Fjáröflun til vegagerðar, vörugjald af ökutækjum o.fl.

Þriðjudaginn 07. október 2003, kl. 19:15:45 (268)

2003-10-07 19:15:45# 130. lþ. 5.4 fundur 90. mál: #A fjáröflun til vegagerðar, vörugjald af ökutækjum o.fl.# (hækkun þungaskatts og vörugjalds) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 130. lþ.

[19:15]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Við sáum á eftir hæstv. samgrh. flýja úr salnum og sjáum á eftir hæstv. fjmrh. flýja úr stólnum.

Virðulegi forseti. Ég skal fara aðeins yfir þennan útreikning og þessar tölur. Þær eru þannig fengnar að lækkun á viðbótarlífeyrissparnaði er upp á 600 millj. kr., sjúkratryggingar lækka um 740 millj. kr., komugjöld á heilsugæslustöðvar hækka um 50 millj. kr., Atvinnuleysistryggingasjóður lækkar um 170 millj. kr. Hér erum við síðan að tala um milljarð. Eru þá ekki reiknaðar inn í hugsanlegar barnabætur og skattleysismörk sem ekki fylgja launaþróun. Það er því ekki djúpt í árinni tekið að þetta sé nálægt 4 milljörðum.

Ég skil vel að hæstv. fjmrh. hafi hlaupið úr stólnum. Ég skil það ósköp vel. En þetta er bara sá veruleiki sem hæstv. ráðherra stendur frammi fyrir. Það er voðalega erfitt fyrir Sjálfstfl. að koma í upphafi þings með hugmyndir af þessum toga, nýkominn úr kosningabaráttu þar sem gefin voru feit og stór loforð um skattalækkanir. Í því sambandi má minnast orða sumra þingmanna sem héldu því fram að orð forsrh., sem lofaði þessum lækkunum, hefðu staðist allar götur síðan 1982, þó að ekki hafi verið tekið fram hvað gerðist fyrir þann tíma.

Virðulegi forseti. Hér eru þessar tölur. Þetta liggur fyrir. Þeir sem lesa fjárlagafrv. geta fengið þessa sömu niðurstöðu. Því endurtek ég spurninguna: Er hugmyndin sú að hækka skatta um hið sama og lofað hefur verið í skattalækkun? Ég vil fá önnur svör en flótta úr ræðustólnum.