Fjáröflun til vegagerðar, vörugjald af ökutækjum o.fl.

Þriðjudaginn 07. október 2003, kl. 19:13:12 (266)

2003-10-07 19:13:12# 130. lþ. 5.4 fundur 90. mál: #A fjáröflun til vegagerðar, vörugjald af ökutækjum o.fl.# (hækkun þungaskatts og vörugjalds) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 130. lþ.

[19:13]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja það eftir að hafa hlýtt á ræðu hæstv. fjmrh. að hún færði engin ný rök fyrir þeirri skattahækkun sem hér er ætlunin að ráðast í. Ég átti eiginlega von á því að eitthvað kæmi þar fram sem skýrði út þá kúvendingu sem orðið hefur á málflutningi sjálfstæðismanna frá kosningum og til dagsins í dag. Við eigum kannski eftir að tala frekar um þetta.

Mig langar að spyrja hæstv. fjmrh. hvort þær hugmyndir sem birtast í þessu frv. og einnig í fjárlagafrv., þar sem segja má að tekjutap einstaklinga og nýjar álögur slagi hátt upp í 4 milljarða, og miðað við þann hagvöxt sem spáð er á næstu árum sé veruleikinn sá að með þessum aðgerðum tryggi menn í reynd að hugsanlegar skattalækkanir sem koma til framkvæmda á síðari hluta ársins geri ekkert annað en núlla þessar skattahækkanir út. Er það þannig sem menn ætla að mæta þeirri stöðu sem uppi er og þeim hagvaxtarspám sem nú liggja fyrir, að áður en kemur að skattalækkunum verði búið að hækka álögur og annað á almenning í þessu landi sem jafngildir þessum fjármunum? Mér finnst mikilvægt að svar við þessari spurningu liggi fyrir því að mér sýnist svona í fljótu bragði að þær álögur sem birtast í þessu frv. og fjárlagafrv. jafnist nokkurn veginn út eftir fjögur ár þegar hugsanlegar skattalækkanir koma til framkvæmda.