Fjáröflun til vegagerðar, vörugjald af ökutækjum o.fl.

Þriðjudaginn 07. október 2003, kl. 19:23:47 (272)

2003-10-07 19:23:47# 130. lþ. 5.4 fundur 90. mál: #A fjáröflun til vegagerðar, vörugjald af ökutækjum o.fl.# (hækkun þungaskatts og vörugjalds) frv., KLM
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 130. lþ.

[19:23]

Kristján L. Möller:

Virðulegur forseti. Það er rétt sem fram kom hjá hæstv. fjmrh. áðan að efnisatriði þessa frv. eru mjög einföld. Það er hárrétt og um það er ekki deilt. Hins vegar getum við deilt um afleiðingarnar af þessum einföldu efnisatriðum, þ.e. að boða milljarðs kr. skattahækkun í formi bensíngjalds og þungaskatts. Það er full þörf á að ræða þau mál og auðvitað væri full ástæða til að óska eftir því við virðulegan forseta að bæði ráðherra byggðamála og samgrh. væru viðstaddir þessa umræðu. Það er mjög mikilvægt, með tilliti til þeirrar skýrslu sem hér hefur verið rætt um og þeirra stóru orða sem menn höfðu uppi í kosningabaráttunni um að lækka skatta, lækka flutningskostnað og gera allt sem í ríkisstjórnarinnar valdi stæði til þess. Svo kemur fram frv. sem gengur í þveröfuga átt, þ.e. hækkar kostnaðinn.

Virðulegi forseti. Væri hægt að athuga hvort þessir umræddu ráðherrar gætu heiðrað okkur með nærveru sinni við umræðuna vegna þess að auðvitað snýr þetta annars vegar að samgöngumálum og hins vegar að byggðamálum? Þessir tveir hæstv. ráðherrar voru í þeim hópi ráðherra sem skipaði þá nefnd sem vann umrædda skýrslu.

(Forseti (SP): Ef þingmaður er að spyrja hæstv. forseta og ætlast til þess að fá svör núna strax þá er það auðvitað svo að þetta er stjórnarfrv. þar sem flutningsmaður er hæstv. fjmrh. Hann hefur verið hér í allan dag við þessa umræðu og svarar hér spurningum hv. þingmanna. Ég held að það hljóti að nægja.)

Ég get tekið undir það, virðulegi forseti, að hæstv. fjmrh. hefur setið við alla þessa umræðu og á þakkir skildar fyrir það. Hæstv. fjmrh. gerir það kannski ráðherranna best að fylgjast með umræðum um þau mál sem hann flytur.

Það verður að hafa það ef ekki er hægt að verða við því að þeir tveir ráðherrar sem ég nefndi verði kallaðir til umræðunnar. Hins vegar er óþarfi að nefna það að Framsfl. hefur ekki látið sjá sig hér, eins og komið hefur fram. Það er daglegur viðburður þannig að maður gerir eiginlega ekki kröfu til þess. Eins og maður segir: Þegar A-deildin er hér stödd þá skiptir ekki máli þó að B-deild Sjálfstfl. sé fjarri.

Hæstv. ráðherra sagði að það ætti að hverfa frá þessum ósanngjarna þungaskatti --- ég man nú ekki hvort hann notaði orðið ,,ósanngjarn`` eða hvað hann nefndi þungaskattinn --- enda væri það úrelt kerfi. Það er alveg hárrétt. En það er engu að síður alvarlegt mál og jafnslæmt ef úrelt kerfi þungaskatts sem heldur uppi og tekur þátt í að byggja upp hinn háa flutningskostnað á landsbyggðinni verður sett inn í olíugjald. Þá skiptir það engu máli. Þess vegna má taka undir það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði áðan um að auðvitað væri æskilegt að frv. um olíugjald, sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að leggja fyrir þingið, komi fram sem fyrst þannig að þetta megi skoða í samhengi.

Hvaða áhrif hefur þessi hækkun? spyr ráðherra. Hún hefur ásamt olíugjaldinu, ef það verður lagt fram í svipuðum dúr og gert hefur verið áður og hefur verið boðað, í för með sér kringum 10% hækkun á flutningsgjöldum að lágmarki.

Hvað erum við að tala um í dag? Hvernig hafa þessi mál þróast? Árið 1996, þegar olíulítrinn kostaði 27,90 kr., launavísitalan var 146 stig og vísitala neysluverðs var að mig minnir um 100, kostaði 10 þús. kr. að flytja eitt tonn af vöru til Akureyrar. Í dag, í upphafi þessa árs, þegar olíulítrinn er 51 kr. og þungaskatturinn hefur hækkað, það er óumdeilanlegt, þá kostar það 20.700 kr. að flytja eitt tonn af vöru frá Akureyri til Reykjavíkur.

