Fjáröflun til vegagerðar, vörugjald af ökutækjum o.fl.

Þriðjudaginn 07. október 2003, kl. 19:40:07 (275)

2003-10-07 19:40:07# 130. lþ. 5.4 fundur 90. mál: #A fjáröflun til vegagerðar, vörugjald af ökutækjum o.fl.# (hækkun þungaskatts og vörugjalds) frv., LB
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 130. lþ.

[19:40]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Það verður að segjast alveg eins og er að það hefur verið hálfátakanlegt að hlýða á hæstv. fjmrh. reyna að rökstyðja það frv. sem hann hefur borið inn á hið háa Alþingi. Röksemdir hans hafa á engan hátt staðið undir því sem lofað var fyrir kosningar og á engan hátt í rauninni staðið undir því sem menn hafa gert sig út fyrir að vera og erindi þeirra í pólitík. Þar af leiðandi hefur hæstv. ráðherra átt í miklum erfiðleikum og jafnvel haft þau orð hér uppi að ástæðan fyrir því --- og þegar menn setja það fram að ástæðan fyrir því að þetta hafi ekki verið hækkað fyrr hafi verið gleymska og trassaskapur eins og hæstv. ráðherra orðaði það sjálfur, þá hljóta að vakna spurningar um hvaða erindi menn eigi í pólitík vegna þess að sá flokkur sem hæstv. ráðherra tilheyrir hefur gefið sig út fyrir allt annað. Hann hefur aldrei gefið sig út fyrir að það hafi verið sérstakt vandamál í þeim flokki ef skattar hafa ekki verið hækkaðir og það held ég að hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson geti staðfest sem eitt sinn var hermaður í þeim flokki. En þetta er afar sérstakur málflutningur og þá ekki síður að hæstv. ráðherra skuli lýsa því yfir eftir þetta allt saman að líklega væri þá skynsamlegra að hækka þetta jafnar og minna í einu. Ef maður dregur þetta saman, þá er það greinilega sérstakt markmið í sjálfu sér að hækka þessa skatta. Það er í raun alveg ný nálgun á pólitíska sýn og pólitísk markmið Sjálfstfl.

Af því að ég sé að hv. þm. Pétur H. Blöndal situr í salnum, þá er þetta eitthvað sem hv. þm. hefur aldrei gefið sig út fyrir að vera og það er afar sérstætt ef hv. þingmenn sem hér voru nefndir og að skolað hefði inn á þing undir tilteknum gunnfána, þar á meðal kannski hv. þm. Pétur Blöndal, sem ég vil bæta við, sem reynslu hefur í þeim hópi, eiga sitt pólitíska líf undir því að hæstv. fjmrh. gleymi öllum sköpuðum hlutum á komandi árum, ellegar munu þeir standa í því að þurfa að verja þetta að fjórum árum liðnum. Þetta er afar sérstæð nálgun og afar sérstæð röksemdafærsla.

Ég nefndi það í fyrri ræðu minni að á þeim tíma sem hér hefur einkanlega verið nefndur til sögunnar, þ.e. tímabilið frá árinu 1999 til ársins 2003, hafi tekjur ríkisins hækkað sem nemur um það bil 52--53%, ég held að það sé nokkuð nærri lagi. Hæstv. ráðherra gæti kannski fært aukastafina til en það munar ekki miklu. Og miðað við þá nálgun sem hæstv. ráðherra er með hér uppi um að allt þurfi að fylgja neysluvísitölunni, þá hefði maður haldið að tekjur ríkissjóðs hefðu átt að fylgja henni einnig. En það er ekki þannig og þá geri ég ráð fyrir að ef hagvöxturinn væri meiri hefðu menn komið með skattalækkunarhugmyndir inn til þess að viðhalda vísitölu neysluverðs og viðhalda öllum fjárlögum og rekstri ríkissjóðs og tengja það við vísitölu neysluverðs. Það hefði skipt miklu máli.

