Fjáröflun til vegagerðar, vörugjald af ökutækjum o.fl.

Þriðjudaginn 07. október 2003, kl. 19:57:10 (280)

2003-10-07 19:57:10# 130. lþ. 5.4 fundur 90. mál: #A fjáröflun til vegagerðar, vörugjald af ökutækjum o.fl.# (hækkun þungaskatts og vörugjalds) frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 130. lþ.

[19:57]

Össur Skarphéðinsson:

Virðulegi forseti. Það hefur komið í ljós að þeir hv. þingmenn sem hafa aðeins komið til umræðu og tilheyra Sjálfstfl. og voru áður sérstakir skattalækkunarpostular eiga sér leiðtoga. Það hefur komið í ljós að einn af þeim hv. þm. úr röðum Sjálfstfl., sem ég hef nú jafnan litið svo á að vildi beita sér fyrir skattalækkunum, virðist nú eins og Sál á leiðinni til Damaskus, hafa verið lostinn eldingu og orðið hálfhelgur maður upp frá því, en er ekki lengur í fylkingarbrjósti þeirra sem vilja lækka skatta, heldur þeirra sem vilja hækka skatta. Ég verð nú að segja að á dauða mínum átti ég fremur von en að hv. þm. Pétur H. Blöndal kæmi hingað til þess að verja auknar álögur á landsmenn. Hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur greinilega með einhverjum hætti umpólast, eins og gerist nú í jarðsögunni stundum, það verða pólskipti. Og þessi pólskipti hv. þm. hafa fylgt þeirri upphefð hans og vegsemd að verða formaður efh.- og viðskn. Þar með er hann orðinn ákveðinn leiðtogi í umræðum í þinginu fyrir þá fylkingu sem tilheyrir Sjálfstfl. Nú skilur maður af hverju þessir skattalækkunarmenn, sem maður taldi einu sinni svo frelsaða í hópi hinna ungu þingmanna Sjálfstfl., hafa líka umpólast, því það er eins og þessi segulskipti séu smitandi og það hefur maður aldrei heyrt í jarðfræði.

Nú skil ég þetta, virðulegi forseti. (Gripið fram í.) Ja, hv. þm. Pétur H. Blöndal segir að ég skilji þetta ekki. Hann verður þá að koma hingað upp og reyna að útskýra þetta betur fyrir mér. En staðreyndin er þessi: Hv. þm. Pétur H. Blöndal kom hér og varði það að hæstv. fjmrh., fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, er að leggja til að landsmenn greiði þúsund milljónum meira í álögur en áður. Það telur hann ekki skattahækkun heldur aðlögun að verðlagi. Auðvitað má segja sem svo að hv. þm. taki sína stefnu frá hæstv. fjmrh. Við vitum vel, þó að hæstv. fjmrh. berji sér á brjóst og tali um skattalækkanir, hvernig verkin hafa talað. Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá, segir í hinni helgu bók, og af ávöxtunum þekkjum við hæstv. fjmrh.

Við vitum að hæstv. fjmrh. var neyddur til þess undir lok síðasta þings að viðurkenna í svari við skriflegri fyrirspurn frá Rannveigu Guðmundsdóttur að þrátt fyrir allt talið um skattalækkanir, hefðu tekjuskattar landsmanna hækkað umtalsvert. 95% allra hjóna og 75% einstaklinga greiddu í lok síðasta kjörtímabils hærra hlutfall af tekjum sínum í tekjuskatt en við upphaf kjörtímabilsins. Allt stendur nú á höfðinu miðað við það sem áður var, hv. þm. Pétur H. Blöndal stendur að vísu enn í fæturna og snýr rétt, en það er eins og einhver allt annar maður tali í ræðustól, miðað við þann hv. þm. Pétur H. Blöndal sem við kynntumst á árum fyrri, þá talaði hann fyrir skattalækkunum.

