Úthlutunarreglur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga

Miðvikudaginn 08. október 2003, kl. 14:04:33 (295)

2003-10-08 14:04:33# 130. lþ. 6.95 fundur 65#B úthlutunarreglur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 130. lþ.

[14:04]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég held að það verði að ræða þetta mál í fyrsta lagi í ljósi þess að afkoma sveitarfélaganna almennt er óviðunandi. Þó hún sé vissulega breytileg og sveitarfélög finnist sem búa við góðan fjárhag þá er allur þorri sveitarfélaganna að glíma við rekstraraðstæður sem eru alls ekki boðlegar. Þeim mun tilfinnanlegri verða breytingar á þeirra högum sem þýða skyndilegt tekjufall af aðgerðum af þessu tagi. Og það er gagnrýni vert hversu oft það gerist að jöfnunarsjóðurinn, jafnmikilvægur og hann er, er notaður næstum til skyndiákvarðana í þessum efnum eins og þegar menn t.d. setja fyrst inn fólksfækkunar- og sérstöku tekjujöfnunarframlögin og kippa þeim síðan út aftur. Það verkar eins og högg á þau sveitarfélög sem áttu þar mikilla hagsmuna að gæta.

Ég dreg í efa að það standist að hér eigi eingöngu í hlut tekjuhæstu sveitarfélögin sem fá á sig sérstaka skerðingu. Alla vega er það ljóst að þarna eru sveitarfélög að verða fyrir miklu tekjufalli sem eru á sérstökum válista, sérstökum eftirlitslista félmrn. vegna skulda og erfiðs rekstrar. Hljómar það vel að það séu einmitt þau sveitarfélög sem fá þarna á sig sérstakt tekjufall? Ég held varla. Og þessi breyting er víst skyndileg, hv. þm., stjórnarliðar, vegna þess að reglugerðin kom ekki út fyrr en á þessu ári innan yfirstandandi fjárlagaárs og þá fyrst geta sveitarfélögin reiknað út nákvæmlega hvernig þetta kemur við þau. Þetta er víst svona. Það þýðir ekkert fyrir hv. formann fjárln., Magnús Stefánsson, að hrista hausinn. Þetta er bara svona. Það er ekki fyrr en reglugerðin er komin út, inn á yfirstandandi fjárlagaári, sem menn geta séð það nákvæmlega hvernig þeir koma út. Það er framkoma sem er ekki boðleg að skella þessu á sveitarfélögin innan yfirstandandi fjárlagaárs. Ég skora á hæstvirtan ráðherra að taka stöðu þessara sveitarfélaga, kannski á milli 10 og 20 sveitarfélaga sem verða sérstaklega illa úti, til sérstakrar skoðunar og gefa þeim a.m.k. aðlögunartíma eða að setja þak á það hversu skyndilega og hversu mikið framlög þeirra úr jöfnunarsjóði lækki. Allt annað er óviðunandi framkoma nema það sem fyrir mönnum vakir sé (Forseti hringir.) að gera annað tveggja, að svelta þessi sveitarfélög í hel eða svelta þau til sameiningar. Og það skyldi nú ekki vera?