Þó að menn geti deilt um, virðulegi forseti, hversu þungt þungaskatturinn kemur niður á landsbyggðarfólk, hversu stór þáttur þungaskatturinn er í verðmyndun á vörum á landsbyggðinni þá held ég að enginn hafi mælt því í mót að það frv. sem við ræðum hér kemur þyngst niður á landsbyggðinni. Jafnvel þó að menn geti deilt um einhverjar tilteknar stærðir að öðru leyti er það alveg klárt að þetta kemur þyngst niður á landsbyggðinni af öllu. Þess vegna finnst mér afar sérstæður sá málflutningur sem hafður var uppi í málinu hér fyrr og gengur út á það að nú sé verið að leita leiða til þess að búa til styrki til að koma til móts við þær hækkanir sem hér er verið að leggja til að á verði lagðar. Hér er því verið að leggja til nýjar álögur á almenning en á móti er verið að vinna að hugmyndum til að koma til móts við þær. Ég vil einnig segja, þó að það megi kannski segja um stjórnarandstöðuna að hún hefði átt að koma með þá ósk fram fyrr, að það hefði verið mikilvægt að hæstv. byggðamálaráðherra og hæstv. samgrh. hefðu verið viðstaddir þessa umræðu því að hæstv. fjmrh. er kannski ekki sá hinn sami sérfræðingur á sviðum þeirra hæstv. ráðherra og mjög mikilvægt hefði verið að fá sjónarmið þeirra inn í þetta, hvort þau sjónarmið um að fara í álögur sem koma verst niður á landsbyggðinni hafi nákvæmlega verið það sem þjóðina vantaði, hvort það hafi verið það sem landsbyggðina vantaði.

[19:45]

Ég vil nefna það sérstaklega, af því að hæstv. ráðherra talaði um að ástæða þess að hér hefði ekki verið ráðist í hækkanir fyrr væri gleymska og trassaskapur, þá hlýtur að vakna sú spurning hvort nú fari sú vinna fram í ráðuneytinu að verið sé að fínkemba alla tekjustofna ríkissjóðs sem ekki hafa hækkað í samræmi við vísitölu neysluverðs frá árinu 1999. Ef marka má þau orð sem hæstv. ráðherra hafði um aðgerðir sínar og ríkisstjórnarinnar hlýtur hæstv. ráðherra að vera að láta fínkemba alla tekjustofna ríkissjóðs og fara yfir það hvort þeir hafi hækkað í samræmi við vísitölu neysluverðs eða ekki. Hafi þeir ekki hækkað hljótum við væntanlega að sjá einhver frumvörp til að rétta þann kúrs.

Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að oft hefur maður hlýtt á átakanlegan málflutning þegar menn hafa verið að koma fram með frv. hér á hinu háa Alþingi, en líkast til tekur þessi málflutningur hæstv. fjmrh. flestu fram sem ég hef áður hlýtt á og er þá langt til jafnað. Það er ekki bara það að hann hafi ekki fundið sínu máli ein einustu rök heldur hafa allar þær fáu röksemdafærslur, sem þó hafa komið fram, verið á skjön við þær pólitísku áherslur sem Sjálfstfl. hefur gefið sig út fyrir í áratugi. Þetta er afar eftirtektarvert.

Þegar fjárlögin fyrir árið 2004 eru skoðuð, þær nýju álögur sem lagðar eru á almenning, og dregið fram að hér sé samanlagt um u.þ.b. 4 milljarða að ræða, rennur vitaskuld upp fyrir mönnum ljós, að ætlunin sé að hækka skatta og álögur á almenning um nokkurn veginn sömu fjárhæð og menn hafa áður lofað um skattalækkun. Það er einfaldlega sá veruleiki sem hulunni hefur verið svipt af í umræðunni í kvöld. Þetta hljóta að teljast nokkur pólitísk tíðindi. Enda hljóp hæstv. fjmrh. úr stólnum þegar hann var spurður út í þetta, taldi menn vera að snúa út úr. Það er kannski eitt af því sem hæstv. ráðherra hefur gert, sakað nýja þingmenn um það að vera að læra ósiði hér í þingsölum en kannski gengið lengst í þeim sjálfur.

Ég vil segja það fyrir mína parta, virðulegi forseti, að mér hefur þótt þessi umræða afar merkileg og afar sérstæð og varpa nýju ljósi á hæstv. fjmrh. og kannski þann tilgang sem hann hefur með innkomu sinni í íslensk stjórnmál.

Ég held, virðulegi forseti, að flest það sem ástæða er til að nefna um þetta frv. hafi komið fram, þó að enginn hafi nefnt það, í tengslum við þessi skattalækkunarmál, að skatthlutfallið af vergri landsframleiðslu hafi hækkað frá fjárlagafrv. sem lagt var fram árið 2003. Það var 29% en er 29,3% í fjárlagafrv. sem lagt er fram nú, þannig að það er enn eitt dæmið um skattahækkanir. Það er alveg sama hvar borið er niður, það ber allt að sama brunni. Og það finnst mér afar athyglisvert, virðulegi forseti, í ljósi þess að kjörtímabilið er rétt að byrja.