Fjáröflun til vegagerðar, vörugjald af ökutækjum o.fl.

Þriðjudaginn 07. október 2003, kl. 19:38:12 (274)

2003-10-07 19:38:12# 130. lþ. 5.4 fundur 90. mál: #A fjáröflun til vegagerðar, vörugjald af ökutækjum o.fl.# (hækkun þungaskatts og vörugjalds) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 130. lþ.

[19:38]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Frú forseti. Menn þurfa ekki að vera lengi á Alþingi til þess að tileinka sér ýmsa ósiði í málflutningi sem alþekktir eru á Alþingi, með öðrum orðum þá að snúa út úr fyrir fólki. Ég hef ekki sagt að mér hafi orðið á yfirsjón. (Gripið fram í.) slys, skyssa eða trassaskapur. Það hafa aðrir tekið sér þau orð í munn. (Gripið fram í: Þú sagðir það.) Ég vitnaði í hv. þm. Steingrím J. Sigfússon sem sagði það. (Gripið fram í: Þú sagðir það.) Ég vitnaði í hv. þm. sem sagði þetta.

Hitt er annað mál að það er sérstök ákvörðun hverju sinni hvort skattur sem þessi er hækkaður. Í fyrra var ekki ákveðið að gera tillögu um að hækka hann. Það var hins vegar ákveðið að hækka áfengisgjaldið og tóbaksgjaldið. Menn voru ekkert feimnir við það í aðdraganda kosninga ef þingmaðurinn heldur að það ráði för hér. Hins vegar er ég að segja núna að eftir á að hyggja hefði sennilega verið heppilegra að hækka þetta lítillega á ári hverju alveg eins og ég sagði í framsöguræðu minni að væri sennilega hyggilegt að gera ráð fyrir varðandi næstu ár. Það er mergurinn málsins í þessu og það er auðvitað ekki hægt að reikna út eða leggja það fram sem eitthvert sérstakt tjón eða tap að þessi skattur skuli ekki hafa verið hækkaður á umliðnum árum. Það var bara ekki gert en menn auðvitað vissu nákvæmlega hvað þeir voru að gera. Það var ákveðið að gera það ekki. Nú er hins vegar ákveðið að leggja til að hann hækki um helming þess sem vísitalan hefur hækkað frá 1999.