Hæstv. ráðherra fjallaði um að mörg fyrirtæki á landsbyggðinni væru að spjara sig vel þó að þau væru í harðri samkeppni við fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. um að flytja hráefnisvöru frá uppskipunarhöfninni í Reykjavík, t.d. til Akureyrar, vinna úr því þar og flytja það svo suður á stórmarkaðinn. Það er vitanlega íþyngjandi skattheimta á þessi fyrirtæki.

Má ég nefna, hæstv. fjmrh., eitt dæmi um hvernig þetta er? Tvö kjötiðnaðarfyrirtæki á Akureyri, sem skara fram úr og selja að sjálfsögðu mikið af vöru sinni hér á höfuðborgarsvæðinu, greiða í kringum 100 millj. kr. á ári í flutningskostnað til að koma vöru sinni á höfuðborgarsvæðið. Ef það er rétt sem margir flutningsaðilar segja, að í ríkissjóðskassann renni í kringum 50 milljónir af þessum 100 þá er það auðvitað mjög alvarlegt, hæstv. fjmrh. Þess vegna finnst mér með ólíkindum að ríkisstjórnin ætli að sækja þennan milljarð í bensíngjaldið og þungaskatt nú þegar verið er að vinna eftir þessari skýrslu, eins og hér hefur komið fram. Við erum einmitt að bíða eftir tillögum. Ekki skal standa á mér að styðja þær tillögur ef eitthvert vit verður í þeim til að koma til móts við þetta. Hækkun flutningsgjalda íþyngir mjög öllum atvinnurekstri á landsbyggðinni og flutningsgjöld halda uppi hinu háa vöruverði þó að það sé hárrétt að þakka megi Bónus og öðrum stórkeðjum fyrir að halda uppi eigin verðjöfnun á nokkrum stöðum á landinu. Það er auðvitað hárrétt.

Þetta er bara þannig mál, virðulegi forseti, að það hefur verið talað um það. Ýmislegt var gefið í skyn í kosningabaráttunni um að gripið yrði til aðgerða í þessum málum. Á ágætri ráðstefnu í Háskólanum á Akureyri var fjallað um að þetta ætti ekki að eiga við um fiskflutninga, ef menn færu í að jafna flutningskostnað. Það átti ekki að ná til fiskflutninga. Það er auðvitað mjög alvarlegt mál vegna þess að við vitum að fjölmörg fyrirtæki úti á landsbyggðinni kaupa fisk á markaði og flytja langar leiðir til að skapa vinnu heima fyrir og flytja svo aftur hingað suður, jafnvel með flugi eða til útflutnings. Það væri mjög alvarlegt mál. Það er alvarlegt mál þegar það kostar jafnmikið að flytja einn gám af fiski frá Þórshöfn til Húsavíkur til útskipunar eins og að flytja sambærilegan gám frá Rotterdam til Reykjavíkur. Það eru staðreyndir sem ekki hefur verið neitað. Það mál geta menn séð svart á hvítu.

Menn sjá það ef þeir skoða breytinguna sem gerð var 1998 og samanburð á gjaldbyrði þungaskatts frá 1998--2000 að hækkunin er í kringum 40% á flutningsfyrirtæki sem ekur 120 þús. km á ári, flutningabíl með tengivagn. Þetta er 40% hækkun frá árinu 1998 og það var ekkert gert í að bregðast við þessari breytingu, við þessum úrskurði Samkeppnisstofnunar. Þetta var látið fara þráðbeint út í verðlagið nákvæmlega eins og þungaskattshækkunin núna og væntanleg hækkun á olíugjöldum eins og menn gera ráð fyrir. Þessi fyrirtæki eru ekki fær um að taka allan þennan kostnað á sig. Þetta fer þráðbeint út í verðlagið, hækkar flutningskostnað og vöruverð og skekkir samkeppnisaðstöðu fyrirtækja á landsbyggðinni gagnvart höfuðborgarsvæðinu.

Það kemur fram á mörgum stöðum í þessari annars ágætu skýrslu sem tók 15 mánuði að búa til og sýndi því miður ekkert nýtt frá því þinggagni sem ég lagði fram ásamt ýmsum öðrum þingmönnum Samfylkingarinnar á síðasta þingi þar sem sýnt var fram á ýmislegt af því sem skýrslan leiðir í ljós. Í því þingskjali er m.a. fjallað um hvernig virðisaukaskattur er margfalt hærri á íbúum landsbyggðarinnar en íbúum höfuðborgarsvæðisins fyrir að borða nákvæmlega sömu vörutegund.

Er það þannig, virðulegi forseti, að núverandi hæstv. ríkisstjórn sé ánægð með að haga sinni skattheimtu þannig að ákveðnir landsmenn borgi margfalt meira fyrir matvöru en aðrir? Er það þannig að atvinnurekstur á landsbyggðinni þurfi að líða fyrir, eins og ég nefndi með kjötiðnaðarfyrirtæki á Akureyri, að vera staðsett þar en ekki hér á höfuðborgarsvæðinu?