Úthlutunarreglur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga

Miðvikudaginn 08. október 2003, kl. 13:54:24 (291)

2003-10-08 13:54:24# 130. lþ. 6.95 fundur 65#B úthlutunarreglur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 130. lþ.

[13:54]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Undanfarna daga höfum við rætt á þinginu fjárlög ríkisins. Þau hafa verið eða ýmsir þættir þeirra gagnrýnd mjög harðlega og réttilega en eitt atriði hafa menn þó sameinast um að ljúka lofsorði á og það er sú nýbreytni að leitast við að horfa til framtíðar og gera grein fyrir pólitískum og efnahagslegum forsendum til næstu fjögurra ára. Þar með hafa stofnanir ríkisins vitneskju um hvað vakir fyrir fjárveitingavaldinu og þar með traustari forsendur til að gera rekstraráætlanir sínar.

Öðru máli gegnir um sveitarfélögin. Gagnvart þeim eru viðhöfð allt önnur vinnubrögð. Eins og oft áður er vinnuborð ríkisstjórnarinnar gagnvart sveitarfélögunum handarbakið. En það er ekki nóg með að við séum að verða vitni að handarbakavinnubrögðum því þau hafa mjög alvarlegar afleiðingar fyrir sveitarfélögin, séstaklega þau smáu. Fyrirvararlaust eru þau svipt veigamiklum tekjum. Þess eru dæmi að smásveitarfélög sem hafa fengið úr þessum sjóði tugi milljóna króna fá nú helmingi minna framlag. Á þessu eru mikilvægar byggðapólitískar hliðar.

Jöfnunarsjóði sveitarfélaga er ætlað að jafna tekjumun sveitarfélaganna og tryggja að sveitarfélögin geti viðhaldið eðlilegu þjónustustigi og hefur hér komið fram hvað er um að ræða. Vísað hefur verið í skólaakstur svo dæmi sé tekið. Hæstv. ráðherra segir að sveitarfélögin verði svipt þar 42 millj. kr. en það komi ekki að sök. Það eru ríku sveitarfélögin sem verða svipt þessu framlagi. Og nú spyr ég hæstv. ráðherra: Hvaða sveitarfélög eru það sem eru svo rík, hafa svo mikla sjóði að þau megi verða við slíkri sviptingu? Ég óska eftir svari við þeirri spurningu.