyrir mér hvernig liggur á hæstv. fjmrh. að leggja það á þennan unga svein að sitja hér í heilan dag, hlusta á hæstv. fjmrh. leggja fram frumvarp sem í reynd er frumvarp um brot á kosningaloforðum Sjálfstfl. Engir ungir menn í stjórnmálum sem ég man eftir hafa með jafnmiklum glæsileik og þrótti fært rök að því að það bæði væri gott, heilladrjúgt og hægt að lækka skatta, eins og þeir þrímenningar, hv. þm. Birgir Ármannsson, Sigurður Kári Kristjánsson og Guðlaugur Þór Þórðarson. Mér nægir í sjálfu sér alveg að hér sé staddur einn fulltrúi þeirra og getur hann vafalítið talað fyrir alla ef hann vill. En ég verð hins vegar að segja að það hlýtur auðvitað að koma að því einhvern tíma á þessu hausti í umræðum að þessir skattalækkunarpostular Sjálfstfl. láti sjá sig hér í ræðustól og svari því til hvort þeir styðji hugmyndir um auknar álögur á landsmenn.

Herra forseti. Hvað er það sem hæstv. fjmrh. og reyndar Sjálfstfl. allur í þessum sölum hefur gumað af á þessu hausti? Jú, þeir ætla að lækka skatta um 20 milljarða. Og nú vil ég segja, herra forseti, að ég tel að ef þokkaleg samvinna ólíkra afla á vinnumarkaði tekst og á stjórnmálasviðinu þá sé mögulegt að sigla þannig út úr því efnhagsástandi sem er að skapast, það kann að vera hægt og meira að segja sé nokkuð aflögu til að hrinda í framkvæmd drjúgum hluta af þeim félagslegu úrbótum sem verkalýðshreyfingin hefur lagt fram. En það er samt sem áður þannig, herra forseti, að það er nokkuð umhendis fyrir þennan flokk að þegar hann byrjar feril sinn á þessu, þegar hann sem sagt byrjar að efna skattalækkunarloforðin þá gerir hann það með því að leggja fram frv. sem eykur álögur landsmanna um 1.000 millj. kr. Þetta finnst mér, herra forseti, ekki vera neitt annað en brot á þeim loforðum sem hæstv. fjmrh. og ráðherrar ríkisstjórnar lögðu fyrir þing og þjóð þegar Alþingi hóf sína göngu fyrir nokkrum dögum.

[18:45]

Herra forseti. Hér hafa menn líka farið nokkrum orðum um röksemdafærslu hæstv. fjmrh. Oft hefur hann skautað léttilega en sjaldan hefur hann verið á jafnhálum ís og í dag. Það er ekki bara að hann hafi byrjað að lækka skatta með því að hækka þá, heldur segist hann og færir þau rök ein fyrir tillögu sinni að honum hafi orðið í reynd á sú skyssa á síðustu árum að hann gleymdi að hækka þessa skatta.

Herra forseti. Ég velti því líka fyrir mér hvernig þær röksemdir hljómi í eyrum þess þingmanns sem flutti jómfrúrræðu sína hér í dag. Hvernig hljóma slíkar röksemdir í eyrum þingmanna Sjálfstfl. sem hafa talað manna gildast um að lækka þurfi skatta, að ástæðan fyrir þessari skattahækkun sé sú að gleymst hafi að hækka nægilega mikið á síðustu árum?