[20:00]

Virðulegi forseti. Mér þótti magnað að heyra hæstv. fjmrh. koma hingað eins og aldinn siðameistari og ætla að kenna nýjum þingmanni, hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni, mannasiði. Hæstv. fjmrh., í þessari umræðu og hafandi haldið þá ræðu sem hann var þá nýbúinn að ljúka, kemur hér upp og segir við þennan nýja þingmann sem hér hefur staðið sig með mikilli prýði, að menn séu giska snöggir að læra hér ósiðina og snúa út úr fyrir fólki. Hæstv. fjmrh. var þá nýbúinn að leggja mér orð í munn, halda því fram að ég hefði sagt að þungaskatturinn ætti stærsta þátt í flutningskostnaðinum og talaði eins og þungaskattur skipti engu sérstöku máli varðandi vöruverð og flutningskostnað á landsbyggðinni. Nú sagði ég að það sem ætti næstmestan þátt í byggðaröskun væri hátt vöruverð á landsbyggðinni og það sem ætti töluverðan þátt í háu vöruverði á landsbyggðinni væri flutningskostnaðurinn og það sem skipti umtalsverðu máli um mikinn flutningskostnað væri þungaskatturinn.

En hæstv. fjmrh. kemur hingað og hefur í sér uppburði að nota það sem sérstaka lexíu gagnvart hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni að í þessari skýrslu sem hér hefur verið vísað til í dag væri einmitt sýnt fram á að þungaskatturinn skipti ekki eins miklu máli og menn hefðu haldið fram.

Mig langar þess vegna, virðulegi forseti, að lesa fyrir hæstv. fjmrh. úr skýrslu nefndar hans eigin ríkisstjórnar, þar sem segir á bls. 10, með leyfi forseta:

,,Þungaskatturinn á landflutninga myndar um fjórðung tekjustofns vegagerðar og 13--15% af heildarskatttekjum af vegakerfinu.``

Halda menn svo að þetta skipti ekki máli? Halda menn að þetta dragi úr vöruverði og flutningskostnaði á landsbyggðinni? Að sjálfsögðu ekki, virðulegi forseti. Það þýðir ekkert fyrir hæstv. fjmrh. að koma hingað og halda því fram að hvítt sé svart og svart sé hvítt. En hann, með dyggri aðstoð hv. formanns efh.- og viðskn., er í reynd að halda því fram að 1.000 millj. kr. skattahækkun sé skattalækkun, því af orðum reiknimeistarans í liði Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Péturs H. Blöndals, mátti ekki ráða annað en að hann væri ánægður með þessa tillögu vegna þess að hann lítur svo að þetta sé ekki hækkun heldur lækkun. Hv. þm. kinkar nú kolli þó ekki heyrist það eins og í sumum forverum hans hér á þingi. En hv. þm. jánkar því að 1.000 millj. kr. álögur á landsmenn feli í sér skattalækkun.

Nú verður það að viðurkennast, virðulegi forseti, að ég er bara þingmaður sem er sennilega með slaka meðalgreind miðað við þá sem hafa þann kvóta sem hv. þm. Pétri H. Blöndal er gefinn af náttúrunnar hendi. Þess vegna vil ég biðja hv. þm. um að koma hérna og útskýra þetta. (Gripið fram í.) Mig brestur vit til þess að skilja röksemdafærsluna sem liggur að baki þeirri staðhæfingu að þegar 1.000 millj. kr. klyfjar eru lagðar á herðar landsmanna þá sé það í raun skattalækkun. (Gripið fram í.) Mig brestur eiginlega skynsemd til þess að skilja þetta.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar. Ég kom fyrst og fremst upp til þess að ráðleggja hæstv. fjmrh. að falla ekki í þær sömu gryfjur og hann er að vara nýja þingmenn við. Hæstv. fjmrh. getur ekki komið hingað, tekið nýja hv. þm. Frjálslynda flokksins á kné sér eins og ungbörn og mælt til þeirra heldur strengilegum rómi, sagt að þeir séu að fara með fleipur og rangindi þegar hann sjálfur leyfir sér þann munað í skorti sínum á röksemdum að afbaka það sem menn hafa verið að segja.

Ekki batnaði nú skák hæstv. fjmrh. þegar hann síðan hélt því fram að í þessari skýrslu sem við vorum báðir að vitna til kæmi fram, eða eins og hann orðaði það, þá væri það afhjúpað, að þungaskatturinn ætti umtalsverða orsök á flutningskostnaði. Ég hef hér rakið með beinni tilvitnun að það sem hæstv. fjmrh. sagði var rangt og nú finnst mér svona í anda góðra siða að hæstv. fjmrh. ætti að koma upp í stólinn og kannski segja við hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson að hann hefði e.t.v. gengið fulllangt þegar hann var að kenna honum mannasiðina áðan.