Úthlutunarreglur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga

Miðvikudaginn 08. október 2003, kl. 13:56:57 (292)

2003-10-08 13:56:57# 130. lþ. 6.95 fundur 65#B úthlutunarreglur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga# (umræður utan dagskrár), MS
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 130. lþ.

[13:56]

Magnús Stefánsson:

Herra forseti. Jöfnunarsjóður sveitarfélaga hefur mikið gildi fyrir sveitarstjórnarstigið og er hlutverk hans m.a. að vinna að jöfnuði milli sveitarfélaga er varðar fjármögnun lögbundinna verkefna þeirra. Ef borið er saman við aðrar Norðurlandaþjóðir er umfang jöfnunarsjóðsins hér á landi mun minna en í þeim löndum. En úthlutunarreglur sjóðsins hafa verið endurskoðaðar og lagaðar að breyttum aðstæðum nokkuð reglulega gegnum tíðina, síðast fyrir nokkrum mánuðum.

Þar sem fjármunir þeir sem jöfnunasjóður hefur til ráðstöfunar er einn pottur er ljóst að allar breytingar og tilfærslur framlaga milli einstakra þátta þýða tilfærslu fjárframlaga til sveitarfélaganna. Sú endurskoðun á reglum jöfnunarsjóðs sem fór fram nýlega miðar að ákveðnum markmiðum sem hæstv. félmrh. hefur gert grein fyrir. Fram hefur komið að ýmis sveitarfélög telja að framlög til þeirra lækki eftir þessa breytingu en hafa verður það í huga í því samhengi að á síðasta ári hafði jöfnunarsjóðurinn mun meira fjármagn til ráðstöfunar en á þessu ári og það verður að taka fullt tillit til þess í umræðunni. Ein afleiðing þessara nýju breytinga er að tekjuhá sveitarfélög fá lægri framlög en áður og hlýtur það að teljast rökrétt þar sem um jöfnunaraðgerð er að ræða. En á það skal lögð áhersla að breytingar á reglum jöfnunarsjóðs sem voru unnar nýverið voru unnar í fullu samráði við Samband sveitarfélaga og voru kynntar sveitarstjórnarmönnum og ráðgjafarnefnd jöfnunarsjóðs áður en frá þeim var gengið. Ég vil í því sambandi, herra forseti, gera athugasemd við það sem fram hefur komið hjá hv. þm. Vinstri grænna um að hér sé um skyndilegar breytingar að ræða. Það er ekki rétt. Nefndin sem vann að þessu var skipuð árið 2001 og hún gerði grein fyrir þessum málum á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga, á landsþingi sveitarfélaga og hjá fleiri stofnunum sveitarfélaga. Það er því ekki rétt að hér sé um að ræða skyndilegar breytingar eins og þær hafi dottið ofan úr himnunum vegna þess að þetta hefur verið kynnt. En þessar nýju reglur eru nýkomnar til framkvæmda og ég tel rétt að fá reynslu af þeim breytingum þannig að menn geti unnið að þessum málum í framhaldinu og ef talið er að breytingarnar hafi ekki náð þeim markmiðum sem upp voru sett, þá hljóta menn að skoða það í framhaldinu.