Herra forseti. Auðvitað þarf fjármagn til að koma vegakerfi og samgöngubótum landsmanna í sæmilegt horf. Ég segi þetta af því að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon er hér í salnum og tók þátt í umræðum áðan. Ég heyrði ekki betur en hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon væri í reynd að segja að hann mundi ekki skorast undan því að samþykkja a.m.k. part af þessari hækkun vegna þess að hann teldi að nauðsynlegt væri að afla fjár til þess að sinna samgöngubótum í landi. (Gripið fram í.) Ég bið hv. þm. afsökunar hafi ég misskilið orð hans en ég er viss um að hann er í færum til að leiðrétta það á eftir. En misminnir mig ef það er svo að einhvers staðar á bilinu 10--15 milljarðar sem teknir eru í skatta með einhverjum hætti af samgöngukerfi landsmanna, renna ekki til samgöngubóta? Ég spyr, herra forseti: Er þar ekki kominn ærinn stofn til þess að taka fé til samgöngubóta án þess að leggja þennan skatt hér á? En hæstv. samgrh. sagði áðan að þær 850 millj. kr. af þessum 1.000 sem hér eru lagðar sem nýjar klyfjar á herðar okkar landsmanna rynnu til bóta á samgöngukerfinu. Ég segi líka alveg skorinort við hæstv. fjmrh. að ég og mínir þingmenn erum svo sannarlega reiðubúnir til að taka á því að finna þá frekar einhverjar matarholur í ríkiskerfinu, sameinast um það að stemma stigu við þessari sífelldu bólgu útgjalda fremur en að afla tekna til hinna þörfu samgöngubóta sem hæstv. ráðherra væntanlega hefur í huga með þessum hætti.

Herra forseti. Hæstv. samgrh. sem áðan hlóp eins og fætur toguðu út úr húsi og vildi ekki taka þátt í umræðunni sem er þó umræða sem að öðrum þræði snýst um hann og fagsvið hans. Hann hélt magnaðar ræður í umræðum sem urðu hér fyrr á árinu um merka skýrslu sem hann hlutaðist til um að yrði gerð. Það var skýrsla þriggja ráðuneyta ef ég man rétt sem gerð var af nefnd valinkunnra sómamanna um hvað það væri sem ylli háum flutningskostnaði hér á landi. Og hvenær sem til umræðu kom í þessum sölum um þá áþján sem flutningskostnaður sannarlega er á landsbyggðinni þá var vísað til þessarar skýrslu. Sú skýrsla var lögð fram í febrúar á þessu ári. Hún var rædd í ríkisstjórn Íslands og það var ríkisstjórn Íslands sem tók ákvörðun um það að fela Byggðastofnun að gera tillögur um lækkun á kostnaði vegna flutninga innan lands í krafti þeirra tillagna sem var að finna í niðurstöðum skýrslunnar. --- Ef hv. þm. Pétur H. Blöndal mætti láta vera af því að trufla hæstv. fjmrh. þá mundi ég spyrja ráðherrann: Er þessi tillaga í samræmi við niðurstöður umfjöllunar Byggðastofnunar um þetta mál?

Herra forseti. Ég skil vel að hæstv. samgrh. hafi forðað sér úr þessari umræðu og ég skil vel að hv. þm. Framsfl. láti ekki sjá sig í húsinu þegar við ræðum þessar auknu álögur á landsmenn. En við getum ekki skilið við umræðuna öðruvísi en að rifja upp að við höfum mörgum stundum rætt um þá þætti sem kunna að valda því að við stöndum andspænis ákaflega illvígri byggðaröskun. Við sjáum að æ fleiri kjósa að flytja af landsbyggðinni til þéttbýlisins. En það vill svo til að hinn fjarstaddi hæstv. samgrh. og aðrir ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa líka lagt gjörva hönd að því verki að brjóta til mergjar orsakir slíkrar þróunar.

