Aðlögunarstuðningur við lífrænan landbúnað

Miðvikudaginn 08. október 2003, kl. 14:26:31 (303)

2003-10-08 14:26:31# 130. lþ. 7.1 fundur 52. mál: #A aðlögunarstuðningur við lífrænan landbúnað# fsp. (til munnl.) frá landbrh., KolH
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 130. lþ.

[14:26]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Aðeins örstutt athugasemd við svar hæstv. landbrh.

Það er auðvitað alveg rétt og öll fögnum við því ef íslenskur landbúnaður getur gert það gott á erlendum mörkuðum. Hins vegar er eins og hæstv. ráðherra neiti að skilja muninn á lífrænt ræktuðum vörum sem hafa vottun frá vottunarfyrirtæki eða vottunarstofu og einhverju sem allir trúa að sé mjög heilnæmt. Munurinn er sá að það eru alþjóðlegir staðlar, viðurkenndir vítt um heim, sem fylgja vottun hinnar lífrænu framleiðslu. Þess vegna geta allir neytendur séð og vitað nákvæmlega þegar þeir sjá vottunarmerkið hvaða tryggingu þeir fá. Slíkt geta neytendur ekki þó að hæstv. landbrh. á Íslandi haldi að allir viti að íslensk landbúnaðarafurð sé afskaplega hrein. Þannig að hæstv. ráðherra verður að fara að komast til skilnings um það að vottun landbúnaðarvaranna okkar er lykilatriði í því að geta komist inn á dýrustu markaði veraldarinnar.