Hér var á sínum tíma lögð fram gagnmerk skýrsla unnin af Háskólanum á Akureyri, af fræðimönnum sem þar vinna, þar sem reynt var að grafast fyrir um þær rætur. Þar kom í ljós að af tíu þáttum sem menn gátu greint sem hvöttu menn til flutnings af landsbyggðinni var hátt vöruverð á landsbyggðinni þáttur númer tvö. Og hvað er það sem veldur því að vöruverðið er að jafnaði töluvert hærra á landsbyggðinni en á þéttbýlissvæðinu? Jú, því var svarað í skýrslu hæstv. samgrh. og hinna tveggja ráðherranna sem ég nefndi hérna áðan. Hár flutningskostnaður var ein af meginástæðunum fyrir háu vöruverði á landsbyggðinni og einnig í þeirri sömu skýrslu, reyndar í niðurstöðuorðum skýrslunnar, var sagt berum orðum að það sem ætti einna mestan þátt í háum flutningskostnaði væri þungaskatturinn. Enginn hefur skeleggar en hv. þm. Kristján L. Möller sýnt fram á hvernig þungaskatturinn hefur aukist á síðustu árum í þeim mæli að það hefur haft sjáanleg áhrif á hækkun flutningskostnaðar. En núna ofan á þetta ætlar hæstv. ríkisstjórn í gustukaskyni við landsbyggðina og væntanlega til að reyna að snúa þessari öfugþróun við að koma aftur eins og sleggja í hausinn á landsbyggðinni með því að kasta á herðar hennar 400 millj. kr. álögum.

Herra forseti. Það er ákaflega erfitt að skilja þetta. Þessir herramenn koma og segja með glit í augunum að þeir vilji allt gera til að snúa við hinni erfiðu þróun sem við sjáum í byggðamálum. En næsta dag koma þeir og gera fólki erfiðara um vik með að búa á áfram í hinni sömu landsbyggð með því að hækka skatta sem koma verst við hana. Herra forseti, ég á ákaflega erfitt með að skilja þetta. En mér heyrðist reyndar á hæstv. fjmrh. að þetta frv. væri í reynd einhvers konar stillingaratriði. Það þyrfti að stemma af tölur í fjárlagafrv. Og þá var rétt að herða þessa skrúfu aðeins meira en aðrar skrúfur vegna þess að það dugði til að ná upp fyrir eitthvert borð og skítt með það þó að það þýði að þeir sem búa á landsbyggðinni komi töluvert verr út úr þessu en aðrir.

Herra forseti. Ég vil aðeins segja að ég er þeirrar skoðunar að hægt sé á næstu árum með samstilltu átaki að beita agaðri hagstjórn í þeim mæli að draumar hv. ungra þingmanna sjálfstæðismanna og hóflegar tillögur Samfylkingarinnar um skattalækkanir nái fram að ganga. Ég tel að það sé hægt. En ég verð hins vegar að segja, herra forseti, að mér finnst sem hæstv. fjmrh. hafi ekki trú á sinni eigin hagstjórn ef hann telur að ekki sé hægt að ná í land nema byrja á því að hækka álögur á landsmenn. Mér finnst að það boði ekki og birti ekki sjálfstraust af hálfu hæstv. fjmrh. Ég get svo sem sagt það að ef ég horfi til síðustu ára, þá skil ég það vel.

En eigi að síður, herra forseti, er þetta frv. sem a.m.k. sá hluti stjórnarandstöðunnar sem heitir Samfylkingin mun alfarið greiða atkvæði gegn og ég vænti þess að hv. þm. Birgir Ármannsson sem flutti jómfrúrræðu sína í dag geri það líka og standi þar með við fyrri yfirlýsingar sínar og sína góðu grein í Morgunblaðinu um daginn og hið sama geri hv. þm. Sjálfstfl. sem skolaði hingað inn á fjörur þingsins í krafti þessara sömu loforða. Og svo ég haldi áfram að telja upp, þá vona ég líka að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson standi við yfirlýsingar sínar um átak í byggðamálum, um lækkun þungaskatts með því að greiða líka atkvæði gegn þessu. (Gripið fram í.) Það kann að vera en, herra forseti, við í Samfylkingunni tókum þátt í því í gær í umræðu um Impregilo að reisa hæstv. félmrh. upp á lappirnar og við erum reiðubúnir til að hysja fleiri upp.